fbpx
Miðvikudagur 30.apríl 2025
EyjanFastir pennar

Thomas Möller skrifar: Borgum meira!

Eyjan
Miðvikudaginn 30. apríl 2025 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Veiðigjöld útgerðarinnar hafa verið til umræðu að undanförnu.

Kannanir sýna að mikill meirihluti þjóðarinnar vill að útgerðin greiði meira fyrir afnot af aflaheimildum sínum meðan útgerðin kvartar sáran og fullyrðir í auglýsingum sínum að tvöföldun veiðigjalda muni hafa íþyngjandi áhrif á afkomu fyrirtækja, fólks og sveitarfélaga víða um land.

Í tilkynningu frá útgerðinni segir að verðmætasköpun á Íslandi sé stefnt í óvissu með fyrirhugaðri hækkun veiðigjalda.

Skoðum þessar fullyrðingar betur.

Gjöfulustu fiskimið í heiminum?

Fiskimiðin umhverfis Ísland eru líklega þau fengsælustu í heiminum í dag.

Á Vísindavefnum eru helstu ástæðurnar taldar upp en þar segir meðal annars að „Grundvöllur hinna auðugu fiskimiða við Ísland er mikil framleiðni svifþörunga við landið.“

Þar segir einnig að „Íslenska hafsvæðið er á meðal frjósömustu hafsvæða heims“ og að „bæði vindar og straumar (stuðla) að því að nýr forði næringarefna berst upp til efri sjávarlaga þar sem hann nýtist svifþörungunum.“

Svo segir á sama vef að „á hinn bóginn stuðlar þessi sami breytileiki einnig að því að sveiflur frá ári til árs í framleiðni dýrastofna hér við land geta orðið tiltölulega miklar. Ástæðan er sú að hér mætast kaldir og heitir hafstraumar.“

Það er því engin furða að fiskveiðar skuli vera eins hagkvæmar og raun ber vitni enda kemur fram í hagtölum ársins 2023 að hagnaðarhlutfall íslensks sjávarútvegs sé um 24% meðan sama hlutfall allra annarra fyrirtækja á Íslandi er um 9%. Það er því næstum þrisvar sinnum arðbærara að stunda sjávarútveg en til dæmis verslun, þjónustustarfsemi eða iðnað á Íslandi.

Þjóðargjöfin mikla gefur lítinn arð

Sjávarútvegsfyrirtækin fengu ókeypis aðgang að þessari gjöfulu auðlind með kvótakerfinu sem var sett á laggirnar árið 1984. Byggt var á veiðireynslu þriggja ára þar á undan.

Þjóðin gaf útgerðarmönnum landsins þannig þessa gríðarlega miklu auðlind án endurgjalds og að auki til eilífðar þar sem afnotarétturinn er ótímabundinn. Þannig er kvótinn bókaður sem eign í dag og erfist til afkomenda kvótahafa gegnum sölu á hlutafé þess fyrirtækis sem „á“ kvótann.

Þess skal getið að almennt er talið að kvótakerfið sem slíkt hafi reynst vel og leitt til mikillar hagræðingar í íslenskum sjávarútvegi en jafnframt hafi komið fram neikvæð áhrif á byggðaþróun víða á landinu.

Í dag er markaðsvirði kvótans um 1200 milljarðar króna. Samkvæmt lögum um þessi mál er kvótinn eign þjóðarinnar og því mætti gera ráð fyrir að þjóðin fengi arð af þessari eign sinni.

Í dag er ríkissjóður að innheimta um 9 milljarða á ári í veiðigjöld af þessari 1200 milljarða eign sinni. Það er um 0,75% leiga sem samsvarar því að 100 milljón króna íbúð væri leigð á um 63 þúsund krónur á mánuði. Það þætti rýr leiga af góðri eign.

Ríkið gerir kröfu um arðsemi Landsvirkjunar upp á 7,5%. Ef slík arðsemiskrafa væri sett á aflaheimildirnar sem ríkið á eins og það á Landsvirkjun, ætti sjávarútvegurinn að greiða þjóðinni um 90 milljarða á ári í arð.

Heildarhagnaður sjávarútvegsins eftir skatta hefur verið í kringum 90 milljarða á ári og ætti að renna allur í ríkissjóð ef Landsvirkjun væri notuð sem viðmið.

Í mínum huga er hagnaðurinn af nýtingu fengsælustu fiskimiða í heimi allt of lítill og þurfa útvegsfyrirtækin að líta í eigin barm og skoða enn meiri tækifæri til hagræðingar og hagnaðaraukningar og þannig greiða mun hærri veiðigjöld.

Gáfuð þið kvótann?

Þegar ég skrifa um þessi mál núna, rifjast upp spurning frá einum af erlendum prófessorum MBA námsins sem ég stundaði við Háskólann í Reykjavík.

Þegar hann frétti af úthlutun aflaheimilda án endurgjalds sagði hann furðu lostinn „gáfuð þið kvótann?“

Hann fullyrti að hvergi í heiminum væri aðgangur að auðlindum gefinn notendum með þessum hætti. Hann nefndi olíuauðlindir, námur, skóglendi, jarðhita, vatnsréttindi og fleira og sagði að alls staðar væri greitt fyrir aðgang að auðlindum, ýmis með uppboðum eða tímabundnum afnotasamningum til skamms tíma.

Hann ætti að vita að við Íslendingar erum nýlega búnir að gefa norskum laxeldisfyrirtækjum ókeypis aðgang að fiskeldissvæðum í íslenskum fjörðum sem er metinn á um 466 milljarða króna sé miðað við nýjustu uppboðsverð á laxeldiskvóta í Noregi.

Borgum meira!

Eins og kemur fram hér að ofan er fyrirhuguð tvöföldun veiðigjalds í raun smáaurar sem útgerðin ætti að fagna í stað þess að kvarta.

Útgerðin ætti frekar að hefja auglýsingaherferð þar sem þjóðinni er þakkað fyrir þann nánast ókeypis aðgang sem hún hefur nú að auðlind okkar.

Ég legg til að útgerðarmenn hætti núverandi auglýsinga- og áróðursherferð og hefji nýja undir heitinu „Borgum meira!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Thomas Möller skrifar: Lærum af Japönum

Thomas Möller skrifar: Lærum af Japönum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Útgerðin fer þangað sem henni sýnist

Sigmundur Ernir skrifar: Útgerðin fer þangað sem henni sýnist
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

María Rut Kristinsdóttir: Er ekki góð stemning?

María Rut Kristinsdóttir: Er ekki góð stemning?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Hið dularfulla og ljóðræna

Björn Jón skrifar: Hið dularfulla og ljóðræna
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið og „sósíalismi andskotans“

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið og „sósíalismi andskotans“
EyjanFastir pennar
29.03.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum húskarlar sem þiggja löggjöf sína eins og hverja aðra ölmusu

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum húskarlar sem þiggja löggjöf sína eins og hverja aðra ölmusu
EyjanFastir pennar
26.03.2025

Svarthöfði skrifar: Skilningslaus ríkisstjórn – hver á núna að halda uppi húsnæðisverði á Íslandi?

Svarthöfði skrifar: Skilningslaus ríkisstjórn – hver á núna að halda uppi húsnæðisverði á Íslandi?
EyjanFastir pennar
26.03.2025

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sporin hræða

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sporin hræða