

Gjaldmiðill hverrar þjóðar skiptir miklu máli. Hann er einn af innviðum landsins eins og vegakerfið og flugvellir.
Mikilvægt er að ræða kosti og galla krónunnar sem gjaldmiðil fyrir Ísland. Krónan virðist oft vera eins og fíllinn í herberginu sem ekki megi ræða um og þá sérstaklega af hálfu hinna mörgu samtaka launþega og atvinnulífsins, ekki síst sjávarútvegsins.
Þjóðin skiptir sér í tvær andstæðar fylkingar sem eru ýmist með eða á móti krónunni.
Því miður er ekki nægjanlega rætt um gjaldmiðlamál landsins og mögulega upptöku evru í tengslum við aðild að ESB sem hagsmunamál, heldur nánast sem trúmál og eldheita pólitík.
Krónan er hjá mörgum álitin tákn um fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar og er eins þjóðleg og fáninn og skjaldarmerkið okkar. En við erum bara að tala um þann gjaldmiðil sem við notum í viðskiptum og til að mæla eða geyma verðmæti.
Er krónan bölvun eða blessun? Skoðum málið nánar.
Árið 1875 varð krónan hluti af samnorrænu myntbandalagi Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar. Þannig var íslenska krónan þá, eins og evran er í dag, jafnverðmæt í öllum löndum myntbandalagsins. Þá var hægt að kaupa vörur og þjónustu með íslensku krónunni víða í Norður Evrópu.
Sem dæmi má nefna þá fór Thor Jensen til Skotlands á þessum tíma með fullar ferðatöskur af krónum til að kaupa veiðarfæri og heildsalar greiddu fyrir vörur frá Danmörku með íslenskum krónum.
Eitt mesta hagvaxtarskeið Íslandssögunnar var frá um 1890 til 1914 þegar krónan var í raun alþjóðlegur gjaldmiðill sem er hugsanlega eitthvað sem við getum lært af.
Árið 1922 ákváðu stjórnvöld að gera krónuna sjálfstæða og var hún strax frelsinu fegin enda hefur hún síðan rýrnað um 99,98%.
Saga gjaldmiðils okkar er ein samfelld sorgarsaga þar sem gífurleg verðmæti hafa glatast, fjármunir hafa færst milli stétta og kynslóða og alls kyns mismunun hefur átt sér stað gegnum gengisfellingar og verðhrun krónunnar. Þetta þekkjum við öll sem erum fædd eftir miðja síðustu öld.
En þrátt fyrir krónuna hefur okkur vegnað vel og má segja að þátttaka landsins í EFTA og EES, auk hagstæðrar þróunar orkuöflunar, sjávarútvegs og ferðaþjónustu hafi fært þjóðina í nútíma hagkerfi viðskiptafrelsis og alþjóðaviðskipta.
Íslenska hagkerfið er mjög lítið. Hagkerfi Gautaborgar er um tvisvar sinnum stærra en það íslenska. Lissabon hagkerfið er þrisvar sinnum stærra og hagkerfi Sikileyjar er um fjórum sinnum stærra en hagkerfi okkar. Newham hverfið í London er með sama íbúafjölda og Ísland. Engri þessara borga eða hverfa myndi detta það í hug að hafa eigin gjaldmiðil.
Ekkert land í heiminum með hagkerfi svipað að stærð og okkar notar sjálfstæðan gjaldmiðil. Flest þeirra hafa ýmist tekið upp alþjóðlegan gjaldmiðil eða tengt gengið við hann. Það er einfaldlega talið of áhættusamt og dýrt að halda úti eigin gjaldmiðli hjá smáþjóðum.
Krónan býr við gengissveiflur sem ýta undir verðbólgu, hagsveiflur og vexti. Eingöngu á síðustu 12 mánuðum hefur krónan tekið um 17 dýfur og stökk þar sem hún ýmist styrkist eða veikist.
Icelandair hefur lýst því yfir að afkomubrestur ársins 2025 sé aðallega vegna of hás gengis krónunnar. Á síðustu dögum hefur hún veikst sem þýðir að öll innflutt vara mun hækka á næstu mánuðum og ýta undir verðbólguna.
Þessar gengissveiflur og afleiðingar þeirra koma fram í hærri vöxtum af íbúðalánum og hærri húsaleigu. Sveiflurnar leiða til gengisáhættu sem er mætt með hærri álagningu á vörur hjá heildsölum og smásölum og hærra söluverði á nýjum íbúðum.
Sumir segja að krónan hafi bjargað okkur úr hruninu 2008. Aðrir halda því fram að hún hafi beinlínis orsakað hrunið sem var eitt stærsta gjaldmiðilshrun í heiminum þá.
Ef Ísland hefði verið með evru hefðum við ekki lent í eins alvarlegu efnahagshruni og raunin varð. Evrópski Seðlabankinn hefði verið búinn að grípa í taumana og stöðvað stækkun íslensku bankanna sem voru orðnir um 12 sinnum þjóðarframleiðslan. Þeir eru í dag innan við tvisvar sinnum þjóðarframleiðsla Íslands.
Enn aðrir segja að við verðum að hafa sveigjanlegan gjaldmiðil til að geta jafnað út sveiflur í hagkerfinu meðan aðrir fullyrða að með því að nota alþjóðlegan gjaldmiðil eins og evruna eða dollar muni skapast stöðugleiki í hagkerfinu. Stöðugur alþjóðlegur gjaldmiðill krefst aga í hagstjórn þegar möguleikinn til að fella gengið er ekki lengur til staðar.
Dæmi um þetta eru Færeyjar sem eru með gjaldmiðil sem er tengdur við evru. Færeyingar búa við stöðugleika, hagvöxt, lága vexti og lítið atvinnuleysi.
Krónan er mjög dýr í rekstri. Tökum nokkur dæmi.
Út- og innflutningsfyrirtækin í landinu þurfa að skipta gjaldeyri að upphæð um 3 þúsund milljarða króna á ári með tilheyrandi skiptikostnaði. Almenningur þarf að kaupa gjaldeyri á ferðalögum og við þekkjum öll kostnaðinn við það. Með upptöku evru félli þessi kostnaður niður í viðskiptum og ferðalögum til evrulanda.
Við þurfum að halda úti Seðlabanka með rúmlega 300 starfsmönnum og kostar um 10 milljarða á ári í rekstur. Ef okkar Seðlabanki er hlutfallslega borinn saman Seðlabankann í Noregi þá ættu um 90 manns að starfa í þeim íslenska. Við upptöku evru tekur Seðlabanki Evrópu að sér flest núverandi verkefni Seðlabankans.
Við þurfum að halda úti gjaldeyrisforða til að styðja við krónuna sem er talinn kosta okkur um 30 milljarða á ári eða um 100 milljónir á hverjum degi. Lífeyrissjóðir landsins búa við hörð gjaldeyrishöft sem takmarka fjárfestingargetu þeirra á erlendum mörkuðum.
Vaxtamunur á lánum í evrum og krónum er um 5 prósentustig í dag. Miðað við heildarskuldir okkar Íslendinga sem eru um 10 þúsund milljarðar kostar krónan okkur um 500 milljarða á ári í viðbótar vaxtakostnað eða um 1,400 milljónir á dag.
Ríkissjóður er talinn vera að borga um 80 milljörðum meira í vexti á ári í krónum miðað við það ef hann væri fjármagnaður í evrum.
Um 290 íslensk fyrirtæki sem standa að baki um helmingi þjóðarframleiðslunnar hafa tekið upp reikningsskil og fjármögnun í erlendum gjaldmiðlum. Þau kjósa með fótunum eins og íbúar Austur Berlínar gerðu þegar þeir flúðu vestur yfir.
Nokkur verslunarfyrirtæki eru að fjármagna reksturinn í evrum. Meðal þeirra eru innflytjendur á bílum og vinnuvélum sem hafa í raun haft verð á nýjum bílum og tækjum í evrum („verð háð gengi“). Vitað er um heildsala sem gera reikninga til útflutningsfyrirtækja í evrum. Þannig eru fyrirtækin í landinu að flýja krónuna og taka upp erlenda gjaldmiðla.
Almenningur situr eftir með sín rándýru krónulán og getur ekkert annað en sætt sig við ástandið.
Miðað við augljósa ókosti þess fyrir lítið hagkerfi að hafa eigin gjaldmiðil og þann kostnað sem almenningur, ríkið og atvinnulífið hefur af honum, sætir furðu að nokkur samtök atvinnurekenda og launþega hafa nánast ekkert fjallað um krónuna eða greint áhrif hennar á hag umbjóðenda sinna.
Eina undantekningin er Félag Atvinnurekenda og Verkalýðsfélag Akraness sem hefur krafist úttektar á kostnaði krónunnar og mat á öðrum valkostum.
Því hefur verið haldið fram hjá þeim sem vilja hafa krónuna áfram, að það eina sem þarf að gera er að fá meiri „aga í hagstjórn landsins.“ Þetta hefur verið sagt í 100 ár.
Með tengingu við eða upptöku evru mun hagkerfið okkar þurfa að gangast undir ströng skilyrði um verðbólgu, aðhald í ríkisrekstri og hagstætt skuldahlutfall. Þessi agi kemur að utan með evrunni. Við munum þurfa þannig að laga okkur að þeim kröfum sem þátttaka í gjaldmiðlasamstarfi Evrópuþjóða setur á okkur.
Skýrslur hafa verið skrifaðar um það hvort krónan henti okkar örsmáa hagkerfi. Þær hafa komist að þeirri niðurstöðu að lífskjör og útflutningur myndi aukast verulega með upptöku evru.
Nýlega skipaði fjármálaráðherrann okkar, Daði Már Kristófersson nefnd erlendra sérfræðinga sem á að meta kosti þess að halda krónunni eða taka upp annan gjaldmiðil. Þessi ákvörðun Daða er mikilvæg og bíða margir eftir niðurstöðum þessarar greiningar.
Málið mun þó væntanlega leysast þegar við göngum í ESB á næstu árum og tökum upp evruna í kjölfarið. Meirihluti landsmanna er fylgjandi þessu samkvæmt nýjustu könnunum.
Þannig er nokkuð ljóst að krónan mun hverfa í síðasta lagi á 110 ára afmæli sínu árið 2032.
Höfundur er stjórnarmaður í Evrópuhreyfingunni www.evropa.is.