fbpx
Mánudagur 15.desember 2025
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: EES og leiðin til aukinnar hagsældar

Eyjan
Sunnudaginn 14. desember 2025 16:00

Kaupmaður að störfum. Málverk Jan Gossaert frá því um 1530.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mér var kennt á sínum tíma að ekki færi vel á að nota mikið skammstafanir í íslensku, þær væru lesendum hvimleiðar og helstu rökin fyrir notkun þeirra á fyrri öldum ættu ekki lengur við þar sem nóg væri til af pappír að ekki sé nú talað um þegar rýmið er orðið næstum ótakmarkað í hinni stafrænu veröld. Í hvers kyns fagmáli er þó eðli máls samkvæmt talsvert notast við skammstafanir til að spara málalengingar. Í lögfræðinni er Mannréttindadómstóll Evrópu gjarnan nefndur MDE og mannréttindasáttmálinn MSE svo dæmi sé tekið. Mér þykir þetta vera lýti á texta og innræti nemendum mínum að nota frekar persónufornöfn, sem og styttingar á orðum, tala um „dómstólinn“ ellegar „sáttmálann“.

Ein er þó sú skammstöfun sem ég felli mig enn verr við en það er EES. Ég man að minn gamli kennari, Sigurður Líndal, kallaði þetta „óttalegt jarm“. Betur færi á að tala um Oportósáttmálann — fyrir því væri löng venja að kenna samninga við borgina þar sem þeir voru undirritaðir. Um tíma vísaði sá sem hér heldur á penna til Oportósáttmálans en fæstir vissu hvað ég var að tala um svo ég hef neyðst til að taka aftur upp jarmið.

Ósanngjörn gagnrýni

Um staðfestingu Oportósáttmálans urðu ein harðvítugustu átök sem orðið hafa á Alþingi, þrýst var á forseta Íslands að synja lögunum staðfestingar og þung orð látin falla. Er fram liðu stundir var sem allir vildu Lilju kveðið hafa og almenn sátt hefur orðið um gagnsemi Evrópska efnahagssvæðisins fyrir íslenska hagsmuni. Þar með opnuðust fjármagnsmarkaðir endanlega og líklega hefur enginn sáttmáli reynst Íslendingum jafn hagfelldur í efnahagslegu tilliti.

Í norskum miðlum hefur nokkuð borið á gagnrýni á sáttmálann undanfarin ár en sumir hérlendir stjórnmálamenn eru farnir að taka undir slík viðhorf og ekki nema gott að deilt sé á um alla skapaða hluti. Sáttmálanum er samt kennt um sitthvað sem eru heimatilbúin vandamál okkar Íslendinga. Ég gæti nefnt sem dæmi útlendingamálin — alvarlegustu meinsemdir í þeim málaflokki eru tilkomnar vegna mislukkaðrar lagasetningar árið 2016 þegar opnað var fyrir flóðgáttir hælisleitenda — vandi sem ekki er enn búið að vinda ofan af þó skaðinn sé geigvænlegur. Hitt sem sætir gagnrýni eru mjög íþyngjandi reglugerðir Evrópusambandsins sem sumar eru innleiddar hér á landi með mun viðurhlutameiri hætti en efni standa til — meðal annars vegna þess að ekki er horft til fyrirmynda um innleiðingar sömu tilskipana í Danmörku og Noregi, þeim löndum sem búa við áþekkust lög og við. Hér virðist sem skortur á kunnáttu í Norðurlandamálum sé að koma Íslendingum í koll, landsmenn eru í sumum skilningi að einangrast þrátt fyrir allt talið um alþjóðavæðingu.

Sitthvað fleira mætti tína til úr ósanngjarnri gagnrýni á sáttmálann en samt hefur mér fundist á stundum sem of mikið sé gert úr hlut hans, miklu fleira stuðlaði að auknu frjálsræði í viðskiptum hérlendis og þar með aukinni velmegun.

Löng leið til frjálsari viðskiptahátta

Á dögunum komu út endurminningar Þorvarðar Elíassonar sem undirritaður skráði en Þorvarður er einkum kunnur fyrir að stýra Verslunarskólanum um aldarfjórðungsskeið. Áður en hann réðst til skólans var hann framkvæmdastjóri Verslunarráðs og við gerum í bókinni grein fyrir baráttu ráðsins fyrir auknu frelsi í verslun og viðskiptum á áttunda áratug síðustu aldar. Verslunarráðið barðist á þeim tíma meðal annars fyrir frjálsari gjaldeyrisviðskiptum. Seðlabankanum var ætlað að sjá til þess að nægur gjaldeyrir væri jafnan til en í rauninni mátti hann ekkert gera nema með leyfi ríkisstjórnarinnar. Þorvarði var kunnugt um að Jóhannes Nordal seðlabankastjóri vildi viðhalda jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar líkt og gert var í öðrum vestrænum löndum en á Alþingi sátu í raun fáir menn sem höfðu trú á því að lögmál efnahagslífs giltu á Íslandi. En svo var þessu dálítið leyft að þróast án þess að gerðar væru lagabreytingar og að lokum tekin upp formleg gengisskráning á markaði sem Seðlabankinn hafði eftirlit með.

Sitthvað fleira í umgjörð verslunar og viðskipta hér á landi þurfti nauðsynlega að færast nær því sem tíðkaðist meðal helstu viðskiptalanda. Íslendingar höfðu árið 1970 gerst aðilar að Fríverslunarsamtökum Evrópu. Hart var deilt um þá aðild en það vakti athygli mína þegar ég var einhverju sinni að garfa í gömlum blöðum að forkólfar Félags íslenskra iðnrekanda voru mjög fylgjandi inngöngu í samtökin á sinni tíð þrátt fyrir að fyrir lægi að lækkun tolla hefði í för með sér að innflutningur ódýrari vöru kippti stoðum undan hluta íslensks iðnaðar. Iðnaðurinn hafði einfaldlega á að skipa forystumönnum sem vildu taka þjóðarhagsmuni fram yfir þrönga hagsmuni einstakra hópa og stétta. Sveinn B. Valfells, forstjóri Vinnufatagerðarinnar, sem verið hafði formaður Félags iðnrekenda um 1960 sagði í ræðu einhverju sinni að með aðild að Fríverslunarsamtökunum gætu Íslendingar keppt á jafnréttisgrundvelli á erlendum mörkuðum og færst nær nágrannalöndunum í efnahagslegum jafnt sem pólitískum skilningi.

Árið 1978 gagnrýndi Sveinn í blaðaviðtali „heimska stjórnmálamenn“ sem blönduðu sér inn í viðskiptalögmálin í stað þess láta „hin eðlilegu ökonómísku lögmál ráða ferðinni“. En hann taldi að þetta gæti færst til betri vegar með nýrri kynslóð „með nýtt uppeldi og meiri menntun og skilning á efnahagsmálum og þá megi lagfæra hlutina eins og alla aðra hluti. En til þess þarf kynslóðaskiptingu því að gamla kynslóðin getur það aldrei úr því sem komið er“. Þessi kynslóðaskipti sem hann dreymdi um urðu á níunda og tíunda áratugnum samhliða því sem fjármagnsmarkaðir opnuðust. Þar vó Oportósáttmálinn þyngst en á níunda áratugnum höfðu þó ráðherrarnir Albert Guðmundsson og Matthías Á. Mathiesen haft forgöngu um ýmsar úrbætur á fjármálamarkaði, svo sem afnám einkaleyfis til gjaldeyrisverslunar og þá voru stór skref voru stigin til afnáms verðlagshafta.

Eilíf barátta

Þorvarður Elíasson komst ágætlega að orði í blaðaviðtali árið 1980 þegar hann gagnrýndi að Íslendingar sykkju sífellt dýpra í fen ofstjórnar með hverju árinu sem liði — en ofstjórn væri dæmd til að mistakast því hún væri ekki í samræmi við grundvallarlögmál markaðskerfisins og lögmál þess væri jafn vonlaust að brjóta og hver önnur náttúrulögmál. Íslendingar yrðu að horfast í augu við það að besta leiðin til að halda uppi og auka efnahagsstarfsemina væri að nota verslun og viðskipti sem hagstjórnartæki en hætta geðþóttaákvörðunum stjórnvalda.

Þessi orð eiga jafnvel nú og fyrir 45 árum og baráttan fyrir bættum lífskjörum heldur stöðugt áfram. Þorvarður rifjar það upp í bókinni að þegar hann var fimm ára að aldri — við lok síðari heimsstyrjaldar — hefðu Íslendingar verið meðal auðugustu þjóða heims og átt miklar bankainnstæður í Bretlandi. Þá hefði verið auðvelt að hverfa aftur til frjálsrar utanríkisverslunar. Það varð ekki og landsmenn festust í viðjum hafta og um tíma var engu líkara en varla nokkur alþingismaður tryði á að efnahagslögmál ættu við á Íslandi. Gefum Þorvarði orðið:

„Saga íslensks efnahagslífs hefur verið saga kollsteypa alla mína ævi. Sumir hafa jafnvel gengið svo langt að telja Íslendinga vanhæfa til að reka sitt eigið þjóðfélag. Slíkar úrtöluraddir hafa sem betur fer hljóðnað að mestu. Undir lok síðustu aldar hillti undir nýja tíma með nýrri vel menntaðri kynslóð og flest í umhverfi íslensks atvinnulífs var fært til samræmis við það sem tíðkast í öðrum vestrænum ríkjum. Síðan þá hafa lífskjör tekið stakkaskiptum.“

Lykilþáttur í þessari nútímavæðingu viðskiptahátta var aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu en margt fleira varð til að bæta ytri skilyrði viðskiptalífs. Enn mikilvægara var þó að Íslendingum hafði tekist að stórauka verðmætasköpun alla tuttugustu öld. Til uppbyggingar stórútgerðar í byrjun tuttugustu aldar þurfti erlent lánsfé og sömu sögu er að segja af tilkomu stórvirkjana rúmri hálfri öld síðar. Að auki þurftu menn að afla sér hvers kyns hugvits og verksvits erlendis frá en það voru þó vel að merkja Íslendingar sjálfir sem byggðu upp það þjóðfélag sem við njótum ávaxtanna af á okkar tímum í formi einhverra bestu lífskjara í heimi.

Þorvarður nefnir undir lok bókarinnar að kynslóð foreldra sinna hefði gert „Íslandi allt“ að kjörorði sínu. Sú kynslóð hefði vitað sem var að áframhaldandi framfarasókn byggðist á þekkingu og dugnaði fólksins sjálfs. Og þannig mun það líka verða til frambúðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Tölum um krónuna … í alvöru!

Thomas Möller skrifar: Tölum um krónuna … í alvöru!
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Íslenskan í forgrunni

Björn Jón skrifar: Íslenskan í forgrunni
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Einum leiðarstjarna – öðrum mýrarljós

Þorsteinn Pálsson skrifar: Einum leiðarstjarna – öðrum mýrarljós
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Hvernig væri lífið án EES?

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Hvernig væri lífið án EES?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Thomas Möller skrifar: Sögueyjan Sikiley

Thomas Möller skrifar: Sögueyjan Sikiley
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Að hika er að tapa

Svarthöfði skrifar: Að hika er að tapa
EyjanFastir pennar
14.11.2025

Nína Richter skrifar: Engin dulnefni hér, takk

Nína Richter skrifar: Engin dulnefni hér, takk
EyjanFastir pennar
13.11.2025

Svarthöfði skrifar: Uppblásinn hoppukastali Sjálfstæðismanna til sölu – nafnið öfugmæli

Svarthöfði skrifar: Uppblásinn hoppukastali Sjálfstæðismanna til sölu – nafnið öfugmæli