
Spaugstofan var hirðfífl í íslensku samfélagi: Þættirnir gengu í aldarfjórðung og voru að lokum teknir af dagskrá vegna þess að valdaöfl í samfélaginu vildu ekki þurfa að hlusta á þessa ádeilu lengur. Valdamaður hellti sér yfir einn Spaugstofumanna í flugvél og tilkynnti honum að hann vissi mætavel erinda á hvers vegum Spaugstofan væri. En á meðan Spaugstofan mátti vera hirðfíflið stakk hún vel á kýlum og beitti húmor sem vopni. Karl Ágúst Úlfsson er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Karl Ágúst - 4
Þetta var beitt háð.
„Já, við gerðum svolítið út á það. Við vildum ekki bara vera fyndnir. Við vildum líka hafa einhverja meiningu í því sem við gerðum. Og auðvitað var það misjafnt. Náttúrulega voru út af fyrir sig ýmsar tegundir af húmor sem við notuðum. Og þetta var ekki allt saman eins. Það var alltaf dálítið skrítið þegar einhver sagði, já, þetta er náttúrlega rosalega Spaugstofulegt. Það var vel þegið svo sem, en við vorum oft að nota þess vegna bara fimmaurabrandara til þess að svona aðeins að halda uppi stemningunni yfir í næsta atriði.“
Fimmaurabrandarar eru mjög vanmetnir að mínu mati.
„Þeir eiga fullan rétt á sér.“
Algjörlega. En það sveið undan ykkur.
„Já, það var fólk sem var mjög ósátt við okkur. Það þurfum ekkert að horfa fram hjá því.“
Nei, ég held það sé í bókinni Fífl sem ég var, ég held þú rifjir upp þar að einhvern tíma var Örn Árnason í flugvél, á Saga Class, og lenti við hliðina á Halldóri Ásgrímssyni. Og Halldór bar sig mjög aumlega við hann, eða vandaði um fyrir honum.
„Já, ég held hann hafi verið reiður. Já, hann setti mjög mikið ofan í við hann. En það var nú þar einmitt sem komu þessar kenningar, sem við höfðum ekki heyrt áður, að við værum á vegum einhvers pólitísks flokks eða samtaka …“
Já, sagði hann ekki: „Ég veit nákvæmlega hvaða flokka þið styðjið.“.
„Já, og svo taldi hann það upp og það var nú eitthvað sem kom mér á óvart. Ég átti að fylgja einhverjum flokki sem ég hafði aldrei kosið. En bara þessi kenning sem að ég veit ekki alveg hvaðan kom, en hún var þá greinilega á kreiki, að einhver pólitísk samtök hefðu bara ráðið okkur í vinnu og við værum bara peningalega á þeirra vegum til þess að gera árásir á andstæðinga og gera lítið úr ríkisstjórn og öllu því, en það var nú alls ekki þannig. Það voru nú meira okkar hugmyndir sem við útfærðum.“
Ég verð að segja að ég sakna þess dálítið. Nú hvað, það eru komin 11 ár síðan Spaugstofan, síðasti þáttur Spaugstofunnar kom og það hefur í raun og veru ekki verið þessi háðdeila sem Spaugstofan var. Það vantar þannig. Við sjáum í Ameríku, þar sem að pólitíkin er náttúrlega komin út í skurð og kannski enn lengra, þar er alla vega enn þá mjög virk háðdeila í sjónvarpi.
„Já, það er alveg rétt, en þessu hefur bara eiginlega, satt að segja, verið hafnað á Íslandi. Við hættum þarna, já, eins og þú segir, fyrir 11 árum og við höfum svo sem alveg komið með hugmyndir eftir það en við höfum alveg fengið mjög afgerandi nei frá öllum sjónvarpsstöðvum og það er, þeir kæra sig ekki um húmor af þessu tagi, heldur eitthvað allt annað, einhvern annars konar húmor. Húmor sem ég sé í sjónvarps, á sjónvarpsstöðvum, er oft og tíðum bara mjög flottur og góður og ég hlæ með þeim sem eru að koma fram. En mér finnst það svolítið áhyggjuefni ef að það má hreinlega ekki deila á pólitíkusa eða þá sem eru ráðandi í samfélaginu.“
Ég er alveg sammála þér og ég held að þetta sé mikilvægur hluti af lýðræðinu, af því það er nú oft húmorinn sem algjörlega bendir á: „Þetta er vandamálið.“
„Þá komum við nú að því að kveðjusýningin mín á íslensku leiksviði var sýning sem hét Fíflið og var sýnd í Tjarnarbíói. Og þar er ég náttúrlega að vekja máls á því og fjalla um það hversu mikilvægu hlutverki hirðfíflin gegndu í gegnum alla mannkynssöguna. Þar sem hirðfífl í hirð konungs gat deilt á konunginn og var kannski eina persónan í því umhverfi sem að mátti það. Svo framarlega sem það var fyndið. Ef fíflið krítíseraði kónginn og það var enginn brandari, þá gat það misst hausinn þess vegna. En þetta var hlutverk hirðfíflanna og hirðfíflin voru starfandi bara eins lengi og nokkrar heimildir herma. Það var hirðfífl á Ólympstindi á sínum tíma, samkvæmt grískri goðafræði.
En svo náttúrlega koma einræðisherrar eins og, ja, nefnum bara nöfn eins og Hitler og Stalín. Það mátti ekki gera grín að þeim. Þeir höfðu ekki hirðfífl í sínu nágrenni.“
Manni dettur nú kannski í hug eitt nafn í viðbót og hann er enn meðal vor.
„Já, sjáið nú hvernig það er. Þar er til dæmis algjörlega húmorslaus maður á ferðinni. Hvað annað sem má segja um hann. Og það er bara skelfilega hættulegt að gera grín að honum.“
Það er hættulegt og við sjáum að hann virðist vera að einhvern veginn beygja bandaríska fjölmiðla undir sig. Hann er að láta reka menn úr starfi, hann er að stöðva sjónvarpsþætti.
„Og refsa mönnum fyrir brandara. En það sem ég er að segja í þessu samhengi er að Spaugstofan var hirðfífl í íslensku samfélagi. Við vorum það og þess vegna komumst við upp með ýmislegt, á meðan við máttum. En svo held ég nú bara hreinlega að valdamiklir menn á Íslandi, hvort sem þeir höfðu mikil völd í efnahagslífinu eða peninga, já, í kapítalismanum eða pólitíkinni almennt. Þeir bara settu sig upp á móti því að það yrði hlustað á okkur framar. Og hafa, held ég, allavega, það er mín tilfinning, hafa haldið okkur utan sjónvarpsstöðva eða fjölmiðla.“