

Ég gekk út af sýningu Leikfélags Reykjavíkur á Hamlet í liðinni viku. Mér ofbauð niðrandi meðferðin á einu stórbrotnasta verki heimsbókmenntanna. Um leikritið hafði leikstjórinn, Kolfinna Nikulásdóttir, haft þau orð að hún hygðist „stinga [því] í samband við nútímann“. Það tókst ekki betur til en svo að verkið sjálft verður á köflum „hálfgert aukaatriði eða grín“ eins og Símon Birgisson, leiklistardómari Vísis, orðaði það. Ég myndi ganga lengra: verkið sjálft missir algjörlega marks en Hamlet er vel að merkja margslunginn og hinn eiginlegi texti þarf að vera í forgrunni. Símon gagnrýnandi hafði á orði hversu illt það væri að staðsetja ekki uppfærslu Kolfinnu þegar í upphafi:
„Við vitum ekki hvort þetta ríki sé rotið eður ei. Við vitum ekki hvort hætta steðji að eða hver tengslin eru milli alþýðunnar og valdastéttarinnar. Og það flækir málin eftir því sem líður á verkið.“
Ég missti þar með ekki af neinu eftir hlé þegar ég var horfinn út í náttmyrkrið. En ekki nóg með allar enskusletturnar, slanguryrðin og fíflaganginn þá syngja höfuðpersónurnar poppslagara á ensku í gríð og erg, svo að segja samhengislaust. Eðlilega velti ég því fyrir mér hvað vekti fyrir leikstjóranum með þessu öllu saman. Helst grunar mig að hann telji leikhúsgesti ekki skilja textann nógu vel svo hægt sé að hafa hann í forgrunni. Sé það skýringin þá skjátlast honum hrapalega.
Listamaðurinn Einar Baldvin Árnason ritaði áhugaverða grein sem birtist á Vísi í liðinni viku þar sem hann gerði að umtalsefni nýlegar fréttir þess efnis að þjóðkirkjuprestar nokkrir hefðu boðið fermingarbörnum upp á kennslu í sjálfsfróun þar sem um leið var hæðst að Jesú Kristi, Maríu mey og Maríu Magdalenu, en af fregnum að dæma virtust viðstaddir þjóðkirkjuprestar hafa hlegið að guðlastinu. Við blasti að umræddir klerkar treystu sér ekki til að skýra inntak kristindómsins fyrir ungmennum og sneru því fermingarfræðslunni upp í skrípaleik. Einar Baldvin benti aftur á móti á að þrettán ára ungmenni væru vel fær um að skilja kristna kenningu, læra um kirkjusögu, myndmál kirkjunnar, áhrif grískrar heimspeki hér á og þannig mætti áfram telja.
Sjálfur kynntist ég í sunnudagsskóla inntaki helstu biblíusagna sem hefur reynst mér mikilvæg þekking síðar á lífsleiðinni, ekki bara til trúarskilnings heldur líka til að þekkja vestræna sögu og menningu, sem er mín eigin saga og menning. Síðar dýpkaði sá skilningur í fermingarfræðslu hjá séra Árna Bergi Sigurbjörnssyni heitnum. Og Einar Baldvin orðar það vel þegar hann segir þekkingu á kristinni trú „megingrundvöll þess að skilja okkur sjálf og samfélagið allt“.
Fíflagangur þjóðkirkjupresta er svo sem engin nýlunda, alls konar skrípaleikir og apaspil hafa viðgengist í athöfnum kirkjunnar undanfarna áratugi þar sem mælikvarði alls verður skemmtanagildið eitt. Góður maður mælti eitt sinn að kirkja sú sem giftist tíðarandanum yrði brátt ekkja og bróðir séra Árna Bergs, Karl heitinn biskup, komst svo að orði afhelgunin væri
„mein sem ógnar lífinu, virðingarleysið og yfirgangurinn og ærustan sem henni fylgir er ógnun við lífið. Vart verður hamlað gegn henni með öðrum leiðum en leita heilagleikans og helgunarinnar, og hlúa að lotningunni og virðingunni. Kirkjan og prestar hennar þurfa ekki að keppa um vinsældir á forsendum heimsins. Kirkjan þarf að verða dýpri, heilli og hlúa að iðkun hins heilaga og helgun lífsins og leitast við að virka á þann hátt sem súrdeig, salt og ljós í samtíðinni.“
Hér verður vart betur að orði komist.
Fyrir skemmstu var greint frá því í Morgunblaðinu að skáldsögur Halldórs Kiljans Laxness væru aðeins lesnar í um þriðjungi framhaldsskóla landsins. Í blaðinu var þess getið að kennarar hefðu almennt gefist upp á að leggja fyrir verk Kiljans vegna dræms lesskilnings og lítils orðaforða nemenda.
Margir lögðu orð í belg í kjölfarið og ekki laust við að orð Hamlets Danaprins kæmu upp í hugann: „Úr liði er öldin! Ó, mig hryllir við / þeim örlögum, að kippa henni í lið.“ Meðal þeirra sem tóku til máls var ein ástsælasta leikkona þjóðarinnar, Unnur Ösp Stefánsdóttir. Hún kvaðst hafa spurt átján ára son sinn hvaða verk Halldórs Kiljans hann læsi í framhaldsskólanum en fátt orðið um svör. Sér þætti það sorgleg staðreynd að kennarar gæfust upp á þjóðskáldinu og rifjaði upp að þegar hún hefði sautján ára að aldri lesið Sjálfstætt fólk og Sölku Völku hefði eitthvað opnast innra með sér og flogið á nýjan stað í huganum.
Að sama skapi mun eitthvað deyja innra með þjóð (eitt sinn réttnefnd bókmenntaþjóð) sem hættir að lesa það gullvægasta af eigin bókmenntum. Matthías Johannessen ritstjóri orðaði það svo í minningarorðum um Halldór Kiljan að þann dag sem Íslendinga gleymdu ritsnilld hans gegndu þeir ekki lengur hlutverki sínu sem þjóð.
Sem betur fer er þó vonleysið ekki algjört og við hressilegan tón kvað í grein Hildar Ýrar Ísberg, íslenskukennara við Menntaskólann við Hamrahlíð, sem er einn þeirra örfáu skóla sem enn leggja fyrir nemendur sína að lesa verk Kiljans. Galdurinn við Sjálfstætt fólk væri að hennar mati hversu krefjandi hún væri fyrir lesandann. Nemendur sem lykju stúdentsprófi yrðu að geta lesið bókmenntir þar sem lesandinn væri krafinn um að skilja flóknar tilfinningar og taka afstöðu í örðugum viðfangsefnum. Gefum Hildi Ýr orðið:
„Það er ekki auðvelt að læra Sjálfstætt fólk. Það er raunar ekki alltaf auðvelt að kenna Sjálfstætt fólk. En það á heldur ekki alltaf að vera auðvelt að vera í námi. Ég kæri mig alls ekki um að vera kennari sem „mætir nemendum þar sem þau eru“. Ég lít ekki á það sem mitt hlutverk eða starf. Mitt starf er að hjálpa nemendum að þroskast og vaxa, að fá þau einmitt til þess að hætta að vera þar sem þau eru þegar þau koma til mín og gera þau reiðubúin til að takast á við lífið á nýjan hátt. Nám verður að vera erfitt og krefjandi, annars erum við ekki að sinna okkar skyldum.“
Nú vill svo til að ég er sjálfur kennari og get tekið heilshugar undir þetta viðhorf, nemendum er enginn greiði gerður með sífelldum afslætti af námskröfum þar sem viðmiðið verður jafnan lægsti samnefnari. Þvert á móti er nauðsynlegt að fela ungu fólki viðfangsefni sem reyna verulega á þau andlega og það verður mér sífellt undrunarefni hversu miklum framförum ungt fólk getur tekið á undraskömmum tíma.
Hvað móðurmálið varðar þarf að dýpka skilninginn með stóraukinni færni og bættum orðaforða. Við þörfnumst ekki eingöngu málskilning og málfærni til að lesa texta og tjá okkur — heldur líka til dýpri hugsunar og skilnings á eigin hugsunum. Takist hér vel til munu ungmennin öðlast hlutdeild í sameiginlegum menningararfi okkar og annarra vestrænna þjóða, verða djúpt hugsandi fólk sem getur notið íslenskra fornrita og verka Williams Shakespeares jafnt sem heilagrar ritningar sem hefur að geyma margt það stórfenglegasta sem fært hefur verið í letur á íslenska tungu. Þannig getum við hafið okkur upp úr lágkúrunni, risið sem fuglinn Fönix úr öskunni til óþekktra hæða.