

Mig langar að þakka þeim sem sendu mér línu ellegar komu að máli við mig eftir síðasta pistil þar sem ég gerði lágkúruna að umtalsefni og þann andlega doða sem mér þykir hvíla yfir svo mörgu í þjóðfélaginu um þessar mundir. Sú umfjöllun laut meðal annars að menntamálunum en í liðinni viku komu út endurminningar Þorvarðar Elíassonar, skólastjóra Verzlunarskóla Íslands um aldarfjórðungsskeið, sem undirritaður færði í letur. Í þeirri bók fjöllum við eðli máls samkvæmt talsvert um menntamál og sitthvað af viðhorfum Þorvarðar tel ég verðugt innlegg í þær miklu umræður sem orðið hafa um málaflokkinn síðustu misseri.
Raunar birtust sjónarmið Þorvarðar í þessu efni á prenti árið 1986 í litlu kveri sem Stofnun Jóns Þorlákssonar gaf út. Í formála þess er komist svo að orði að íslenskir skólar eigi í miklum erfiðleikum, þeir séu skattgreiðendum dýrir, en geti samt ekki búið kennurum og öðrum starfsmönnum sæmileg kjör og boðið foreldum og börnum þeirra þá fjölbreytilegu menntun sem þeir kjósi. En markmiðið hlyti að vera að sem best menntun stæði sem flestum til boða á sem hagstæðustu kjörum.
Kostnaður við bóklega framhaldsskólamenntun hafði aukist mikið árin á undan en enginn héldi því fram að gæði stúdentsprófsins hefðu aukist því samfara. Öðru nær, þeir sem til þekktu héldu hinu gagnstæða fram, jafnvel þannig að Háskólinn þyrfti að fara að taka upp inntökupróf. Gæðin minnkuðu á sama tíma og kostnaðurinn stórykist. Merkilegt nokk heyrast svipaðar raddir í okkar samtíma — tæpum fjörutíu árum eftir að grein Þorvarðar kom út.
Þorvarður lagði til að rekstur skóla yrði gefinn algerlega frjáls, þannig að hver sem er gæti stofnað skóla en eftirlit yrði haft með gæðum kennslu. Framlögin úr ríkissjóði rynnu þá beint til skólanna sjálfra eða nemenda og allir nemendur á sama stigi fengju jafnhátt framlag í sinn hlut. Að auki taldi hann rétt að ríkið hætti rekstri námsgagnastofnunar og skólarannsóknardeildar og verði fjármunum frekar til þess að styrkja slíkt starf í skólunum og til þess að kaupa þá þjónustu á frjálsum markaði. Hann velktist ekki í vafa um að kerfi sem væri búið þessum eiginleikum yrði í senn ódýrara og skilvirkara en það kerfi sem við þá bjuggum við — og búum enn við tæpum fjórum áratugum síðar.
Þá taldi hann eðlilegt að einhver hluti kostnaðar við nám í framhaldsskólum og háskólum væri borinn af nemendum sjálfum og vandamönnum þeirra, meðal annars til að gera viðkomandi ljóst að námið væri ekki ókeypis. Nemendur færu í framhaldsskóla vegna eigin hagsmuna og ættu því að greiða eitthvað fyrir það. Skólagjöld hefðu þau áhrif að nemendur sem hefðu í reynd litla löngun til að stunda nám létu ógert að innrita sig og hinir sem þyrftu að greiða fyrir það stunduðu það af meira kappi. Gefum Þorvarði orðið:
„Ég hef almennt þá afstöðu að menn eigi að borga fyrir allt — því þú færð ekkert nema einhver borgi það og eðlilegast að þú gerir það sjálfur. Ég er hins vegar hlynntur opinberu skólakerfi og heilbrigðiskerfi en það hefur mjög slæmar afleiðingar ef öll þjónusta þessara kerfa er ókeypis og niðurgreidd af skattfé því þá verður eftirspurnin óviðráðanleg. Við sjáum þetta sérstaklega í heilbrigðiskerfinu. Sú hugmynd er ríkjandi í okkar samtíma að það eigi alltaf „einhver annar“ að borga og svo eru menn að leita að þessum „öðrum“.“
Sá vandi sem Þorvarður lýsti hér fyrir fjórum áratugum hefur ekki gert annað en magnast á þeim tíma sem liðinn er.
![]()
Við stjórn Verzlunarskólans birtust mjög skýr stefnumið í tíð Þorvarðar. Hann lagði áherslu á aga og bekkjarfyrirkomulag og að gera yrði skýrar kröfur til nemenda sem flyttust milli ára í samræmi við námsárangur. Hann hafði forgöngu um stofnun Tölvuháskólans til að mennta fólk til starfa í árdaga tölvualdar. Tölvuháskólinn varð síðar að Háskólanum í Reykjavík. Í hans tíð sem skólastjóri var einnig stofnuð stærðfræðideild sem hafði það að markmiði að búa nemendur undir háskólanám í raungreinum. Þar var nemendum raðað eftir getu en á þeim tíma voru ýmsar hugmyndir voru á kreiki í þjóðfélaginu þess efnis að slíkt fæli í sér mismunun. Þorvarður kemst svo að orði um þetta atriði:
„Með því að raða í bekki eftir getu er hægt að kenna bestu nemendunum svo margfalt meira. Á móti kynnu menn að segja að það bitni á lökustu námsmönnunum að vera saman. Deila má um hvað sem er en það er engu að síður óvéfengjanleg staðreynd að nútíma þjóðfélag er sérhæft og kallar á að hver og einn fái tækifæri til að ná sem lengst á því sviði sem hann velur sér. Það er vissulega hlutverk skólastjóra að sjá til þess nemendum sé kennt en enn þá mikilvægara að sjá til þess að nemendur geti lært og þá ekki síst þeir nemendur sem mest vilja læra. Á því er oft misbrestur.“
Undir þetta má sannarlega taka og að sama skapi er brýnt að fleiri komi að rekstri skóla en opinberir aðilar og ekki nema eðlilegt að nemendur taki að einhverju marki þátt í þeim kostnaði sem hlýst af rekstri skólanna. Við blasir líka að í skólamálum hafa menn villst af leið — misst sjónar á ýmsum grunngildum sem þörf er á að endurvekja.