Tilvitnunin hér að ofan er þýðing á yfirskrift greinar sem birtist á þýska miðlinum Welt í fyrradag, þjóðarhátíðardegi Þjóðverja, hinum svonefnda einingardegi, „Tag der Deutschen Einheit“. Höfundur greinarinnar er ungur þingmaður Kristilegra demókrata, Johannes Volkmann. Hann er aðeins 29 ára að aldri og rétt að geta þess að afi hans var Helmut Kohl, kanslari til sextán ára.
Á þýsku nefnist greinin „Mehr Patriotismus wagen“ en Patriotismus þýðum við gjarnan sem ættjarðarást og þjóðrækinn er líklega það lýsingarorð sem þar stendur næst, „þorðu að vera þjóðræknari“ væri nákvæmari þýðing. Volkmann segir að nota megi þjóðhátíðardaginn til að móta sjálfsmynd þjóðar („Ein Nationalfeiertag kann ein identitätsstiftendes Ereignis sein“). Þetta hafi öðrum þjóðum tekist vel og nefnir hann sem dæmi skrautsýningarnar á Ódáinsvöllum (fr. Champs-Élysées) í París hinn 14. júlí ár hvert. Þýska einingardeginum fylgi aftur á móti lítið annað en skylduviðburðir fyrir fulltrúa á Sambandsþinginu.
Merking dagsins sé samt sem áður miklu magnþrungnari en svo að látlausar athafnir nægi því hann tákni sigur frelsisins yfir einræðinu — einingu þjóðfélagsins í krafti lýðræðislegra stjórnarhátta. Volkmann spyr hvers vegna Þjóðverjar samtímans segi ekki þessa sögu og sviðsetji þá atburði sem hér um ræði. Það verkefni sé orðið þeim mun brýnna á tímum þegar jaðarhópar í stjórnmálunum sæki sífellt meira í sig veðrið.
Volkmann vísar í greininni til rannsókna sem sýna að kynslóðin sem í erlendum málum er kennd við bókstafinn Z (fólk fætt um það bil 1997–2012) hafi litla fræðslu fengið í skóla um fall Berlínarmúrsins og sameiningu þýsku ríkjanna. Lýðhyggjumenn á vinstrivængnum fylli upp í þessar sögulegu eyður með áróðri á kínverska samfélagsmiðlinum TikTok. Þeirra á meðal sé Gregor Gysi, síðasti formaður austur-þýska Kommúnistaflokksins og aldursforseti Sambandsþingsins, sem vegsami austur-þýsk stjórnvöld í þingræðum og sá áróður nái til margra af yngri kynslóðinni með útbreiðslustarfi Vinstriflokksins (þ. Die Linke) á samfélagsmiðlum.
Fram til ársins 1990 deildu Vestur-Þjóðverjar þjóðhátíðardegi með okkur Íslendingum en þá var minnst uppreisnarinnar í alþýðulýðveldinu sem náði hámarki 17. júní 1953 þegar byggingaverkamenn mótmæltu sósíalísku einræði á breiðstrætinu Stalinallee (nú Karl-Marx-Allee) í Berlín. Yfir ein milljón mótmælenda kom saman á yfir 700 stöðum vítt og breitt um kommúnistaríkið — krafist var borgaralegra réttinda, frjálsra kosninga og afnáms áætlunarbúskapar. Að beiðni ráðamanna í alþýðulýðveldinu sendu Kremlverjar skriðdreka á vettvang og börðu uppreisnina niður af hörku. Alls létu 55 manns lífið, þúsundir voru handteknir, vistaðir í fangaklefa árum saman ellegar hurfu sporlaust.
Könnun sem gerð var fyrir tveimur árum leiddi í ljós að aðeins einn af hverjum sjö Þjóðverjum á aldrinum 14–29 ára þekkir til þeirra atburða sem náðu hámarki 17. júní 1953 — dagsins sem í Sambandslýðveldinu fékk nafnið „Tag der Deutschen Einheit“. Volkmann telur brýnt að þessari sögu séu gerð skil svo Þjóðverjar samtímans fái skilið þá merkingu sem þjóðhátíðardagurinn hefur: frelsi undan oki alræðisstjórnar. Þessa sögu megi segja með ótal persónulegum dæmum.
Hermann Flade, 18 ára menntaskólanemi í Dresden, mótmælti ólýðræðislegum sýndarkosningum austur-þýska Kommúnistaflokksins árið 1950. Hann fjölritaði bækling og dreifði þar sem almenningur var hvattur til að sniðganga kosningarnar. Hann var handtekinn og dæmdur til dauða en dómurinn síðar mildaður í fimmtán ára fangelsi. Flade varð táknmynd andstöðu ungs fólks gegn alræðisstjórninni. Hann galt frelsið dýru verði en Volkmann segir sögu Flade og fleiri slíkar hafa glatast úr sameiginlegu minni þjóðarinnar.
Að mati Volkmanns er þeim mun brýnna að halda þessum minningum á lofti nú þegar fram eru komin sjálfsmyndarstjórnmál (þ. Identitätspolitik) til vinstri og hægri. En sú sjálfsmynd sé brotakennd og aðeins sjálfsmynd afmarkaðra hópa, ekki þjóðfélagsins í heild. Þá séu komnir fram háværir íhaldsmenn sem hafni pólitískri arfleifð Konrads Adenauer kanslara en Volkmann segir þá þar með hafna hugsjónum Adenauers um traust bönd hinna vestrænu þjóða. Aukinheldur séu arftakar Kommúnistaflokksins austur-þýska áberandi, jafnt til vinstri sem hægri en þeir skilgreini hugtakið Deutschseins (orð sem erfitt er að þýða) annað hvort með afturhaldssömum hætti ellegar „afbyggi“ það (eins og það er kallað í tískufræðunum) á grundvelli svonefndrar „woke“ hugmyndafræði. Hinni breiðu miðju stjórnmálanna, þar sem kristilegu flokkarnir staðsetja sig, hafi ekki tekist að halda á lofti sinni pólitísku arfleifð. Æ fleiri kjósendur hafi ekki hugmynd um það hvaða sögulegu viðburðir liggja til grundvallar sjálfsmynd þjóðarinnar.
Volkmann leggur til að þjóðhátíðardagurinn 3. október verði helgaður sögulegum minningum á þjóðrækislegum grunni. Frjálst og opið samfélag krefjist þess að hinni réttu sögu sé haldið á lofti. Þýska einingin sé heldur ekki lokaður kafli í sögubókinni — heldur þarfnist hún stöðugs endurmats og upprifjunar á því sem sameinar þýska þjóðarsál.
Ef við hverfum hingað heim þá er sagan af stofnun íslensks ríkis og einingu íslensku þjóðarinnar allt önnur. Aftur á móti er henni lítt haldið á lofti, sögukennsla í íslenskum skólum er afar bágborin og lítið gert til að minnast sameiginlegra viðburða í sögu þjóðarinnar. Sjálfum lýðveldisdeginum, sem eitt sinn var einnig þjóðhátíðardagur Sambandsríkisins þýska, er varla fagnað lengur. Hann er óðum að breytast í illa sóttan merkingarlausan viðburð þar sem einungis kjörnir fulltrúar eru velkomnir. Segir mér hugur að líkt og í Þýskalandi séu jaðarhópar óðum að fylla upp í það tómarúm sem hér hefur skapast og dýpka þar með gjána milli ólíkra þjóðfélagshópa.