Þórhallur Gunnarsson, stjórnendaráðgjafi og -þjálfari hjá Góð samskipti og fyrrverandi framkvæmdastjóri fjölmiðla Sýnar, segir að sú pólitíska glíma sem átti sér stað í vikunni milli Guðrúnar Hafsteinsdóttur, formanns Sjálfstæðisflokksins, og Dags B. Eggertssonar, þingmanns Samfylkingarinnar og fyrrum borgarstjóra, sé nákvæmlega ástæðan fyrir því að fólk eigi erfitt með að treysta stjórnmálafólki.
Eins og DV fjallaði um mætti Guðrún í hlaðvarpsviðtal á dögunum þar sem hún lét meirihlutann í borginni heyra það. Sagði hún skipulagsmál borgarinnar vera hörmung og fullyrti einnig að miðbærinn hefði verið eyðilagður á undanförnum árum.
Dagur brást við orðræðu Guðrúnar með því að skjóta föstum skotum tilbaka og bauð henni síðan í göngutúr um miðborgina þar sem farið yrði yfir þróun undanfarna ára.
Þórhallur tekur samskipti þingmannanna fyrir í færslu í morgun og segir þau geta gert betur. Það sé ekki allt svart eða hvítt í þessum efnum.
„Hvorugt setur sig í spor hins aðilans. Guðrún ætti að geta viðurkennt að margt hefur heppnast vel og Dagur gæti bent á ýmislegt sem er ekki eins vel heppnað.
En það hentar þeim ekki og því er umræðan alltaf föst á þesum stað…annað hvort er þetta frábært eða flopp. Svona umræða er ein af ástæðum þess að fólk á erfitt með að treysta stjórnmálafólki,“ skrifar Þórhallur og taggar þingmennina í færsluna.
Segir Þórhall setja sig á háan hest
Dagur var snöggur til að svara og þótti greinilega lítið til koma.
„Mér finnst freistandi að biðja þig að lesa aftur – áður en þú setur þig á háan hest gagnvart þessu boði mínu um skoðanaferð um miðborgina. Hugmyndin – þvert á það sem lesa má hjá þér – var að skoða umbreytingu miðborgarinnar, sem Guðrún var að gagnrýna – meðal annars Hótel Parliament sem kallað var „skemmdarverk“ af þáverandi forseta þingsins, Hafnartorg sem Guðrún og ýmsir hafa gagnrýnt, Hjartatorg sem var umdeilt og Hlemm svo eitthvað sé nefnt. Einmitt þessa staði sem hafa verið umdeildir. Og svo fleira. Mér finnst umræðan um borgina þörf en hún oft á tíðum klisjukennd og ekki í samræmi við þá mynd sem við blasir, að mínu mati. Það er hárrétt hjá þér að borgarþróun er ekki annað hvort frábær eða flopp – en það er óþarfi hjá þér – og raunar rangt – að eigna mér þá skoðun. Þú slæst kannski bara í hópinn þegar og ef Guðrún svarar. Því boðið var sett fram í einlægni – og til að færa umræðuna úr skotgröfunum og inn í raunveruleikann en ekki ofan í þær,“ skrifaði Dagur.
Þórhallur svaraði og varpaði fram athyglisverðri hugmynd um að mynda þyrfti göngutúr þingmannanna um borgina.
„Ég er varla að setja mig á háan hest þótt ég bendi á þessa svart/hvítu mynd sem dregin er upp af þróun borgarinnar. Ég er ekki að eigna þér neina skoðun en þið (stjórnmálamenn) gætuð sýnt aðeins meiri auðmýkt gagnvart upplifun fólks á risavöxnum breytingum undanfarinna ára. Þú mátt vera stoltur af fjölmörgum verkum frá borgarstjóratíð þinni en ég vildi líka heyra einlæg svör frá þér hvað ekki gekk upp. Fróðlegast fyrir alla væri ef gerður yrði sjónvarpsþáttur um skoðunarferð ykkar Guðrúnar um borgina. Þá skal ég slást í för,“ skrifaði Þórhallur.
Dagur kvaðst spenntur fyrir því og svo virðist sem boltinn sé farinn að rúlla varðandi verkefnið. Nú þarf bara Guðrún að slá til!