fbpx
Sunnudagur 14.september 2025
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Dýrkun ljótleikans

Eyjan
Sunnudaginn 14. september 2025 16:00

Mynd/Vegagerðin

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Frá því var nýlega greint í fréttum að í aðdraganda byggingar græna gímaldsins í Breiðholti hefði gagnrýni skipulagsfulltrúa á byggingaráformin verið fjarlægð af vef borgarinnar. Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri varði þá ákvörðun með þeim rökum að umsögnin hefði ekki verið málefnaleg. En hvað sagði skipulagsfulltrúinn sem fór svo mjög fyrir brjóstið á kjörnum fulltrúum? Umsögn hans var á þessa leið:

„Löggjafinn spyr hvorki um fagurfræði né samhengi. Það er því sorgleg staðreynd að þeir sem fara með völd, fjármagn og fyrirferðarmikinn rekstur skuli ekki sýna frekari metnað í uppbyggingu á miðsvæðum höfuðborgarsvæðisins. Fagurfræði er ekki smekkur — fagurfræði er samhengi — og þessa byggingu skortir slíkt.“

Hér talar embættismaður sem er bersýnilega að rækja hlutverk sitt, sýnir hollustu við hinn almenna borgara — en er ekki eingöngu trúr hinum valdamesta eða auðugasta. Sjálfur fæ ég ekkert ómálefnalegt litið í þessari umsögn nema síður sé og lokamálsgreinin þykir mér sérlega vel orðuð, því fagurfræði er nefnilega ekki smekkur.

Fágun og samræmi

Gríski heimspekingurinn Plótínos var uppi á 3. öld eftir Kristburð. Hann kemst svo að orði í skrifum sínum Um fegurðina að „allt formlaust sem fallið er til að taka á sig lag og form er ljótt og utan guðlegrar reglu, svo lengi sem það á enga hlutdeild í reglu og formi. Þetta er hinn algeri ljótleiki“. Hér er orðið regla notað í stað forngríska orðsins logos (gr. λόγος) sem engin leið er að þýða á íslensku en merkt getur orð, tungumál, skynsemi eða regla.

Sóknin eftir hinu fagra en endurtekið stef í forngrískri menningu og Platón komst svo að orði að það að íhuga fegurð léði sálinni vængi. Grikkir notuðu orðið kallos (gr. κάλλος) um fegurð. Það gat þýtt góður, fallegur, göfugur. Í Fyrstu Mósebók — Genesis — segir: „Og Guð leit allt, sem hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott.“ Þarna var notað lýsingarorðið kalós. Það er þá í merkingunni vel unnið verk.

Líkamleg fegurð var Forngrikkjum afar hugleikin og hana var reynt að fanga og fullkomna í höggmyndalist, við íþróttaiðkun og í fegurðarsamkeppnum. Í því sambandi var notast við hugtakið summetria sem við gætum útlagt sem hlutfallslega samsvörun. Þetta birtist líka í rómverskum ritum, þar sem orðið varð symmetria.

Þessar hugmyndir eru alltumlykjandi í fornöldinni. Cicero segir til að mynda að líkamsfegurðin sé fólgin í „hæfilegu formi hlutanna ásamt vissum ljúfleika litarins“. Og fegurðin er að hans mati ekki fólgin í hinu einfalda eða einstökum þætti heldur sé hið fagra samsetning nokkurra þátta svo úr verði fögur heild.

Sama má segja um aðra fegurð. Fegurð í tungumálinu, í listum, vísindum og handverki er fólgin í fágun sem verður ekki unnin nema með þrautþjálfun þar sem byggt er á reynslu og þekkingu kynslóðanna — aðeins þannig getur mönnum tekist að skapa heildstætt verk.

Fegurðina skortir málsvara

Æði margt hér í hinu manngerða umhverfi okkar í Reykjavík er ekki fallegt á fegurðarmælikvarða hlutfallslegrar samsvörunar. Ummæli hins vel lesna embættismanns hér að ofan hefði allt eins mátt heimfæra á göngubrúna sem nú í sumar var reist yfir Sæbrautina, milli Vogahverfis og nýja íbúðahverfisins í Iðnvogum. Ég ætla að ganga svo langt að kalla hana óskapnað og víst er að hún stingur gjörsamlega í stúf við allt umhverfið sem verður mun lakara á eftir. Við líðum fyrir ljótleikann.

Dæmin eru mýmörg og ég spyr mig hreinlega stundum hvort dýrkun ljótleikans sé kjörorð dagsins. Á einni af sleðabrekkum bernsku minnar (neðan við hús Gunnars Gunnarssonar) stendur nú til að reisa fjölbýlishús og ekki einasta verður falleg blómabrekkan eyðilögð heldur mun húsið í ofanálag stinga í stúf við umhverfið svo samræmið bíður hnekki. Gríðarháar blokkarbyggingar á mótum Grensásvegar og Suðurlandsbrautar falla engan veginn að nálægu umhverfi, þetta er eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Þá er mælikvarði bygginga við svokallað Hafnartorg í miðbæ Reykjavíkur svo gjörsamlega úr takti við önnur hús gamla bæjarins að útkoman verður hrópandi, að ekki sé minnst á niðurdrepandi byggingarstílinn og vonda hönnun sem veitir ekki skjól heldur magnar vindstrengi.

Ljótleikinn er alltumlykjandi og sú spurning hefur orðið mér sífellt áleitnari hvort fegurðin þurfi ekki að eignast málsvara í pólitíkinni. Fegurðin er nefnilega ekki smekkur eins og embættismaðurinn benti á — hún hefur raunhlítt inntak sem byggir á samræmi og fágun —nokkuð sem menn höfðu uppgötvað þegar í fornöld.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Jóhannes Valgeir látinn

Nýlegt

Jóhannes Valgeir látinn
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Rétturinn til fundafriðar

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Rétturinn til fundafriðar
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Kvendjöflar og breyskar hetjur

Björn Jón skrifar: Kvendjöflar og breyskar hetjur
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Sjálfstæðisflokkurinn á aðeins einn kost í stöðunni

Svarthöfði skrifar: Sjálfstæðisflokkurinn á aðeins einn kost í stöðunni
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sleggjudómar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sleggjudómar
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Eftirlit í þágu milliliða – hver fylgist með eftirlitsmönnunum?

Svarthöfði skrifar: Eftirlit í þágu milliliða – hver fylgist með eftirlitsmönnunum?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ameríka fyrst eða fullveldi og frelsi

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ameríka fyrst eða fullveldi og frelsi
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Nína Richter skrifar: Miðaldra konur í hörtóga á Balí

Nína Richter skrifar: Miðaldra konur í hörtóga á Balí
EyjanFastir pennar
14.08.2025

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Stjórnarskráin og ESB

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Stjórnarskráin og ESB