fbpx
Fimmtudagur 08.janúar 2026
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Vestrænt sjálfshatur

Eyjan
Sunnudaginn 10. ágúst 2025 15:00

Krossfarariddarar sigra Jórsali 15. júlí 1099. Olíumálverk franska listamannsins Émile Signol frá árinu 1847. Varðveitt í Versölum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vestrænt sjálfshatur

Erlendum vinum mínum þykir flestum undarlegt að íslensk börn hljóti jafnan ekki nöfn þegar við fæðingu, þau séu jafnvel nefnd drengur og stúlka lengi fram eftir fyrsta æviárinu. Víða bjóða lög að börn hljóti nafn undir eins og þau koma í þennan heim ellegar átrúnaðurinn heimtar að þau séu skírð hið fyrsta. Ég sá í þýskum fréttum í liðinni viku að fæðingardeild sjúkrahússins í Leipzig hefur þann sið að bjóða nýfædd börn velkomin í heiminn með færslu á samfélagsmiðlinum Instagram og þar eru fornöfn þeirra birt þegar í stað í fallegri umgjörð, alsettri blómum og hjörtum. Þetta væri ekki í frásögur færandi nema hvað að athygli vakti nafn nýfædds drengs á mánudaginn var. Hann heitir Yahya Sinwar — sama nafni og höfuðpaurinn að baki hinum villimannslegu hryðjuverkaárásum Hamasliða 7. október 2023, þar sem 1200 óbreyttir borgara voru myrtir og 250 teknir í gíslingu. Þetta eru verstu fjöldamorð á gyðingum síðan í síðari heimsstyrjöld og mörkuðu upphaf hörmunganna á Gasasvæðinu. En athygli mína vakti að þegar kirkjuklukkum var hringt síðastliðinn fimmtudag „til stuðnings íbúum á Gasaströndinni“ var í engu minnst á þessi voðaverk eða þá gísla sem enn eru í haldi og sæta linnulausum misþyrmingum.

Þversögn

Hinn kunni blaðamaður Ulf Poschardt, fyrrv. aðalritstjóri Welt, gerði nafngift nýfædda drengsins að umtalsefni í pistli í fyrradag. Með henni væri verið að hylla slátrun á fjölda barnshafandi kvenna, ungbarna, barna og unglinga. Þýskt samfélag byði velkomna foreldra sem gæfu börnum sínum nöfn ungbarnamorðingja. Framtíðarhorfur samfélags sem léti slíkt viðgangast yrðu þar með daprari. Við blasti að foreldrar umrædds drengs hefðu engan hug á að aðlagast þýskum eða vestrænum háttum. Þeir byggju í öruggu skjóli frjálslynds vestræns lýðræðisríkis en hötuðu samt „frjálslynt lýðræði, mannréttindi, Vesturlönd og umfram allt Gyðinga og Ísraela“ eins og Poschart orðaði það. Menn gætu skipt nafninu út fyrir nöfn ýmissa annarra kunnra fjöldamorðingja sögunnar ef þeir velktust í vafa um það hversu mikill ófögnuður væri hér á ferð.

Hvað gyðingaofsóknir áhrærir er í þýskri þjóðmálaumræðu gjarnan notast við orðin Nie wieder — aldrei aftur sem er vísun til útrýmingarherferðar þýskra nasista á gyðingum — áminning um þann lærdóm sem draga verði af sögunni. Poschardt segir slíkar yfirlýsingar samt orðin tóm ef foreldrum sem gefa börnum sínum nöfn hermdarverkamanna er ekki umsvifalaust vikið úr landi og hið sama þurfi að gilda um Sýrlendinga í Þýskalandi sem fagna fjöldamorðum á Drúsum eða krefjist stofnunar kalífadæmis í Þýskalandi, sem felur í sér afnám lýðræðis og mannréttinda og um leið niðurrif þjóðríkisins. Frjálslynt þjóðfélag geti ekki þolað að öfl vaði uppi sem vilji það feigt. Poschardt orðar það svo að menn séu á lokametrum „umburðarlyndisþversagnarinnar“ (þ. Toleranzparadoxon). Annað hvort verji Vesturlönd sig gegn óvinum sínum ellegar verður þeim tortímt.

Lítum okkur nær

Við þurfum ekki að fara til Þýskalands til að sjá birtingarmyndir vestræns sjálfshaturs. Gil S. Epstein, prófessor í hagfræði við Bar Ilan-háskóla í Ísrael, hugðist í liðinni viku flytja erindi hér á landi um áhrif gervigreindar á vinnumarkað og lífeyrismál á vegum Rannsóknastofnunar um lífeyrismál. Ekkert varð þó af flutningnum því hópur mótmælenda réðst inn í fundarsalinn með skrílslátum, bar mótmælaspjöld og skreytti sig fánum Palestínuaraba. Hér var þó ekki um að ræða innflytjendur frá Miðausturlöndum heldur Íslendinga, þar á meðal lektor við Háskóla Íslands. Með athæfinu er ráðist gegn grundvallarmannréttindum — tjáningarfrelsi vísindamanns sem ber enga ábyrgð á gjörðum stjórnvalda í sínu heimalandi. Háttalag mótmælendanna lýsir auðvitað engu öðru en andúð á Ísraelsmönnum almennt og mögulega gyðingum.

Uppákoman á fundinum í liðinni viku er kannski léttvæg í samanburði við sitthvað annað ofstæki. Erlendur maður sem dvelst hérlendis hefur margsinnis á opinberum vettvangi hótað að drepa gyðinga og nefna má Palestínuaraba nokkurn sem réðst að blaðaljósmyndara á dögunum. Þá hafa yfirvöld að mestu látin óátalin eignaspjöll sem framin hafa verið við mótmæli Palestínuaraba og íslenskra fylgjenda þeirra.

Í gleðigöngu gærdagsins gekk hópur manna með fána Palestínuaraba — en hommum er ekki vært á sjálfstjórnarsvæðum þeirra eins og alþjóð er kunnugt og hafa því þurft að flýja til Ísraels. Enn ein sláandi „umburðarlyndisþversögnin“ (en vel að merkja voru engir Palestínuarabar sjáanlegir í göngunni sem þó hafa verið áberandi í mótmælastöðum undanfarið).

Agnarsmár söfnuður gyðinga í Reykjavík getur ekki minnst fórnarlamba Hamas í fjöldamorðunum 7. október 2023 nema að viðhafðri strangri öryggisgæslu. Og eins og áður sagði var hvorki fjöldamorðanna né gíslanna getið í tengslum við klukknahringinguna á fimmtudaginn var. Þá hefur lítið farið fyrir því að þjóðkirkjuprestar bæðu fyrir ofsóttum kristnum trúbræðrum, til að mynda í Sýrlandi.

Að ríkjum í okkar heimshluta virðast stafa mun alvarlegri innri ógnir en ytri en engin leið er að takast á við þær nema láta af umburðarlyndi fyrir hinu svæsnasta ofstæki sem beinlínis ber í sér feigð vestræns lýðræðis.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Nína Richter skrifar: Fjöldaframleiddar jólaklisjur

Nína Richter skrifar: Fjöldaframleiddar jólaklisjur
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Ramakvein bílaleiguforstjóra

Svarthöfði skrifar: Ramakvein bílaleiguforstjóra
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Bandaríkin lyfta löngutöng

Sigmundur Ernir skrifar: Bandaríkin lyfta löngutöng
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Sögulegur léttir

Óttar Guðmundsson skrifar: Sögulegur léttir
EyjanFastir pennar
06.12.2025

Óttar Guðmundsson skrifar: Ástamál eftirlifandi

Óttar Guðmundsson skrifar: Ástamál eftirlifandi
EyjanFastir pennar
05.12.2025

Nína Richter skrifar: Bringubeinin á Ariönu Grande

Nína Richter skrifar: Bringubeinin á Ariönu Grande
EyjanFastir pennar
30.11.2025

Björn Jón skrifar: Íslenskan í forgrunni

Björn Jón skrifar: Íslenskan í forgrunni
EyjanFastir pennar
29.11.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Veikari fjölmiðlar þýða veikara lýðræði

Sigmundur Ernir skrifar: Veikari fjölmiðlar þýða veikara lýðræði