fbpx
Laugardagur 26.júlí 2025
Eyjan

Greinir heimsókn Ursulu von der Leyen og spyr hvað stjórnarandstaðan óttist

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 25. júlí 2025 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segist ekki geta orða bundist yfir viðbrögðum við heimsókn Ursulu von der Leyen forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hingað. Segist Ólafur hafa verið staðsettur á fjöllum þegar heimsóknin stóð yfir.

„Kom svo í bæinn og las fréttir af heimsókninni og viðbrögðum við henni og – þið afsakið rantið, en ég get bara ekki orða bundizt.

Stjórnarandstöðuflokkarnir þrír eru í hysteríukasti yfir heimsókninni og boðuðum viðræðum um samstarf Íslands og Evrópusambandsins í öryggis- og varnarmálum. Þessi viðbrögð bera að mínu viti vott um alveg gríðarlegan mislestur á stöðunni í utanríkis- og öryggismálum Íslands og takmarkaða pólitíska kænsku.“
Greinir Ólafur næst stöðuna og segir lítið ríki líkt og Ísland þurfa á nánu samstarfi að halda, Íslandi sé best borgið innan sambandsins, og það liggi fyrir að ríkisstjórn vill leggja aðildina undir þjóðaratkvæði.

„Í fyrsta lagi þarf smáríki eins og Ísland á sem nánustu samstarfi við alla sína bandamenn að halda á viðsjárverðum tímum í alþjóðamálum. Vinaríki okkar við Norður-Atlantshafið, Kanada, Noregur og Bretland, hafa þegar samið við Evrópusambandið um samstarf í öryggis- og varnarmálum. Það hefði verið ábyrgðar- og sinnuleysi af íslenzkum stjórnvöldum að sækjast ekki eftir viðræðum við ESB um gerð sambærilegrar samstarfsyfirlýsingar. Samstarf við ESB í öryggis- og varnarmálum verður þriðja stoðin í vörnum Íslands, auk varnarsamningsins við Bandaríkin og aðildarinnar að NATO. Það samstarf verður á meiri jafningjagrundvelli en í hinum stoðunum tveimur vegna áherzlu ESB á hinn borgaralega þátt öryggis- og varnarmála. Þar hefur hið herlausa Ísland margt fram að færa.“

Segist Ólafur ekki efast ekki eitt augnablik um að hver og einn af utanríkisráðherrunum í síðasta stjórnarsamstarfi, Guðlaugur Þór Þórðarson, Bjarni Benediktsson eða Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, hefðu kynnt viðræður um slíkt samstarf „sem sjálfsagt og eðlilegt skref í viðleitni til að tryggja varnir og öryggi Íslands, ekki sem „grundvallarstefnubreytingu“ eða „skipulagt skref í átt að aðild“ eins og formaður Sjálfstæðisflokksins kallaði það svo grunnhyggnislega í Facebook-pistli. Enda hófst undirbúningur fyrir þessar viðræður í tíð síðustu ríkisstjórnar, eins og forysta Sjálfstæðisflokksins ætti að vita, nema forystufólk flokksins sé alveg hætt að tala saman.“
Ólafur nefnir að í öðru lagi virðist stjórnarandstöðuflokkunum, sem allir eru andsnúnir aðild að ESB, „yfirsjást að það að Evrópusambandið sé reiðubúið að semja við Ísland um samstarf í öryggis- og varnarmálum, án aðildar, styrkir þá afstöðu þeirra að Íslandi sé bezt borgið utan sambandsins, en veikir röksemdir þeirra sem halda því fram að Ísland þurfi á ESB-aðild að halda til að styrkja stöðu sína í öryggismálum. Svona rétt eins og EES-samningurinn veitir okkur aðgang að flestum þáttum innri markaðar Evrópusambandsins án þess að við þurfum að ræða spurningarnar sem Sjálfstæðisflokknum, Miðflokknum og Framsóknarflokknum finnst svo erfiðar, eins og hvort sérhagsmunum sjávarútvegs og landbúnaðar verði áfram borgið þótt við göngum í Evrópusambandið. Þetta ætti að liggja í augum uppi og stjórnarandstaðan ætti því að vera fylgjandi hinu boðaða samstarfi, en því miður virðist hið góða fólk í flokkunum þremur vera hætt að geta hugsað skýrt ef Evrópusambandið ber á góma. Ef ríkisstjórnin væri að reyna að troða Íslandi í ESB með öllum ráðum hefði hún átt að láta þessar viðræður eiga sig, en kannski er hún bara að reyna að gæta hagsmuna Íslands.“

Ólafur bendir síðan á að í þriðja lagi sé stjórnarandstaðan að „fara á límingunum yfir því að ríkisstjórnin geri það sem hún segist í stjórnarsáttmálanum ætla að gera, að leyfa þjóðinni að ákveða í atkvæðagreiðslu hvort aðildarviðræðunum við Evrópusambandið verði haldið áfram. Guðlaugur Þór og Sigmundur Davíð komu skelkaðir í framan af fundi utanríkismálanefndar með Þorgerði Katrínu og sögðu að allt sem þeir óttuðust hefði reynzt rétt. Hvað óttuðust þeir? Jú væntanlega að þjóðin fengi að segja sitt um framhald aðildarviðræðna. Það var reyndar það sem flokkarnir sem mynduðu ríkisstjórn árið 2013 höfðu lofað fyrir kosningarnar það ár, að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald aðildarviðræðnanna. Það voru Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, undir forystu núverandi formanns Miðflokksins, téðs Sigmundar Davíðs, sem gáfu kjósendum loforð fyrir kosningar sem voru síðan svikin eftir kosningar í skjóli hins svokallaða „pólitíska ómöguleika“, sem átti að vera í því fólginn að fyrst hvorugur stjórnarflokkurinn vildi klára aðildarviðræður við Evrópusambandið væri ekki hægt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Orða má ómöguleikakenninguna með almennum hætti þannig: „Séu sitjandi stjórnarflokkar ekki sammála einhverri niðurstöðu sem gæti komið út úr þjóðaratkvæðagreiðslu skal ekki leggja málið í dóm þjóðarinnar.“

Svik Sjálfstæðisflokksins á margítrekuðum kosningaloforðum sínum í þessu efni bjuggu til tilverugrundvöll Viðreisnar, sem mælist nú með tveimur prósentustigum minna fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn. Framganga flokksins í þessu máli og ýmsum fleirum að undanförnu er ekki líkleg til að auka þann mun mikið. Núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins sagði árið 2014 að hún „treysti dómgreind þjóðarinnar“ hvað varðaði aðildarsamning við Evrópusambandið. Hefur hún skipt um skoðun? Er hún andvíg því að þjóðin kjósi fyrst um framhald aðildarviðræðna og kjósi svo aftur um aðildarsamning? Eða er hún hætt að treysta þjóðinni?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Thomas Möller skrifar: Ferðaþjónustan á betra skilið

Thomas Möller skrifar: Ferðaþjónustan á betra skilið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Svarthöfði skrifar: Úlfaldi úr mýflugu – margur heldur mig sig – allt í gosmóðu hjá stjórnarandstöðunni?

Svarthöfði skrifar: Úlfaldi úr mýflugu – margur heldur mig sig – allt í gosmóðu hjá stjórnarandstöðunni?