Á dögunum ók ég frá ströndu Fetlafjarðar inn Leirudalinn og leit þar á ýmsar sögufrægar hallir en sótti líka heim hinn heimskunna skemmtigarð Puy du Fou þar sem Frakklandssagan lifnar við. Garðurinn er feiki víðfemur og sögusýningarnar með því stórbrotnara sem ég hef augum litið. Puy du Fou er hugarfóstur Philippe de Villiers en upphafið má rekja til sögulegrar skáldsögu sem hann ritaði árið 1977 um fjöldamorð byltingarmanna á konungssinnum og kaþólikkum í Vandée á dögum ógnarstjórnarinnar (fr. la Terreur) árið 1794 og hann segir áfram sögu forfeðra sinna þar í héraðinu fram að árum síðari heimstyrjaldar. Villiers var frá unga aldri hugmyndaríkur í meira og lagi og honum svall móður, hann vildi gera vekja Frakklandsöguna til lífsins. Það varð til þess að hann kom á laggirnar félagsskap sem hafði það að markmiði að sviðsetja sögulega viðburði þar sem áherslan var á magnað sjónarspil með skylmingum, vel þjálfuðum hrossum, alls kyns tæknibrellum og þannig mætti lengi telja. Upp úr þessu spratt skemmtigarðurinn sem vígður var 1989.
Philippe de Villiers hefur mjög skýra sögusýn. Hann er einlægur ættjarðarvinur og trúfastur kaþólikki. Hann sat um tíma á franska þjóðþinginu og var menningarmálaráðherra um hríð á níunda áratugnum en honum er umhugað um að Frakkar varðveiti þjóðmenningu sína og þjóðareinkenni. Sögusýn sú sem birtist í Puy du Fou er sannarlega í þjóðernisanda. Í mögnuðum skrautsýningum má meðal annars sjá kristna skylmingaþræla í rómversku hringleikhúsi og við hittum fyrir Kloðvík Frankakonung (frankn. Hlodowig, fr. Clovis) sem ekkert verður ágengt í orrustu uns hann hættir að blóta æsi og tekur skírn. Ýmsar goðsagnir úr lífi Kloðvíks eru sviðsettar með stórfenglegum hætti. Sömu sögu er að segja af Skyttunum þremur (fr. Les trois mousquetaires) eftir bók Alexandre Dumas þar sem ótrúlegum brellum er beitt í bardögum á gríðarstóru leiksviði, eða þar sem rakin er hetjuleg mótstaða fólksins í Vandée við herlið ógnarstjórnarinnar og svo mætti lengi telja.
Ég varð hugfanginn af sjónarspilinu, tugum vel þjálfaðra leikara á sviði, atriðum með tylft samhæfðra reiðhesta, sjóorrustum, skylmingum og alls kyns öðrum bardögum og áflogum. Sjón er sögu ríkari.
Hér vaknar sú spurning hvernig rétt sé að segja söguna. Þarf kynning á sögu endilega að vera „sagnfræðilega nákvæm“ eða má blanda saman goðsögum, sögulegum skáldskap — og að hve miklu marki er rétt að „upphefja“ löngu liðnar hetjur og viðburði? Þegar ég lærði sagnfræði við Háskóla Íslands á sínum tíma var mjög í tísku að úthúða Íslandssögu Jónasar Jónssonar frá Hriflu og sjálfsagt er það þannig enn. Einn prófessoranna sagði hana til þess fallna að „ala fólk upp í íslenskri þjóðerniskennd“ og þar væru nánast eingöngu sagðar sögur „af glæsilegum köppum og viljasterkum konum af fornu“. Þetta var sagt sögu Jónasar til háðungar en nú er ég orðinn þeirrar skoðunar að Íslandssaga sú sem sögð er börnum eigi einmitt ala á heilbrigðri þjóðerniskennd og vekja aðdáun á fornhetjum.
Íslandssaga Jónasar var fyrst gefin út 1915–1916 og kennd í barnskólum næstu sjötíu árin. Ástæða þess að hún entist svo lengi var hversu vel hún hentaði til barnakennslu, málfarið fagurt og efnið vel fram sett. Jónas hafði sjálfur kennt börnum sögu eftir bók sem Bogi Th. Melsteð hafði ritað og veitti því athygli hversu illa þeim gekk að festa sér hana í minni. Hann brá því á það ráð að endursegja efnið með sínum hætti — brúnin léttist á bekknum og minnið tók við. Þessa sögu afréð hann að skrá og það gerði hann að eigin frumkvæði — ekki samkvæmt fyrirmælum yfirvalda eða eftir forskrift eins né neins.
Rósa B. Blöndals, kennari og skáld, sagði eitt sinn frá því hvílíkt lán það hefði verið sér að saga Jónasar hafi verið komin í skólana þegar hún var barn og undir eins hefði hún fyllst ást á Íslandssögunni og Íslendingasögum. Hún orðaði það svo að sagan leiftraði í meðförum Jónasar „þar sem göfugmennska, kjarkur og snilli eru á ferð, uppbyggileg til dáða og mannkosta, dæmir níðingsskap hart og dregur fram í dagsljósið þá skugga sem fylgja vondum verkum og ódrengskap“ því hlutleysi gagnvart öllu væri að hennar áliti „ekkert annað en innræting á manndómsleysi og andlegu allsleysi“. Bók Jónasar hefði að auki haft afar góð áhrif á málfar barnanna sem best hafi sést þegar þau áttu að skrifa ritgerð um efni úr sögunni.
Í miðri handritadeilunni létu dönsk yfirvöld gera könnun á söguþekkingu ungra Íslendinga. Rætt var við ungmenni á förnum vegi og vakti kunnátta þeirra undrun Dananna en við blasti að langflestir höfðu fest sér í minni Íslandssögu Jónasar. Fyrirsögn dönsku blaðanna var að Íslendingar væru enn söguþjóð. Síðar fundu háskólamenntaðir sagnfræðingar Íslandssögu Jónasar það til foráttu að hún væri of rómantísk, segja ætti söguna sem ópersónulegt ágrip og hetjum Íslendingasagna var fleygt út í hafsauga, en þar með var aðdráttarafl sögunnar farið veg allrar veraldar. Rósa sagði sem var að slíkar kennslubækur fældu börn frá sögunámi og sviptu þau allri löngun til að kynnast Íslendingasögunum.
Nú er svo komið að söguþekkingu þjóðarinnar er fjarska ábótavant. Í grunnskólum rennur kennsla í sögu saman við eitthvað sem kallað er „samfélagsgreinar“. Sú skipan lýsir að mínu viti fáfræði því saga og sagnfræði á ekkert skylt við „samfélagsfræði“. Sögukennslu fer sífellt halloka í menntaskólum líka og margir ljúka stúdentsprófi án þess að læra nokkra sögu yfir höfuð.
Magnús Þór Hafsteinsson var jarðsunginn frá Akraneskirkju í liðinni viku en hann lést af slysförum langt um aldur fram. Hann hafði síðustu árin gerst mikilvirkur þýðandi og meðal annars íslenskað hinar miklu stríðssögubækur Max Hastings. Fyrir síðustu jól kom út í þýðingu Magnúsar bók James C. Hunter sem ber heitið Churchill — Stjórnvitringurinn framsýni. Hún fjallar um óvenjulega getu Winstons Churchill til að sjá langt fram en höfundurinn var ræðuskrifari fjögurra Bandaríkjaforseta. Framsýni Churchills var sprottin af óvenju yfirgripsmikilli söguþekkingu en Churchill komst svo að orði við bókarhöfund, James C. Hunter, að lykillinn að stjórnvisku væri að „læra sagnfræði, læra sögu“ því þeim „mun lengra aftur sem maður lítur, þeim mun lengra getur maður séð til framtíðar“. Söguþekking gerir mönnum nefnilega kleift að horfa fram á veginn þó svo að umhverfið breytist með örlagaþrungnum hætti.
Verkefni okkar hér og nú er að kveikja áhuga barna á Íslandssögunni og frásögnum Íslendingasagna — eins og Jónasi tókst í byrjun síðustu alda, en bók hans hvatti lesendur til frekara sjálfsnáms. Og líkt og Philippe de Villiers hefur auðnast þyrfti gjarnan að sviðsetja söguefnið fyrir börnum og ungmennum í dramatískum sjónleikjum og láta þau sjálf setja sig í hlutverk persónanna á sviði. Raunar er öllu námi þannig farið að menn læra fyrst grófar útlínur og það krefst einföldunar. Þegar fram í sækir er hægt að dýpka skilninginn og umfjöllunin getur orðið fræðilegri. En hvað Íslandssöguna áhrærir er lykilatriði að hún sé kennd börnum með lifandi hætti þar sem persónur og einstaka atburðir eru í forgrunni en ekki ópersónulegt stagl.
Tékknesk-franska skáldið Milan Kundera lét eitt sinn svo um mælt að það væri dauðadómur þjóðar að svipta hana menningu sinni og þar af leiðandi minni sínu og frumleika (fr. „vider une nation de sa culture, donc de sa mémoire et de son originalité, c’est la condamner à mort“). Og án sögunnar eru „mennirnir og þjóðirnar sem í myrkri“ eins Tómas Sæmundsson Fjölnismaður komst að orði árið 1841. Sagan sýndi þjóðunum hvað yrði „til viðreisnar og blómgunar, falls og eyðileggingar“. Sagan er ein, þó hún sé lögð út á margvíslega vegu. Aftur á móti eru möguleikar framtíðar næsta óendanlega margbreytilegir. Farsæld á komandi tímum byggir að stórum hluta á þekkingu á fortíðinni og að menn standi traustum fótum í eigin menningu og sögu.