fbpx
Miðvikudagur 09.júlí 2025
EyjanFastir pennar

Thomas Möller skrifar: Krónan undir smásjánni … aftur!

Eyjan
Miðvikudaginn 9. júlí 2025 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það vakti athygli þegar Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra tilkynnti nýlega að fjórum erlendum sérfræðingum hefði verið falið að vinna skýrslu um valkosti Íslands í gjaldmiðlamálum. Þessu skrefi ber að fagna.

Verkefni hópsins verður að meta kosti og galla sjálfstæðs gjaldmiðils samanborið við aðild að stærra gjaldmiðlasvæði eins og evrusvæðinu.

Nokkrar innlendar skýrslur hafa verið gerðar um þetta málefni en hér er í fyrsta sinn leitað til hóps erlendra sérfræðinga sem eru óháðir hagsmunaaðilum í landinu.

Skoðum nánar hvað fyrri skýrslur um þetta mál hafa leitt í ljós.

Gölluð króna

Eldri skýrslur um krónuna eru allar sammála um ókosti hennar.

Skýrsla Seðlabanka Íslands frá árinu 2012 um valkosti Íslands í gjaldmiðlamálum komst meðal annars að þeirri niðurstöðu að aðild okkar að evrusvæðinu myndi líklega auka umfang utanríkisviðskipta um 8-23% . Þetta myndi þýða auknar útflutningstekjur á bilinu 160 til 460 milljarða á ári miðað við um 2000 milljarða gjaldeyristekjur í ár.

Miðað við ofangreind áhrif á utanríkisviðskipti gæti landsframleiðsla á mann aukist varanlega um allt að 11% við aðild að evrusvæðinu. Efnahagsleg áhrif aukinnar milliríkjaverslunar vegna upptöku evrunnar hér á landi gætu því orðið umtalsverð og hækkað innlendar tekjur töluvert samkvæmt skýrslu Seðlabankans.

Í skýrslu Alþjóðamálastofnunar HÍ til aðila vinnumarkaðarins, 2013, segir m.a.: „Þegar allt þetta er dregið saman, auk þess að taka tillit til þess mikla viðskiptaábata sem alþjóðleg og greiðsluhæf mynt getur sannanlega fært smáþjóðum, verður ekki önnur ályktun dregin en að upptaka evru með aðild að myntbandalagi Evrópu muni fela í sér gríðarlegan velferðarábata fyrir Ísland.“

Sjálfstæðisflokkurinn lét gera skýrslu um gjaldmiðlamálin árið 2009 en þar er talað um „óhagkvæmni þess að reka sjálfstæða peningamálastefnu í svo litlu og fámennu hagkerfi.

Skýrslan segir einnig að „Ísland væri með öðrum orðum mjög óhagkvæmt gjaldmiðilssvæði sem ætti litla möguleika á að spjara sig í opnu nútíma umhverfi frjálsra fjármagnsflutninga.

Ólíðandi væri fyrir þjóðina til lengdar að búa við miklar gengissveiflur undanfarinna ára.

Þessar sveiflur gera einstaklingum og fyrirtækjum erfitt fyrir í allri áætlanagerð og skipulagningu framtíðar. Þessu hefur fylgt mikil verðbólga og mjög háir vextir sem sem gera heimilum og fyrirtækjum óhemju erfitt fyrir.“ Þetta sagði flokkurinn þá.

„Tími krónunnar er liðinn“

Þessa yfirskrift er að finna á vefsíðu Samtaka atvinnulífsins. Þar stendur meðal annars:

„Það er hagstætt fyrir Íslendinga að taka upp evru og hægt er að gera slíkt án aðildar að ESB. Sjálfstæðum gjaldmiðli í jafn litlu landi og Íslandi fylgir umtalsverður fórnarkostnaður og ávinningur sjálfstæðrar peningastefnu er mun minni en kostnaðurinn sem henni fylgir.“

Síðar er á vefsíðu SA vitnað í orð núverandi seðlabankastjóra sem sagði á fundi um málið þetta:

„Staðan væri í rauninni sú að á Íslandi væri minnsta myntsvæði í heimi sem liggi að stærsta myntsvæði í heimi. Upptaka evru væri því augljós kostur fyrir Íslendinga. Einhliða upptaka evru væri vel möguleg og myndi ekki fela í sér álitshnekki fyrir hagstjórn Íslendinga“ sagði Ásgeir Jónsson þá.

Á síðunni er vitnað í Daniel Gros framkvæmdastjóra Center for European Policy Studies sem sagði að hagstætt væri fyrir Íslendinga að taka upp evru. Það myndi auka milliríkjaviðskipti. Jafnframt væri upptaka evru til þess fallin að auka stöðugleika. Ekki væri hægt að útiloka að einhliða upptaka evru væri fær á Íslandi.

Ísland er Grýtubakkahreppur Evrópu

Í Evrópusambandinu búa rúmlega 400 milljónir manna. Á Íslandi búa um 400 þúsund eða um 0,1% af íbúatölu ESB.

Í Grýtubakkahreppi sem er öflugt og vel stætt sveitarfélag í Eyjafirði búa um 400 manns eða um 0,1% af íbúum Íslands.

Engum dytti í hug að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil í Grýtubakkahreppi. Ef svo væri myndi hann líklega heita Grýtan. Við yrðum að skipta krónum í grýtur við innkeyrsluna í hreppinn með tilheyrandi skiptikostnaði og umstangi. Samt telja margir að Ísland eigi að hafa eigin gjaldmiðil.

Ekkert hagkerfi í heiminum af svipaðri stærð og Ísland er með sjálfstæðan gjaldmiðil. Það er talið of áhættusamt, ýtir undir sveiflur í hagkerfinu, eykur verðbólgu, veldur háum vöxtum og hamlar gegn erlendri samkeppni.

Krónan okkar hefur rýrnað að verðgildi um 99,99% frá því hún var tekin upp og flest fyrirtæki landsins í útflutningsgreinum hafa hætt notkun hennar og tekið upp alþjóðlega gjaldmiðla í uppgjörum sínum og lántökum.

Við hin sitjum uppi með krónuhagkerfið með þeim okurvöxtum sem almenningi og fyrirtækjum á innanlandsmarkaði bjóðast.

Gengi krónunnar sveiflast eins og jarðskjálftamælarnir í Bárðarbungu og veldur gífurlegu tjóni hjá fyrirtækjum landsins.

Sem dæmi má nefna að í september 2024 fengust 152 krónur fyrir evruna en aðeins um 140 krónur þann 28. júní síðastliðinn.

Þetta er lækkun sem nemur um 8% sem veldur tekjurýrnun aðeins í ferðaþjónustunni sem nemur um 50 milljörðum á ársgrundvelli auk þess að gera áætlanir fram í tímann ótraustar.

Tökum upp nýjan gjaldmiðil!

Óvissa um gengisþróun og verðbólguvæntingar krónunnar leiða til krónuálags á öll lán sem þýðir að um 4 til 6 prósentustig vaxta bætast ofan á öll lán á Íslandi miðað við evrulöndin.

Heildarskuldir á Íslandi eru 10 þúsund milljarðar og kostar okkur rúmlega 500 milljarða í auka vaxtakostnað eða rúmlega 1400 milljónir á dag … 60 milljónir á klukkustund, milljón á mínútu. Vaxtakostnaður þjóðarinnar sem er eingöngu af völdum krónunnar nemur um 4 milljónum rétt á meðan þú lest þennan pistil.

Oft er talað um innviði þjóða sem vegakerfi, ljósleiðara, orkukerfi og vatnsveitur. Stærsti og mikilvægasti innviðurinn er þó gjaldmiðillinn – krónan. Til að hann sé nothæfur fyrir þjóðina þarf hann að vera stöðugur, tryggja lágt vaxtastig, geta geymt verðmæti og vera skiptanlegur erlendis.

Örgjaldmiðillinn krónan gerir ekkert af þessu og besta vísbendingin um algjört vantraust á krónunni er að hvergi í heiminum er hægt að skipta krónum fyrir annan gjaldmiðil.

Nú er kominn tími til að Ísland taki upp alþjóðlega viðurkenndan gjaldmiðil með upptöku evru. Vonandi komast hinir erlendu sérfræðingar að þeirri niðurstöðu í skýrslu sinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Nytsamlegir sakleysingjar þjóna hagsmunum ríkustu fjölskyldna landsins og fá brauðmola að launum

Svarthöfði skrifar: Nytsamlegir sakleysingjar þjóna hagsmunum ríkustu fjölskyldna landsins og fá brauðmola að launum
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Málþóf og málþæfarar

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Málþóf og málþæfarar
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Margur verður af aurum api

Óttar Guðmundsson skrifar: Margur verður af aurum api
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Nína Richter skrifar: Fólkið sem notar internetið í vinnunni

Nína Richter skrifar: Fólkið sem notar internetið í vinnunni
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum
Enn eru fornmenn á ferð
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Froðusnakkar, orð að sönnu – stjórnarandstaðan velur sér nafn

Svarthöfði skrifar: Froðusnakkar, orð að sönnu – stjórnarandstaðan velur sér nafn
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Þáttaskil í Evrópuumræðu

Þorsteinn Pálsson skrifar: Þáttaskil í Evrópuumræðu
EyjanFastir pennar
07.06.2025

Óttar Guðmundsson skrifar: Þráin eftir Trump

Óttar Guðmundsson skrifar: Þráin eftir Trump
EyjanFastir pennar
06.06.2025

Svarthöfði skrifar: Skrítin skilaboð frá seðlabankastjóra á óvissutímum

Svarthöfði skrifar: Skrítin skilaboð frá seðlabankastjóra á óvissutímum