fbpx
Mánudagur 19.maí 2025
Eyjan

Steingerður Þorgilsdóttir skrifar: Auður Eir tengir sál við sál – 50 ára fermingarminning

Eyjan
Mánudaginn 19. maí 2025 14:42

Fermingarhópurinn á Suðureyri, vorið 1975. Séra Auður Eir í miðjunni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í dag, 18. maí 2025, eru liðin 50 ár frá því að fermingarhópur minn var fermdur í Suðureyrarkirkju af séra Auði Eir Vilhjálmsdóttur, sem þá var nývígður prestur. Á Suðureyri er sú hefð að fermingar fari fram um hvítasunnu og þetta tiltekna vor markaði upphaf nýs kafla í sögu kirkjunnar, þar sem einungis karlar höfðu fram að því gegnt vígðri þjónustu í yfir þúsund ár. Það var því djörf og merkileg ákvörðun að stíga fram sem krafðist hugrekkis og trúar á jafnrétti.

Séra Auður Eir var vígð árið 1974 og varð fyrsta konan til að gegna prestsþjónustu á Íslandi. Hún hefur síðan þá starfað af ósérhlífni í meira en hálfa öld – síðustu áratugina innan Kvennakirkjunnar, sem byggir á kvennaguðfræði. Hún var sannarlega á undan sinni samtíð, bæði hérlendis og á heimsvísu, sem einn af fyrstu – ef ekki sá fyrsti – kvenprestur heims.

Árið 2019 var hundraðasta konan vígð til prests í íslensku þjóðkirkjunni, og nú árið 2025 eru þær tæplega 120. Það er óhætt að segja að séra Auður Eir hafi rutt brautina og lagt grunn að þeirri þróun sem gert hefur kirkjuna opnari, fjölbreyttari og mannlegri.

Á meðal fermingarbarna vorið 1975 var hópur ungra væntanlegra fermingarbarna sem naut leiðsagnar séra Auðar í fræðslu og undirbúningi. Þessi vetur reyndist einstakur og eftirminnilegur, ekki síst vegna nálægðar prestsins við hópinn og þeirra hlýju sem hún sýndi. Í hverri viku tók hún börnin ávallt inn á heimili sitt, bauð þau velkomin í stofuna þar sem sungið var, beðið og rætt af einlægni – og þannig skapaði hún rými þar sem gleði, trú og samvera réðu ríkjum.

Systkini og jafnvel eldri systur fermingarbarnanna sóttu tímana stundum með, einfaldlega vegna þess hve góður andi ríkti. Enn þann dag í dag hittist hópurinn reglulega og minnst vetrarins þar sem Auði Eir er ætíð boðið, enda var hún límið í hópnum. Hún átti óvenjulegt lag á að tengja fólk í gegnum söng, bænir og húmor – manneskja sem opnaði hjörtu og tengdi sál við sál. Fermingarfræðslan varð að sönnum gæðastundum sem stuðluðu að samheldni og mannrækt í sinni tærustu mynd. Þær minningar lifa enn sterkar, minningar um þroska, hlýju og von – og um konu sem hafði djúp áhrif á líf margra.

Séra Auður Eir fagnaði 88 ára afmæli sínu þann 21. apríl síðastliðinn og þjónar enn af krafti. Hún er ljóslifandi sönnun þess að kirkjan getur þróast og vaxið í átt að meiri umhyggju og jafnvægi – prestur sem tengdi guðspjallið við hversdaginn á svo líflegan og manneskjulegan hátt að allir gátu speglað sig í því.

Eins og einn fermingarbróðir orðaði það svo fallega:
„Hún tengdi sál við sál.“

Í ljósi þeirrar umræðu sem á sér nú stað um fermingar og tilgang þeirra, má með sanni segja að þau sem fermdust þetta ár á Suðureyri hafi fengið ómetanlega gjöf. Þau fengu ekki einungis fræðslu, heldur reynslu sem lifir í hjartanu alla ævi. Því er hér færð séra Auði Eir innilegustu þakkir – fyrir leiðsögn, kærleika og áhrif sem enn skína bjart eftir 50 ár.

Takk, Auður

Steingerður Þorgilsdóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Hún er samsæriskenningasmiður, andstæðingur bóluefna og getnaðarvarna – Nú verður hún landlæknir og aðalráðgjafi Trump

Hún er samsæriskenningasmiður, andstæðingur bóluefna og getnaðarvarna – Nú verður hún landlæknir og aðalráðgjafi Trump
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Er Bergþór Ólason orðinn helsti siðgæðisvörður Alþingis?

Orðið á götunni: Er Bergþór Ólason orðinn helsti siðgæðisvörður Alþingis?
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Stjórnarandstaða með pólitískt sjálfsofnæmi

Sigmundur Ernir skrifar: Stjórnarandstaða með pólitískt sjálfsofnæmi
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Vælustjórnun

Óttar Guðmundsson skrifar: Vælustjórnun
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku
Lögregla rúin trausti