Orðið á götunni er að eina rödd skynseminnar sem heyrst hefur lengi frá ritstjórn Morgunblaðsins í Hádegismóum sé rödd Kolbrúnar Bergþórsdóttur sem um hverja helgi deilir sínu sjónarhorni með lesendum blaðsins á síðum þess. Oftar en ekki er himinn og haf milli hennar sjónarhorns og sjónarhorns þeirra sem skrifa ritstjórnargreinar blaðsins.
Um liðna helgi beindi Kolbrún penna sínum gegn stjórnarandstöðunni á Alþingi og orðið á götunni er að þegar Kolbrún mundar penna sinn sé hann margfalt beittari en nokkurt sverð: „Stjórnarandstaða landsins er ekki með sjálfri sér. Stöðug tilfinningaleg upphlaup hennar undanfarið vegna frumvarps ríkisstjórnarinnar um leiðréttingu veiðigjalda bera vott um áberandi örvæntingu og ráðleysi. En kannski er verið að fara fram á of mikið þegar beðið er um að stjórnarandstaða þingsins sé í jafnvægi. Maður hefur heyrt að það geti gert stjórnmálamenn mjög geðvonda að setjast í stjórnarandstöðu eftir að hafa verið lengi við völd. Það er svo náttúrlega ekki til að bæta geð þeirra þegar sitjandi ríkisstjórn nýtur vinsælda meðal almennings.“
Kolbrún segir marktæka stjórnarandstöðu trúa því að hún hafi hlutverki að gegna og sinna því af ábyrgð og yfirvegun, en leggist ekki í upphrópanir og hræðsluáróður. Orðið á götunni er að Kolbrún hitti naglann beint á höfuðið þegar hún bendir á að ef leiðrétting veiðigjalda sé jafn slæm og stjórnarandstaðan heldur fram ætti að vera hægt að leggja fram staðreyndir því til sönnunar og ræða málið á yfirvegaðan hátt svo þjóðin skilji. Þetta hafi stjórnarandstaðan hins vegar ekki gert. „Þess í stað ákveður hún að reka upp örvæntingarfull gól um að fjármálaráðherra hafi ekki mætt í þingsal á ákveðnum tíma. Fréttin um að stjórnarandstaðan saknaði fjármálaráðherra ákaft rataði á netsíður fjölmiðla og virkaði eins og skemmtifrétt um stjórnarandstöðu í miklu tilfinningalegu uppnámi. Ef stjórnarandstaðan vill að gert sé grín að henni þá er alveg upplagt fyrir hana að halda áfram að starfa á þennan hátt.“
Orðið á götunni er að þingmönnum Sjálfstæðisflokksins hljóti að svíða undan skömmum Kolbrúnar: „Í umræðu um veiðigjöldin lagðist stjórnarandstaðan í málþóf sem þjóðin nennti vitanlega ekki að hlusta á. Síðan fór stjórnarandstaðan að klaga ríkisstjórnina og saka hana um offors, skróp, hroka, vanvirðingu við þingið og fleira og fleira. Þessar kvartanir virkuðu sem afar þreytandi suð fúllyndra þingmanna.
Maður myndi halda að stjórnarandstaða hverju sinni vildi ná til þjóðarinnar. Þessari stjórnarandstöðu tekst það alls ekki. Ekkert fær breytt þeirri staðreynd að meirihluta þjóðarinnar finnst óréttlæti felast í núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Ríkisstjórnin hefur því stuðning þjóðarinnar þegar hún leggur fram frumvarp um breytingar á veiðigjöldum.“
Þá beinir Kolbrún penna sínum líka gegn Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. „Samtökin virðast ekki nægilega veruleikatengd eins og auglýsingaherferð þeirra sýnir glöggt. Í auglýsingum er okkur sýndur bær þar sem allir lifa góðu lífi og virðast alltaf vera í góðu skapi og veifa okkur áhorfendum vinalega. Þetta minnir óneitanlega á kvikmyndina The Truman Show en þegar Truman gekk út úr húsi sínu mættu honum ætíð glaðlegir nágrannar sem veifuðu vingjarnlega til hans. Í framvindunni kom í ljós að heimur Trumans byggðist á algjörri blekkingu. Bærinn hans var ekki til í raunveruleikanum, hann var tilbúningur, fullkomlega ósannur.“
Þá gefur hún lítið fyrir „Exit“ auglýsingar SFS um „norsku leiðina“ og segir þær ekki til annars fallnar en að skapa andúð á leikurunum sem virðist einungis vera „aumir gróðafíklar.“
„Þessi auglýsingaherferð er einhver sú furðulegasta sem maður hefur séð. Það er eins og þeir sem hana hönnuðu reikni með því að íslenskur almenningur sé einstaklega trúgjarn og elski stórútgerðina.“
Og áfram heldur Kolbrún: „Þjóðin er sannarlega ekki búin að gleyma því hversu gagnslaus síðasta ríkisstjórn var. Nú hefur þjóðin fengið ríkisstjórn sem virðist ætla að verða verkmikil á afar jákvæðan hátt og er tilbúin að bylta óréttlátum kerfum. Fúllynd stjórnarandstaða á lítið erindi og dæmir sig marklausa með stöðugum upphlaupum.
Forsvarsmenn fyrirtækja sem hafa grætt meira en þeir ættu að eiga rétt á safnast svo vitanlega saman í grátkór. Milli ekkasoga koma hótanir um eyðingu byggða og yfirvofandi upplausn. Þessi viðbrögð ættu ekki að koma á óvart, þótt maður hefði svo gjarnan viljað sjá meira vit í málflutningnum.“
Orðið á götunni er að það heyri til tíðinda þegar einn helsti og öflugasti blaðamaður Morgunblaðsins, sem gjarnan ber hitann og þungann af stórum helgarviðtölum blaðsins og hefur sinn eigin vettvang til skoðanaskrifa, Sjónarhorn, dregur hvergi af sér í harðri og beinskeyttri gagnrýni á getu- og lánlausa stjórnarandstöðu Sjálfstæðisflokksins og samtök sægreifa á síðum blaðsins.