Tölvupóstur sem Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, sendi í aðdraganda aðalfunds flokksins hefur fallið í grýttan jarðveg hjá hluta flokksmanna. Á Rauða þræðinum, umræðuvettvangi sósíalista á Facebook, skapast miklar umræður um póstinn og er Sönnu meðal annars gefið að sök að hafa misnotað aðstöðu sína með skeytasendingunni í nafni flokksins.
Óhætt er að fullyrða að undanfarnar vikur hafi verið róstursamar í innra starfi Sósíalistaflokksins. Hópur ungra flokksmanna hefur stigið fram með háværa gagnrýni, sér í lagi á störf Gunnars Smára Egilssonar, formanns framkvæmdastjórnar flokksins. Hefur Gunnar Smári verið sakaður um ólýðræðisleg vinnubrögð, ofríki, trúnaðarbrot, andlegt ofbeldi og þöggun svo eitthvað sé nefnt.
Í kjölfarið hefur allt logað stafna á milli í innra starfi flokksins og er því talsverður titringur fyrir aðalfund flokksins sem fer fram laugardaginn 16. maí næstkomandi.
Sanna Magdalena, sem er óumdeildur pólitískur leiðtogi sósíalista, hefur staðið með Gunnari Smára í þessum ólgusjó en á sama tíma reynt að stilla til friðar innan flokksins. Það hefur gengið upp og ofan en segja má að Sanna hafi hellt olíu á eldinn með tölvupóstinum, að minnsta kosti hjá þeim sem eru óánægðir með störf Gunnars Smára, og sér í lagi vegna þess að hann var sendur út í nafni flokksins.
Þar segir Sanna meðal annars:
„En Sósíalistaflokkurinn stendur nú frammi fyrir alvarlegri áskorun því undanfarnar mánuði hafa ýmsar rangfærslur verið settar fram um flokkstarfið. Fjármál flokksins og mánaðarleg framlög mín til Vorstjörnu – styrktarsjóðs, hafa verið gerð tortryggileg að ástæðulausu. Þrátt fyrir að ásakanir standist ekki skoðun, þá hafa þær grafið undan starfinu, sett vinnu stjóra í uppnám og haft neikvæð áhrif á orðspor flokksins.
Hópur fólks vill einblína á aðhaldsaðgerðir inn á við og auka eftirlit með störfum félaga. Þetta er ekki leiðin að árangri. Við þurfum að halda áfram að vinna út á við og beina kraftinum gegn óréttlætinu. Við þurfum öll að leggjast á eitt til að tryggja framgang sósíalismans fyrir fólkið sem reiðir sig á okkur.“
Fljótlega kviknuðu síðan umræður um skeytið á umræðuvettvangi flokksmanna.
„Kæra Sanna, gagnrýni sem hefur komið fram hefur aldrei snúist um þig eða þitt framlag, allir meðlimir Sósíalistaflokksins dýrka þig og dá og enginn sem ég þekki hefur gagnrýnt styrki þína inn í Vorstjörnuna. Deilan í flokknum snýst ekki um þig heldur hvernig hann er skipulagður, hvernig það eru ekki til neinir pappírar um mikilvæg atriði í fjármálum flokksins og hvernig fólk sem ræður ekki við skapið í sér hefur hrakið ófáa í burtu,“ skrifar sá sem fyrst vekur athygli á pósti Sönnu.
Aðrir félagsmenn fara ekki jafn mjúkum höndum um borgarfulltrúann.
„Fullkomlega óeðlilegt og óviðeigandi af þessum pólitíska leiðtoga okkar að misnota aðstöðu sína til að senda póst í nafni flokksins með einhliða persónulegum skoðunum sínum á innri deilum í flokknum, til að dreifa áróðri og rangindum, í aðdraganda aðalfundar,“ skrifar blaðamaðurinn Jón Ferdínand Estherarson.
„Hey, heyr. Fjölpóstur Sósíalistaflokksins til félaga, sem þú vísar til, er með ólíkindum. Fullur af óheiðarleika; lygum og rangfærslum. Auk þess undirritaður af Sönnu Magdalenu. – Að misnota með þessum hætti hvatningu til fólks að mæta á aðalfund held ég að varla megi finna hliðstæðu, ekki einu sinni í myrkustu afkimum Valhallar,“ segir önnur.
Sanna brást þá við með því að útskýra mál sitt frekar og kvaðst vera að bregðast við ósanngjarnri gagnrýni.
„Í ljósi umræðunnar. Á undanförnum vikum hef ég lesið ýmislegt. Hér er dæmi um það sem ég hef lesið varðandi framlag mitt til Vorstjörnunnar: Ég las í Heimildinni að ég væri að greiða inn í félag sem fólk héldi utan um sem væri „[…] í raun að brjóta lög því þau eru að reka félag sem þau hafa enga lögmæta aðild að.“ Ég get ekki skilið þá grein öðruvísi en svo að ég eigi að vera að greiða í Vorstjörnuna til að komast hjá því hámarki sem er sett á einstaklinga um að mega einungis styrkja stjórnmálasamtök um 550.000 krónur á mánuði.
Vorstjarnan var ekki stofnuð utan um fjárframlög mín til hennar, ég gef hluta af launum mínum því ég vil styrkja Vorstjörnuna og því mér finnst launin mín fáranlega há. Ég vil að það sé til öflugur styrktarsjóður sem styrkir hagsmunabaráttu hinna verr settu, þannig að þau geti byggt upp og rekið hagsmunabaráttu sína.
Mér finnst ekki uppbyggilegt að sjá umfjöllun í fjölmiðlum um að heill styrktarsjóður eigi að hafa verið stofnaður til að ég gæti farið á svig við reglur. Að eina markmiðið með stofnun Vorstjörnunnar hljóti að vera að finna leið fyrir mig til að fara á svig við reglur sem gilda í þessu landi. Ég greiði mánaðarframlag mitt til Vorstjörnunnar ekki til Sósíalistaflokks Íslands. Vorstjarnan hefur verið að styrkja; Leigjendasamtökin, samtök fólks í fátækt og fleiri. Ég er glöð að hafa greitt þetta framlag og glöð að sjá hverja Vorstjarnan hefur verið að styrkja,“ skrifaði Sanna og lét fylgja með skjáskot úr áðurnefndri frétt í Heimildinni.
Ljóst er að draga mun til tíðinda á komandi aðalfundi.