Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, gefur lítið fyrir „grátinn“ í Viðskiptaráði út af gjaldfrjálsum skólamáltíðum. Hagstofa Íslands tilkynnti í dag að verðbólgan hefði lækkað nokkuð milli mánaða og megi helst rekja það til verðlækkana mötuneyta eftir að skólamáltíðir voru gerðar gjaldfrjálsar fyrir grunnskólanema. Viðskiptaráð kallaði þessa verðlækkun skammgóðan vermi enda liggi fyrir að ókeypis skólamáltíðir muni kosta ríkissjóð 1,7 milljarð í ár, sem muni auka hallarekstur ríkisins. Þar með hafi þetta áhrif til lækkunar verðbólgu í dag, en næstu mánuði muni þetta stuðla að þenslu.
Vilhjálmur kallar þessa spá Viðskiptaráðs uppistand og í raun sé magnað að heyra Viðskiptaráð „grenja yfir því að okkur í verkalýðshreyfingunni hafi tekist að tryggja öllum börnum í grunnskólum vítt og breitt um landið gjaldfrjálsar skólamáltíðir og að sú barátta skili sér síðan í umtalsverðri lækkun verðbólgu milli mánaða“.
Það sé með öllu órökstudd af Viðskiptaráði hvernig þetta eigi að auka verðbólguna síðar, og segist Vilhjálmur bíða spenntur eftir slíkum rökstuðning. Á meðan sé það staðreynd að verðtryggðar skuldir heimila lækka þar sem lækkun á vísitölu lækkar höfuðstól. Á meðan megi Viðskiptaráð vel grenja með Sjálfstæðismönnum yfir því að börn þurfi ekki að borga fyrir skólamatinn.
„Ég bíð spenntur eftir næsta uppistandi frá Viðskiptaráði. Ég spyr hvað lækkuðu verðtryggðar skuldir ríkissjóðs og sveitarfélaga mikið við það eitt að vísitala neysluverðs lækkaði milli mánaða um 0,24%? Ég myndi geta svarað því ef ég vissi nákvæma skuldastöðu á verðtryggðum skuldum hjá ríki og sveitarfélögum.
Ég hinsvegar veit að höfuðstóll heimila sem eru með verðtryggð lán mun lækka vegna þess að vísitalan lækkar á milli mánaða og sem dæmi þá mun 60 milljóna króna verðtryggt húsnæðislán lækka um 144 þúsund. Mig minnir að verðtryggðar skuldir íslenskra heimila nemi í kringum 1500 milljörðum sem þýðir að þær lækka um 3,6 milljarða.
Já, Viðskiptaráð grenjar yfir því að barnafjölskyldur fái þá „búbót“ að vera með gjaldfrjálsar skólamáltíðir fyrir börn sín sem ég veit að kemur sér mjög vel fyrir lágtekju-og millitekjufólk.
Það má kannski segja að Viðskiptaráð endurspegli grátkór sveitarstjórnarmanna Sjálfstæðismanna sem hafa grenjað eins og stungnir grísir yfir því að hafa þurft að taka þátt í því í síðustu kjarasamningum að skólamáltíðir yrðu gjaldfrjálsar.
En eitt er víst að þessi lækkun á verðbólgu milli mánaða mun skila sér í lækkun á höfuðstól verðtryggðra lána jafnt hjá skuldsettum heimilum sem og hjá ríki og sveitarfélögum. Einnig mun þessi lækkun milli mánaða lækka leigu hjá þeim sem eru með verðtryggða húsaleigusamninga.
Allt jákvætt við þetta þökk sé verkalýðshreyfingunni og það er kannski það sem pirrar Viðskiptaráð! “