fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Eyjan

Vill að Sjálfstæðisflokkurinn í Árborg opni bókhaldið – Grunsamlegar skipulagsbreytingar

Kristinn H. Guðnason
Fimmtudaginn 22. febrúar 2024 19:00

Sigurjón telur íbúa Árborgar eiga heimtingu á að vita hverjir styrktu framboð Sjálfstæðismanna fyrir síðustu kosningar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigurjón Vídalín Guðmundsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Árborg, vill að listi Sjálfstæðismanna í sveitarfélaginu opni bókhaldið og sýni hverjir styrktaraðilarnir eru. Beiting Sjálfstæðismanna á skipulagsvaldinu sé grunsamleg eftir að þeir komust í meirihluta aftur.

Sigurjón skrifar um þetta í grein hjá staðarmiðlinum Sunnlenska um síðustu helgi. Pistillinn er ansi beittur og ber yfirskriftina „Skyldi vera hægt að kaupa kosningaúrslit?“

Sjálfstæðisflokkurinn náði hreinum meirihluta í sveitarstjórnarkosningunum í Árborg árið 2022, fékk rúmlega 46 prósent atkvæða og bætti sig um rúmlega 8 prósent. Áður höfðu Samfylking, Framsóknarflokkur, Miðflokkur og listinn Áfram Árborg starfað saman í meirihluta.

Neituðu að sýna styrktaraðila

Sigurjón segir að í kosningabaráttunni hafi fljótlega komið í ljós að fjárhagslegt forskot Sjálfstæðisflokksins var mikið á hin framboðin. Sérstaka athygli hafi vakið hvað Sjálfstæðismenn hafi átt efni á því að borga úthringiverum, aðstöðu undir herra og kvennakvöld, kaupum á landsþekktum skemmtikröftum og takmarkalausum veitingum.

„Það skiptir máli hverjir borga og til að lýðræðið virki og störf kjörinna fulltrúa séu hafin yfir vafa sérhagsmuna þarf að opna bókhaldið og birta stuðningsframlög og kostnað. Það er ekki einkamál D-listans í Árborg hverjir kosta framboð hans. Þar takast á sérhagsmunir og almannahagsmunir,“ segir Sigurjón.

Lögð var fram tillaga um að öll framboð sem ættu fulltrúa í bæjarstjórn opnuðu bókhaldið og gerðu grein fyrir styrkjum eins og tíðkast hafi. Hins vegar hafi fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fellt þessa tillögu.

„Þeim þótti ekki ástæða til þess að opna bókhaldið fyrir kjósendum. Hvað var það í bókhaldinu sem kjósendur máttu ekki sjá?“ spyr Sigurjón.

Án þess að hafa nákvæmar tölur giskar Sigurjón á að Sjálfstæðismenn hafi haft úr tugum milljónum króna að spila í sinni kosningabaráttu. Önnur framboð hafi haft á bilinu 1 til 3 milljónir til að eyða.

300 milljónir rúsínan í pylsuendanum

Nefnir hann sérstaklega skipulagsvald sveitarfélagsins og að þar sé mögulega að finna skýringuna á þessu öllu saman.

„Nýtt deiliskipulag fyrir miðbæ Selfoss var kynnt með pompi og prakt á Sviðinu fyrir fullum sal af áhorfendum skömmu eftir kosningar,“ segir Sigurjón. „Þetta nýja deiliskipulag tók væna sneið af Sigtúnsgarðinum, þrátt fyrir að í umræðum um upphaflega skipulagið hefðu mestu átökin verið um stærð garðsins og gagnrýni margra varðandi minnkun hans og hugsanleg neikvæð áhrif á notagildi hans fyrir íbúa sveitarfélagsins í kjölfarið.“

Byggingarmagnið hafði verið aukið um mörg þúsund fermetra. Rúsínan í pylsuendanum var svo að sveitarfélagið hafi allt í einu fallist á að taka á sig 300 milljón króna kostnað við göngugötu í miðbænum.

Bragi Bjarnason oddviti Sjálfstæðisflokksins.

„Það er mjög umhugsunarvert í ljósi þess að ein að forsendunum fyrir því að Sigtúni þróunarfélagi var afhent verðmætasta land sveitarfélagsins fyrir ekki neitt á sínum tíma var sú að það myndi kosta alla uppbyggingu í miðbænum,“ segir Sigurjón. „Þarna skyldu þó aldrei verið komnar 300 milljónirnar sem gerð var tilraun til að hafa af sveitarfélaginu til að byggja bílastæðahúsið í miðbænum en var ekki samþykkt af síðustu bæjarstjórn þegar D-listinn var í minnihluta?“

Athyglisverðast hafi verið að þarna hafi verið að kynna deiliskipulag sem hafði ekki enn þá verið kynnt fyrir bæjarstjórn og ekki fengið neina umfjöllun innan stjórnsýslunnar, svo sem í skipulags- og byggingarnefnd.

„Af einhverjum ástæðum þóttu forráðamönnum Sigtúns þróunarfélags það greinilega óþarfi, enda sennilega bara formsatriði að fá það samþykkt.“

Bragi hafi þegið styrki

Tvö ár eru liðin af kjörtímabilinu og Sigurjón segist heyra að margir framkvæmdaaðilar séu óánægðir með hversu hægt málin hjá þeim ganga, það er mál sem snúa að sveitarfélaginu Árborg. Svo sem er varðar breytingar á deiliskipulagi, útgáfu byggingarleyfa og annað í þeim dúr. Hjá öðrum renni málin hins vegar hratt í gegn.

„Nægir þar að nefna nýtt miðbæjarskipulag og nýtt skipulag fyrir íbúðabyggð í Árbakkalandi (en sama eignarhaldið er á miðbænum og Árbakkalandinu) en það var m.a. afgreitt af verðandi bæjarstjóra og núverandi formanni bæjarráðs sem jafnframt er formaður skipulags- og byggingarnefndar ásamt því að vera oddviti D-listans,“ segir Sigurjón og á við Braga Bjarnason. „Það er í sjálfu sér kannski ekki gagnrýnisvert nema í því ljósi að hann hefur komið fram opinberlega í viðtali við Stundina (nú Heimildin) og viðurkennt að hafa verið styrktur persónulega í sinni pólitískri vegferð með fjárframlagi af aðila tengdum Sigtúni þróunarfélagi.“

Segir hann Braga algerlega vanhæfan til þess að taka ákvarðanir tengdar Sigtúni þróunarfélagi fyrir hönd sveitarfélagsins.

„Það er því ekki nema von að sumir spyrji sig; skyldi vera hægt að kaupa kosningaúrslit?“ spyr Sigurjón.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus