Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, hafði óskað umræðu á fundi borgarstjórnar í gær um málefni Loftkastalans. Hún segist ósátt við að umræðunni hafi verið frestað enda hafi engin rök verið fyrir því þegar fundurinn fór fram.
Kolbrún bendir á að umræðunni hafi verið frestað þar sem forsvarsmenn Loftkastalans höfðu ekki sótt ábyrgðarbréf frá borginni um að borgarráð hefði ákveðið að rifta kaupsamningi. Þessi rök hafi þó ekki átt við þegar borgarstjórnarfundurinn hófst, en þá höfðu forsvarsmenn náð í bréfið og móttökukvittun gefin út. Kolbrún bendir á að til stóð að ræða mistök borgarinnar, en ekki riftun kaupsamningsins.
Mál Loftkastalans er nokkuð flókið hefur velkst um í borgarkerfinu árum saman. Fyrirtækið keypti 1.800 fermetra lóð af borginni árið 2018 ásamt tveimur húsum með þremur fasteignanúmerum. Auk þess fylgdi eigninni byggingarréttur. Þessar eignir tilheyrðu áður Áburðaverksmiðjunni. Loftkastalinn ætlaði að nýta eignina til að smíða leikmyndir og stóð til að byggja við húsin svo þau rúmi starfsemina. Ein forsenda kaupanna var að gólf væntanlegrar viðbyggingar og lóðin væru sem mest á jafnsléttu og gólfin í svipaðri hæð og í gömlu húsunum. Þetta átti að þjóna þeim tilgangi að hægt væri að renna stórum leikmyndum milli húsanna. Eftir að blekið var þornar á kaupsamningi ákvað borgin að skipta lóðinni í tvennt. Eigendum Loftkastalans var sagt að þetta hefði engin áhrif á viðskipti þeirra við borgina. Þó kom á daginn að hækka átti baklóðina um 60 sm, en Loftkastalinn telur að þessi breyting hafi gengið í berhögg við kaupsamning og forsendur fyrirtækisins fyrir kaupunum. Loftkastalinn telur að hækkunina megi rekja til mistaka við mælingu, en borgin hafi þó ekki brugðist við ábendingum þeirra um mistökin, og nú sé of seint að bregðast við.
Kolbrún rekur í greinargerð, sem útbúin var fyrir fund borgarstjórnar í gær, að borgin hafi þegar gengist við mistökum í málinu, en slíka viðurkenningu megi finna í viðauka við kaupsamninginn. Þetta hafi verið afdrifarík mistök sem gerðu að verkum að Loftkastalinn getur ekki nýtt eignir sínar eins og til stóð. Í fyrirspurn um málið í ágúst benti Kolbrún á að mistökin hafi eins leitt til þess að gólf núverandi húsa á lóð Loftkastalans eru komin niður fyrir jarðveg, sem skapi hættu á vatnstjóni. Málið hafi dregið dilk á eftir sér og borgarbúi situr nú eftir með skerta eign vegna samskipta- og samráðsleysi borgarinnar. Eins hafi borgin þannig komið í veg fyrir uppbyggingu 23 íbúða og skerðingu á rekstri Loftkastalans árum saman.
„Nú fimm árum síðar eða sex árum eftir kaup, er málið í hörðum hnút sem er sorglegt í ljósi þess að þetta hefði verið hægt að laga strax í upphafi ef hlustað hefði verið á ábendingar frá Loftkastalanum og fleirum.“
Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram fyrirspurn vegna málsins árið 2021 og fylgdi erindi þeirra yfirlýsing frá þeim arkitekt sem vann fyrir borgina deiliskipulag fyrir kvikmyndaþorp í Gufunesi 2016-2019. Þetta deiliskipulag var auglýst og staðfest. Gerði það ráð fyrir blandaðri byggð með áherslu á skapandi iðnað og hagkvæmr íbúðir. Arkitektinn tók fram í erindi sínu að rekstrarforsendur Loftkastalans hafi verið skýrar frá upphafi, að geta rennt stórum hlutum hindrunarlaust milli húsa. Vel var upplýst af hálfu Loftkastalans að til stóð að reisa verkstæði á lóð þeirra m.a. fyrir framleiðslu og flutning á stórum leikmyndum. Eitthvað hafi þó farið úrskeiðis því fyrirhugaðir hæðakótar í landinu umhverfis lóð Loftkastalans væru ekki í samræmi við uppgefnar rekstrarforsendur og ekki heldur í samræðmi við samráðsfundi eða kynningar sem haldnar voru með Loftkastalanum. Mikilvægt væria ð bregðast við kvörtunum Loftkastalans sem allra fyrst.
Einn eigandi Loftkastalans birti myndband um málið í september á síðasta ári.