Grein Össurar Skarphéðinssonar, fyrsta formanns Samfylkingarinnar, um forsetakosningarnar, vakti nokkra athygli í gær. Össur er stuðningsmaður Katrínar Jakobsdóttur. Össur andmælti í grein sinni þeim röddum sem hafa talið Katrínu Jakobsdóttur of samtengda pólitísku valdi í landinu til að geta orðið sameiningarafl sem forseti.
DV fjallaði um greinina í gærkvöld. Össur sagði meðal annars: „Í baráttunni um Bessastaði halda andstæðingar Katrínar fram að nálægð hennar við stjórnmálin sé of mikil. Lengri tími hefði þurft að líða milli þess að hún gegndi ábyrgðarstöðu í stjórnmálum og framboðs hennar til forseta. Fyrir vikið verði henni erfitt, jafnvel ómögulegt, að verða það sameinandi afl fyrir þjóðina, sem hún sjálf segir að sé helsta takmark sitt.“
Össur taldi þennan málflutning bera vitni um slakt minni og benti á stöðu Ólafs Ragnars Grímssonar sem kjörinn var forseti árið 1996:
„Er minni manna svona stutt? Er fólk búið að gleyma því að Ólafur Ragnar var í mjög svipaðri stöðu og Katrín þegar hann fór í framboð til forseta árið 1996? Hann var þá, einsog Katrín, leiðtogi lítils stjórnmálaflokks. Sannarlega var hann þá, líkt og Katrín, öflugasti stjórnmálamaður sinnar tíðar. En hann var líka langsamlega umdeildasti stjórnmálamaður landsins og mun umdeildari en Katrín áður en hún gaf kost á sér. Jafnvel innan eigin flokks, þar sem ég var í hans liði, átti hann stöðugt í höggi við öflugan her andstæðinga.“
Össur benti á að andstaða margra við Ólaf Ragnar á þessum tíma hefði verið hatrömm. Þá líkt og nú héldu margir að hann gæti aldrei orðið sameinandi afl fyrir þjóðina. „En hvað gerðist? Áður en ár var liðið frá kjöri varð Ólafur Ragnar í krafti reynslu og atgervis orðinn að sameiningatákni þjóðarinnar sem naut 80% fylgis meðal þjóðarinnar. Það gerðist löngu fyrir málskot vegna fjölmiðlalaganna og síðar Icesave.“
Mörður Árnason, íslenskufræðingur og fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, svarar þessum skrifum Össurar í pistli á Facebook. Hann telur að samanburður Össurar á stöðu Katrínar og Ólafs Ragnars sé ekki hnökralaus. Katrín sé með sterk tengsl við ráðandi öfl en Ólafur Ragnar hafi komið fram, að sumu leyti, sem andsvar við valdaelítu þess tíma. Hann hafi, ólíkt Katrínu, ekki verið stuðningsmaður sitjandi ríkisstjórnar.
„Mér skilst að gamall félagi minn, Össur Skarphéðinsson, hafi nýlega drepið niður penna og borið saman forsetaframbjóðendurna Katrínu Jakobsdóttur 2024 og Ólaf Ragnar Grímsson 1996. Niðurstaðan sé sú að bæði hafi verið umdeild fyrir kjörið og í kosningabaráttunni, en allar líkur bendi til að nái Katrín kjöri muni hún feta dyggilega í þau fótspor Ólafs Ragnar að búa við almenna lýðhylli alla sína forsetatíð.
Katrín Jakobsdóttir sé þannig einskonar Ólafur Ragnar Grímsson II.“
Mörður sér hnökra á þessum samnburði Össurar:
„Þolið mér þá framhleypni að benda á nokkra hnökra á þessum samanburði.
Rétt er að bæði Ólafur Ragnar og Katrín komu til forsetakjörs úr iðuköstum stjórnmálanna. Sá er þó munurinn að Katrín var formaður VG og forsætisráðherra samstjórnar VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks alveg þangað til daginn sem hún tók stökkið. Ólafur Ragnar hætti hinsvegar sem fjármálaráðherra vorið 1991 og hafði verið utan stjórnar í fimm ár þegar kjósa þurfti forseta að Vigdísi genginni. Ólafur Ragnar var þá almennur alþingismaður, og hafði látið af formennsku í flokki sínum haustið áður.
Sá mismunur skiptir þó kannski meira máli að Ólafur Ragnar var ekki stuðningsmaður ríkisstjórnar árið 1996 ‒ ráðuneytis Davíðs Oddssonar. Með þjóðinni var algengt að litið væri á framboð hans sem tækifæri til að stuðla að valdajafnvægi í samfélaginu ‒ ef ekki beinlínis sem tækifæri til að sýna andstöðu við þáverandi ríkisstjórn, einmitt í kjölfar Reykjavíkurlistans 1994.
Atkvæði á Ólaf Ragnar var þannig atkvæði gegn valdinu, og gegn elítunum.“
Mörður segir að staða Katrínar sé allt önnur en staða Ólafs Ragnars var vorið 1996:
„Katrín hefur að þessu leyti allt aðra stöðu ‒ ber ábyrgð á verkum stjórnar sinnar í sjö ár ‒ og færði sjálfum Bjarna Benediktssyni lyklavöldin í hvíta húsinu við Lækjartorg í upphafi framboðsins.
Þeir sem muna ‒ þeir muna eftir fyrstu myndinni af ríkisráðsfundi Ólafs Ragnars á Bessastöðum, þar sem þeir Davíð og Halldór sátu fýlulegir sinn við hvora hlið skælbrosandi nýs forseta lýðveldisins.
Verði Katrín nú hlutskörpust yrði fyrsta ráðsmynd hennar á hinn bóginn nokkurnveginn þreytuleg endurtekning á ríkisstjórnaruppstillingunni frá 2017 og 2021.“