Friðjón R. Friðjónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi framkvæmdastjóri almannatengslafyrirtækisins KOM, er genginn til liðs við kosningateymi Katrínar Jakobsdóttur.
Friðjón greinir frá þessu á samfélagsmiðlum í dag. Hann segist hafa þekkt til fjölskyldu Katrínar í langan tíma.
„Ég kynntist Katrínu Jakobsdóttur fyrir sirka 30 árum þegar hún var í Morfís-ræðuliði MS sem ég þjálfaði með Kjartani vini mínum. Bræður hennar voru líka vinir mínir þegar við vorum samtíða í MS,“ segir Friðjón.
Hann segist ekki hafa verið sammála þeim í pólitík en þau séu gott fólk. Segir hann Katrínu vera mörgum kostum búin sem skipti máli í embætti forseta, að hún sé klár, heiðarleg, vinnusöm og hafi reynslu og þekkingu á stjórnskipan landsins.
„Ég hef ekkert á móti þeim sem helst etja kappi við Katrínu, allt það fólk myndi standa sig með sóma í embætti. En ég styð Katrínu vegna þess að ég þekki hana líklega best allra frambjóðenda og tel mig vita hvernig forseti hún yrði,“ segir Friðjón.
Hann segist hafa gefið vinum sínum í teymi Katrínar ráð um praktísk atriði kosningabaráttu. Í byrjun vikunnar hafi hann svo verið beðinn um að ganga til liðs við teymið.
„Það var mér ljúft og skylt, enda treysti ég, eins og áður sagði, Katrínu best til starfans af þeim sem verða í kjöri. Ég vona bara að framlagið komi að gagni,“ segir Friðjón. „Forsetaembættið snýst ekki um stjórnmálaskoðanir þess sem þar situr ef viðkomandi er heilsteypt manneskja og fylgir í stórum dráttum þeim hefðum og venjum sem þar hafa skapast í tímans rás.“