Þetta sagði Kari Lake, áhrifamikill Repúblikani og náinn bandamaður Donald Trump, á kosningafundi í Arizona.
„Við ættum að spenna öryggisbeltin og setja öryggishjálma á okkur. Við ættum að fara í brynju guðs og kannski vopnast með Glock (hálfsjálfvirk skammbyssa, innsk. blaðamanns) í öryggisskyni,“ sagði hún þegar hún ávarpaði fundargesti og bætti við: „Svona getum við bjargað landinu okkar.“ NBC News skýrir frá þessu.
Fundargestir fögnuðu þessum ummælum hennar mjög og var hávaðinn slíkur að hún varð að gera hlé á máli sínu.
Lake, sem er fyrrum sjónvarpskona, hefur stundum verið kölluð „Trump á háum hælum“ og hefur verið nefnd til sögunnar sem hugsanlegt varaforsetaefni hans fyrir forsetakosningarnar í nóvember.
Hún dró ekki af sér við að lofsama Trump á fundinum í gær og sagði hann meðal annars vera „frábæran mann“ sem hafi helgað Bandaríkjunum líf sitt.
Lake starfaði hjá sjónvarpsstöðinni KSAZ-tv í rúmlega 20 ár en stöðin er í eigu Fox.
Hún skellti sér síðan í stjórnmál og er meðal þeirra sem taka undir síendurteknar lygar Trump um að rangt hafi verið haft við í forsetakosningunum 2020.
Hún sóttist eftir embætti ríkisstjóra í Arizona 2022 og útlitið var lengi vel bjart miðað við skoðanakannanir því hún var með gott forskot á Katie Hobbs, frambjóðanda Demókrata. En Lake tapaði og nú sækist hún eftir þingsæti á ríkisþinginu í Arizona.