Joseph Stiglitz nóbelsverðlaunahafi í hagfræði benti á hið augljósa í viðtali í Ríkissjónvarpinu í vikunni. Viðbrögð fjármálaráðherra gefa til kynna að hér á landi virki orð Stiglitz álíka vel og þegar vatni er skvett á gæs. Ráðherrann ætlar að binda trúss sitt við hagfræðinga sem reynslan hefur sýnt að eru fastir í nítjándu aldar kreddum sem ekki eiga við í dag.
Stýrivextir Seðlabanka Íslands eru 9,25 prósent og hafa verið um nokkurra mánaða skeið. Vandfundnir eru hærri vextir annars staðar á byggðu bóli. Þeir finnast jú, en kannski ekki í löndum sem við viljum bera okkar saman við. Það er einna helst í löndum sem kljást við miklar hörmungar á við styrjaldir eða fullkomna óstjórn óhæfra stjórnvalda um ára- eða jafnvel áratugaskeið. Vextir eru t.d. hærri í Tyrklandi, Rússlandi og Úkraínu. Vextir á Íslandi eru á pari við Belarus, sem seint verður tekið sem dæmi um góða hag- eða peningastjórn. Almennt eru vextir innan Evrópu um 4,5 prósent
Miðað við síðustu verðbólgumælingu Hagstofunnar er ársverðbólgan á Íslandi nú 6,6 prósent. Meðaltalsverðbólgan á evru svæðinu er 2,9 prósent, 3,4 prósent innan ESB og innan EES er hún 3,5 prósent. Af þessu má glögglega sjá að baráttan við verðbólgu hefur mistekist hér á landi í samanburði við flest önnur Evrópulönd, jafnvel þótt vextir hér séu tvöfaldir á við það sem tíðkast annars staðar í Evrópu – eða er það ef til vill einmitt vegna þess hve vextir eru háir hér á landi að við búum við tvöfalda verðbólgu á við þau lönd sem við kjósum að bera okkur saman við?
Seðlabankinn fyrstur og hreykir sér af því
Seðlabanki Íslands var fyrsti seðlabankinn í okkar heimshluta sem hækkaði vexti eftir að mesti broddurinn var úr Covid. Seðlabankastjóri og fleiri hafa talið það bankanum til tekna að hafa brugðist skjótar við en aðrir. Víst er að þegar kemur að baráttu við verðbólgu Hafa stjórnvöld svo sannarlega látið sitt eftir liggja. Mikill slaki hefur verið í ríkisfjármálunum og Seðlabankinn hefur metið stöðuna svo að honum sé nauðugur einn sá kostur að hækka vexti mikið og grimmilega. Nítjándu aldar hagfræðin segir jú að vextirnir séu tækið sem nota skuli í baráttu við verðbólguna – ekki síst þegar ríkisfjármálin ganga í öfuga átt.
Reynt hefur verið að halda því fram að ástæða þess að verðbólga hér sé meiri en í nágrannalöndunum sé sú að miklu meiri kraftur sé í efnahagslífinu hér á landi en í t.d. öðrum löndum OECD, hér sé rífandi hagvöxtur á sama tíma og stöðnun ríki í mörgum öðrum löndum. Í raun þýði þetta að ið Íslendingar séum öfundsverðir. Við nánari skoðun kemur hins vegar í ljós að hagvöxtur hér á landi er með því allra minnsta sem þekkist innan OECD, þegar honum er deilt niður á hvern einstakling, sem er vitaskuld eina rétta mælingin. Það að landsframleiðsla aukist vegna fólksfjölgunar er ekki eitt og sér merki um uppgang í atvinnulífinu og hagkerfinu.
Barist við hvaða hagvöxt?
Raunar er margt sem bendir til þess að landsframleiðsla á mann hafi dregist saman en ekki aukist. Vekur það upp áleitnar spurningar um það hvað Seðlabanka Íslands hafi gengið til með fjórtán vaxtahækkunum í röð, sem nú hafa leitt til þess að raunvextir hér á landi eru hærri en nokkurs staðar annars staðar innan EES. Raunvextirnir eru hátt í þrjú prósent, sem þykir himinhátt í öllum alþjóðlegum samanburði.
Afleiðingarnar hafa ekki látið á sér standa. Heimili landsins eru mörg hver á vonarvöl. Nýgengnir kjarasamningar Breiðfylkingarinnar og Samtaka atvinnulífsins gang út á það öðru fremur að ná niður verðbólgunni, sem Seðlabankanum hefur hingað til ekki tekist sem skyldi með hávaxtastefnu sinni, beinlínis til þess að Seðlabankinn lækki vexti. Svimandi háir raunvextir benda raunar til þess að Seðlabankinn skuldi heimilum og atvinnulífi skýringar á því hvers vegna hann hefur ekki þegar hafið vaxtalækkunarferli sitt.
Stiglitz hittir naglann á höfuðið
Í vikunni var mjög áhugavert viðtal við Joseph Stiglitz, nóbelsverðlaunahafa í hagfræði í Ríkissjónvarpinu. Stiglitz segir Seðlabanka heimsins hafa gert stórkostleg mistök með vaxtahækkunum sínum undanfarin misseri. Hann benti réttilega á að verðbólgan í heiminum í kjölfar Covid á rætur sínar að rekja til orkuskorts og ónógs framboðs af húsnæði. Vaxtahækkanir leiða ekki til meiri orkuframleiðslu og þær auka heldur ekki framboð af húsnæði. Þvert á móti. Aukin orkuframleiðsla og húsnæðisframkvæmdir kalla á mikla fjárfestingu og vaxtahækkanir draga úr fjárfestingu en ýta ekki undir hana. Þannig hafa vaxtahækkanir seðlabanka heimsins stuðlað að aukinni verðbólgu en ekki slegið á hana.
Hér á Íslandi hefur húsnæðisliður vísitölu neysluverðs verið sá þáttur sem Seðlabankinn hefur beitt vaxtavopninu helst gegn. Greiðslubyrði af óverðtryggðu láni hefur meira en tvöfaldast frá því bankinn hóf að hækka vexti en samt er lítið lát á verðbólgunni. Skýringarnar eru nokkrar. Ein þeirra er sú að vextir Seðlabankans hafa bein áhrif á húsnæðislið vísitölunnar þannig að vaxtahækkanirnar síðustu tæp þrjú árin hafa beinlínis valdið hækkun vísitölunnar en ekki slegið á hana.
Vaxtahækkanir geta líka valdið verðbólgu
Þá er fjármagnskostnaður stór þáttur í byggingarkostnaði, sem aftur veldur hækkunum húsnæðisverðs. Ekki má gleyma því að vextirnir eru stór kostnaðarliður í rekstri flestra fyrirtækja, hvort sem um er að ræða framleiðslufyrirtæki, verslunina eða þjónustu. Mikill fjármagnskostnaður veldur því verðhækkunum á vöru og þjónustu, auk þess sem aukin greiðslubyrði af lánum og verðbólga ýtir undir launakröfur verkalýðshreyfingarinnar að öllu jöfnu. Mjög jákvætt verður að teljast að samningar hafi tekist á vinnumarkaði sem snúa að því að lækka verðbólgu og vexti fremur en hækka laun, en tæpast var það úthugsuð pæling peningastefnunefndar Seðlabankans með gríðarlegum vaxtahækkunum síðustu misserin.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir sagði aðspurð á Alþingi í gær Orð Stiglitz að vaxtahækkanir væru viðurkennd aðferð til að ráða niðurlögum verðbólgu og gaf lítið fyrir þá skoðun Stiglitz að vaxtahækkanir seðlabanka eftir Covid ýttu undir verðbólgu og sagði þetta minnihlutaskoðun innan hagfræðinnar.
Gætum eins notað gervigreind og sparað helling
Sá er einmitt munurinn á Stiglitz og mörgum öðrum hagfræðingum að hann festir sig ekki og flækir í kenningum sem upprunnar eru á nítjándu öld og jafnvel fyrr í einhverjum tilfellum. Hagfræðingum hættir mörgum til að vera með dráttarklársblöðkurnar klárar og reyna ekki að sjá neitt út fyrir teoríuna. Í raun má segja að mjög margir hagfræðingar dagsins í dag séu óþarfir og skili litlu, ef nokkru, umfram það sem gervigreindarforrit með sæmilegan örgjörva að baki spýtir út úr sér.
Hagfræðingar sem ekki hafa getu til að hugsa sjálfstætt og nota þekkingu sína og reynslu til að draga ályktanir sem byggja á dómgreind eru í raun ekkert annað en gervigreindarforrit. Sé ætlunin að fylgja nítjándu aldar teoríu út í hörgul við peningastjórn væri eðlilegra að hagnýta gervigreindina og spara fjármuni með því að segja upp hátt launuðum hagfræðingum í seðlabönkum og háskólum um víða veröld.