Staksteinar Morgunblaðsins rýna rýna í tölur Hagstofunnar um tekjur fjölmiðla. Voru þær að mestu óbreyttar á milli áranna 2021 og 2022 og námu samtals um 29 milljörðum króna.
Staksteinar segja að á sama tímabili og einkareknir fjölmiðlar hafa barist í bökkum hafi tekjur RÚV aukist um tæplega tvo milljarða:
„Það er skemmst frá því að segja að á meðan aðrir fjölmiðlar þurfa að hafa töluvert fyrir lífinu, og fyrir suma dugði það ekki til, þá hefur Ríkisútvarpið blómstrað. Tekjur einkarekinna miðla drógust saman frá árinu 2016 til 2022, en á sama tíma jukust tekjur Rúv. um nær tvo milljarða króna. Hlutdeild þess í heildartekjum fjölmiðla hefur á öldinni aldrei verið meiri en árið 2022, nema líklega í fyrra, en Hagstofan er ekki komin með þær tölur.“
Ennfremur bendir Staksteinahöfundur á að RÚV hafi tekið til sín 26% af heildartekjum (auglýsingafé og áskriftir) á fjölmiðlamarkaði árið 2022 en árið 2016 var hlutfallið 21%. Þróunin sé sláandi en á sama tíma hafi starfsmenn RÚV og stjórnmálamenn sífelldar áhyggjur af því að RÚV skorti fé.
„Væri ekki í lagi að segja stofnuninni að hagræða ef ört vaxandi tekjurnar duga ekki?“ eru lokaorð pistilsins.