Löður bílaþvottastöð og Parka Lausnir ehf. hafa í samstarfi þróað nýja þjónustu. Í fyrsta sinn á Íslandi býðst viðskiptavinum Löðurs og Parka að gerast áskrifendur á bílaþvotti og sjálfvirkum aðgangi í ótakmörkuðu magni.
Í fréttatilkynningu frá fyrirtækjunum kemur fram að neð áskriftinni býðst viðskiptavinum ótakmarkaður bílaþvottur fyrir fast mánaðarlegt gjald. Hægt er að velja um tvenns konar áskriftarleið á völdum þvottastöðvum, annarsvegar áskrift á snertilausar stöðvar á kr. 6.900 og hinsvegar snertilausar og svampburstastöðvar á kr. 9.900. Hægt er að virkja áskriftarleiðina í appi hjá Löðri eða Parka og þá virkjast sjálfvirkur bílanúmeralestur sem gerir viðskiptavinum kleift að renna bílnum í gegn án fyrirhafnar. Það er einnig hægt að virkja “Keyrt og
kvitt” í Parka appinu og þá geta viðskiptavinir nýtt sér sjálfvirka aðgangsstýringu og greitt fyrir skiptið.
„Samstarfið við Parka hefur gengið vel enda rýma áherslur fyrirtækjanna vel saman, að þjónusta bíleigendur sem best og með einföldum hætti. Löður sem er í eigu Orkunnar á sér yfir 20 ára sögu í bílaþvotti og býður upp á umhverfisvænni bílaþvott, það er því jákvætt skref að bjóða upp á þjónustuna í áskrift. Löður starfrækir 14 stöðvar á landinu en átta þeirra bjóða upp á áskriftarleiðina en hún verður í boði á öllum Löðurstöðvum fyrir mitt árið“ segir Auður Daníelsdóttir, forstjóri Orkunnar.
Löður leggur áherslu á sameiginlega ábyrgð allra á nánasta umhverfi en með olíu- og sandskiljum á þvottastöðvum hindrar þvottastöðin að olía eða olíumengað vatn, sandur og önnur spilliefni berist út í umhverfið. Parka hefur sérhæft sig í sjálfvirkum lausnum með notkun myndgreiningar og sjálfvirkum bílanúmeralestri.
“Samstarfið við Löður fellur vel að stefnu Parka, en Parka Appið er eitt útbreiddasta appið á Íslandi sem þjónar bíleigendum og fólki á ferðinni um landið. Því er það ánægjuleg viðbót að geta boðið notendum Parka appsins upp á sjálfvirkt aðgengi að bílaþvottastöðvum Löðurs á þennan hátt, er haft eftir Ægi Finnssyni og Þorsteini Guðjónssyni, stjórnendum Parka Lausna ehf., í fréttatilkynningunni.