Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag og hefur eftir Guðmundi að enn séu tvö ár í reglulegar þingkosningar og því sé of snemmt að fara að lýsa yfir framboði, en hins vegar sé hann reiðubúinn í öll þau verk sem flokkurinn felur honum.
„Ef það þýðir að ég fari í framboð, þá geri ég það. Ég legg jafnaðarstefnunni allt það lið sem ég get,“ sagði Guðmundur.
Hann hefur boðið sig sex sinnum fram til Alþingis og hefur því mikla reynslu af kosningum.
Hann sagðist vilja styrkja formann flokksins og flokkinn. „Og ef það kallar á framboð, þá fer ég í það. Ég hef gert það áður og geri það aftur ef því er að skipta. Þetta er þó engin framboðsyfirlýsing, enda allt of snemmt að lýsa slíku yfir, en ég segi það einfaldlega að ég er varaformaður flokksins og legg mig þar allan fram. Ef það kallar á framboð til þings, þá verð ég með í því,“ sagði hann.