Ísland þarf að taka sig á í baráttunni gegn mansali og til að halda betur utan um þolendur þess. Þetta er niðurstaðan í þriðju úttektarskýrslu GRETA, eftirlitsnefnd Evrópuráðsins með samningi um aðgerðir gegn mansali. GRETA telur það áhyggjuefni hversu takmörkuðum árangri ísland hefur náð frá seinustu úttekt, einkum hvað varðar vinnumansal. Enn skorti formlegar verklagsreglur og skilgreina þarf verklag og hlutverk framlínuaðila sem gætu komist í snertingu við þolendur mansals.
Eins eru alvarlegar athugasemdir gerðar hvað varðar baráttuna gegn mansali barna. Barnavernd á Íslandi sé undir miklu vinnuálagi og starfsfólk hefur ekki hlotið viðeigandi þjálfun til að takast á við barnunga þolendur mansals og ekki séu fullnægjandi kerfi fyrir hendi til að bera kennsl á þolendur.
Fram kemur í skýrslunni að að á árunum 2019-2022 hafi lögreglan á Íslandi í 71 tilviki rannsakað mál þar sem grunur lék á að um mansal væri að ræða. Mál þessi vörðuðu 73 meinta þolendur sem allir voru að erlendum uppruna. Af þessum málum vörðuðu 25 grun um vinnumansal, 19 grun um kynferðislega misnotkun, 3 nauðungarhjónabönd og í öðrum málum var misnotkun þolenda ekki nánar skilgreind. Af grunuðum þolendum voru 38 prósent konur og 11 prósent börn. Aðeins ein rannsókn leiddi til útgáfu ákæru, en sakborningur var sýknaður við áfrýjun.
Samkvæmt upplýsingum sem GRETA aflaði frá Bjarkarhlíð var 25 þolendum mansals veittur stuðningur á árunum 2020-2022. Öll voru þau af erlendum uppruna og meirihluti þeirra hafði mátt þola vinnumansal, en 5 þeirra kynferðislega misnotkun og þrjú aðra misnotkun.
Lögregla hafi eins fengið á borð til sín mál er vörðuðu rúmensk börn sem grunur lék á að hefðu verið þvinguð út í vændi. í einu tilfelli höfðu heilbrigðisstarfsmenn samband við barnavernd eftir að 15 ára rúmensk stúlka fæddi barn á sjúkrahúsinu. Hún var í sambúð með karlmanni er sjö árum eldri og var talið að fjölskyldan sem flutti stúlkuna til Íslands væri að gera hana út í vændi. Stúlkunni var komið í tímabundið fóstur í tvo mánuði en þar sem ekki tókst að sannreyna að hér væri um mansal að ræða var stúlkan send aftur til sambýlismannsins.
Samkvæmt GRETA eru flestar þær konur sem stunda vændi á Íslandi frá Nígeríu, en í skýrslunni segir að nígerísk glæpasamtök hafi verið til rannsóknar fyrir mansal, vændi og fíkniefnasmygl. Eins hafi komið upp mál sem varða kynferðislega misnotkun kvenna af erlendum uppruna í tengslum við kampavínsklúbba, hótelrekstur og í fasteignum í einkaeign. Lögregla eigi erfitt með að rannsaka þessi mál þar sem þolendur dvelja á Íslandi í skamman tíma og eins sé takmarkaður mannskapur til að sinna þessum málum. Eins hafi komið upp fíkniefnamál þar sem stúlkur og drengir hafi verið notuð sem burðardýr, þar sem lögreglu grunaði að umrædd börn væru þolendur mansals.
Lögreglan á Íslandi sagði í svörum til GRETA að mál er varða grun um mansal séu erfið þar sem þolendur séu gjarnan tregir til að tjá sig. Þolendur vændis vilja helst snúa aftur til síns heimalands á meðan þolendur vinnumansals vilja helst komast aftur í vinnu. GRETA tekur fram að það sé gífurlega ósanngjarnt að setja þann þrýsting á þolendur að öll rannsóknin grundvallist á þeirra framburði. Hér sé um að ræða fólk sem sé undir gríðarlegu álagi, í viðkvæmri stöðu og mögulega með áfallastreitu. Lögregla ætti því að beita öðrum rannsóknaraðferðum til að safna eins mikið af sönnunargögnum og hægt er, en sem stendur beiti lögreglan slíkum úrræðum aðeins í alvarlegustu tilfellunum.
Sérstakur hópur sé starfræktur innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem rannsaki mansal. GRETA taldi hópinn samanstanda af þremur lögreglumönnum en í svörum íslenska ríkisins kom þó fram að sem stendur sé starfsmaðurinn aðeins einn.
Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, hefur boðað aðgerðir til að bregðast við athugasemdum GRETA. Hér sé um að ræða verkefni sem kalli á samvinnu við önnur ráðuneyti, og mun vinnu vera hrundið af stað við nýja aðgerðaráætlun til að mæta athugasemdum.