fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Eyjan

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skrifar: Val á gjaldmiðli er lífskjaramál

Eyjan
Mánudaginn 23. október 2023 15:12

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nýlega talaði ég við mann sem keypti sína fyrstu íbúð fyrir tveimur árum. Afborganir af íbúðinni urðu hærri en það sem fjölskyldan gat ráðið við þegar vextir tóku að rjúka upp. Hann og konan hans hafa nú fært sig yfir í verðtryggt lán þar sem vextirnir voru einfaldlega of háir til að hægt væri að standa óveðrið af sér. Þau sjá nú verðbólguna leggjast ofan á höfuðstól lánsins og sparnað þeirra fuðra upp. Tugþúsundir Íslendinga finna þessu fyrir ástandi. Stýrivextir á Íslandi eru að nálgast rússneskt vaxtastig og tímabil hárra vaxta verður langt.

Millistéttin er skilin eftir

Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar geymir því miður engin svör fyrir þetta fólk. Millistéttin er einfaldlega skilin eftir. Viðreisn mun aftur í ár leggja fram tillögur til að styðja við þennan hóp. Tillögur um vaxtabætur, húsnæðisbætur og barnabætur til að verja barnafjölskyldur og fyrstu kaupendur. Staða fólks til að mæta ævintýralegum vaxtahækkunum er hvorki jöfn um tekjur né um á hvaða æviskeiði fólk er statt. Fyrstu kaupendur og barnafjölskyldur eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu, fólk sem er með tiltölulega nýleg lán á sama tíma og útgjöld heimilis eru hlutfallslega mikil.

Tækifærin til að gera betur fyrir Ísland blasa við. Það á ekki að þurfa að vera áhættufjárfesting að reyna að eignast heimili. Meira segja þegar hér var svokallað lágvaxtaskeið voru vextir á Íslandi samt umtalsvert hærri en í löndum sem við viljum bera okkur saman við. Þetta ástand núna er þess vegna ekki tímabundið heldur bara óvenju slæmt. Fólk er langþreytt á óstöðugleikanum.

Í dag er ein stærsta lífskjaraspurning fólksins í landinu hvers vegna þarf margfalt hærri vexti til að kæla verðbólgu á Íslandi en annars staðar. Það er verkefni stjórnmálanna að rýna hlutverk krónunnar í því sambandi. Þeir flokkar sem verja nú óbreytt ástand verða að svara hvers vegna almenningur á að taka á sig kostnaðinn af margfalt meiri vaxtahækkunum sem alltaf fylgja krónunni.

Leynist svarið kannski í Færeyjum?

Þau sem halda því fram að íslenskur veruleiki þoli ekki stöðugan gjaldmiðil þurfa að svara því hvað það er hjá frændum okkar í Færeyjum sem gerir að verkum að almenningur er í góðri sambúð við danska krónu sem er tengd við evru. Í Færeyjum er mikill hagvöxtur, sjávarútvegur er undirstöðuatvinnugrein, ferðaþjónustan er vaxandi, íbúum hefur fjölgað umfram íbúðauppbyggingu; allt eins og á Íslandi. Vaxtakjörin þar eru hins vegar langtum betri. Sambúðin við evru hentar Færeyjum ljómandi vel.

Krónuvandinn er endurtekin saga

Krónuvandinn verður ekki leystur í þessu óveðri og þess vegna er krafa um að stjórnvöld dragi úr skaðanum með framlögum í vaxtabætur og húsnæðisbætur. Það er endurtekin saga. Þess vegna verður að horfa lengra fram í tímann en bara næsta korter. Forysta snýst um meira en að bregðast bara við. Við verðum að hafa metnað til að hugsa lengra en bara til næstu kosningabaráttu. Að halda úti örmynt kostar almenning núna ævintýralegar upphæðir og þetta val á gjaldmiðli speglar pólitískt hagsmunamat.

Hvar er klofningurinn?

Það er pólitísk ákvörðun að halda sig við krónuna. Nú heyrist að ekki sé hægt að ræða gjaldmiðilinn og Evrópumál vegna þess að sú umræða kljúfi þjóðina. Það sé ekki hægt að ræða krónuna þegar staðan er erfið í efnahagsmálunum. En staðan er erfið hjá heimilunum ekki síst vegna krónunnar. Staðan í heilbrigðismálum er líka erfið vegna þess að íslenskur ríkissjóður er að sprengja sig á vaxtakostnaði alveg eins og heimilin. Auðvitað hefur 110 milljarða vaxtakostnaður ríkisins á ári áhrif á getu stjórnvalda til að fjárfesta í heilbrigðisþjónustu og innviðum. Fjárfesting í heilbrigðisþjónustu er ekki nægileg m.a. vegna þess að vaxtakostnaður er svo hár útgjaldapóstur. Það er þetta sem þarf að ræða og þess vegna gengur ekki upp í umræðu um fjárlög og stöðu ríkisins að ræða ekki kostnað ríkisins af skuldum.

Það sem Viðreisn boðar er ekki annað en að þjóðin fái sjálf að kjósa um það hvort halda eigi áfram viðræðum við Evrópusambandið. Viðreisn vill að þjóðin fái að taka þá ákvörðun sjálf og fái svo sjálf að taka lokaákvörðun í málinu. Meirihluti er fyrir atkvæðagreiðslu hjá stuðningsmönnum allra flokka nema hjá kjósendum Sjálfstæðisflokks og Miðflokks. Er það virkilega svo að þjóðin sé klofin um það hvort þjóðin fái að kjósa um grundvallarmál? Kjósendur allra annarra flokka en Sjálfstæðisflokks og Miðflokks – meirihluti þjóðarinnar – vilja að þjóðin fái sjálf að vega og meta kosti og galla. Að veita þjóðinni þennan rétt mun dýpka umræðuna, draga fram kosti og galla og pólitískar áherslur flokka. Það er í eðli stjórnmála að takast á við hugmyndir og lausnir og það er nýtt að heyra flokka tala um að þeir geti ekki rætt önnur mál en þau sem allir eru sammála um. Sér í lagi flokka sem boða nú miklar skattahækkanir á almenning sem sannarlega verður ágreiningur um.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast