Gustað hefur um stjórnarflokkana að undanförnu, ekki síst eftir að Bjarni Benediktsson tilkynnti afsögn sína sem fjármálaráðherra í vikunni. Fleiri ljón eru í veginum hjá ríkisstjórninni en starfshópar stjórnarflokkanna, þar sem eiga sæti þingflokksformenn og aðstoðarmenn ráðherra, hafa rætt sín á milli um fleiri áherslumál, til dæmis útlendingamál, orkumál og efnahagsmál.
Óvíst er hver tekur við af Bjarna í fjármálaráðuneytinu en Morgunblaðið kveðst hafa rætt við fulltrúa þingflokks Sjálfstæðisflokksins þar sem flestir eru þeirrar skoðunar að Bjarni hafi stólaskipti við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur. Bjarni fari í utanríkisráðuneytið og Þórdís taki við fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
Samkvæmt Morgunblaðinu eru þó ekki allir á því að best fari á því. Ljóst er að meiri hræringar yrðu nauðsynlegar ef Bjarni hyrfi frá ráðherradómi og myndi það kalla á uppstokkun ráðuneyta. Framsókn og Sjálfstæðisflokkur eru sögð fylgjandi því að matvælaráðuneytið hverfi frá VG enda gremja yfir framgöngu Svandísar Svavarsdóttur. Svandís myndi þó að líkindum fá annan ráðherrastól sem aftur myndi kalla á frekari hræringar og uppstokkun ráðuneyta.
Ríkisráðsfundur er fyrirhugaður á Bessastöðum á morgun þar sem endurskipan ráðherraembætta verður að líkindum staðfest.