Á upplýsingaröld komu fram skýrar hugmyndir um hvernig hindra mætti misbeitingu ríkisvalds og tryggja réttindi borgaranna. Þetta yrði gert með skýrri afmörkun valdþátta, þar sem vald tempraði vald, og setningu ritaðra stjórnarskráa sem yrðu öðrum lögum æðri og gætu staðist stundarátök stjórnmálanna. Þessar hugmyndir hafa með tíð og tíma komist til framkvæmda á Vesturlöndum og sannað gildi sitt enda víðast hvar tekist að viðhalda lýðræðislegum stjórnarháttum til langframa sem má heita einstakt sé litið til mannkynssögunnar.
Höfuðþáttur í þessu efni er kenning Charles de Montesquieu um þrískiptingu ríkisvalds sem birtist í riti hans Anda laganna eða De l’esprit des lois. Rétt er þó að hafa hugfast að aðgreining valdþátta er ekki markmið í sjálfu sér heldur leið til að afstýra því að vald safnist á of fáar hendur, enda vitum við sem er að vald spillir og gerræðisvald gerspillir. Reynslan kennir að með skýrum skilum milli valdþátta og valdtemprun má tryggja viðgang lýðræðislegra og vandaðra stjórnarhátta en við slíkt stjórnarfyrirkomulag eru einnig margfalt meiri líkur á að réttindi borgaranna verði virt en ella.
Undanfarin ár hafa sést allnokkur merki þess hér á landi að vegið sé að þessum grunnhugmyndum vestrænnar stjórnskipunar. Æ oftar hendir að ráðamenn virði ekki mörk valdþátta og afleiðingar þess í sumum tilfellum orðið stórháskalegar.
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komst að þeirri niðurstöðu í málum nr. 138–141 árið 2018 að hafna veitingu starfsleyfis til laxeldis í sjókvíum á Vestfjörðum. Umhverfisstofnun hafði í umsögn bent á mikil neikvæð áhrif viðkomandi laxeldis vegna uppsöfnunar úrgangs á hafsbotni undir eldiskvíum og samkvæmt mati Hafrannsóknarstofnunar væri fullnýtt burðarþol viðkomandi fjarða. Í umsögn Skipulagsstofnunar hafði meðal annars komið fram að úrgangur frá umræddri starfsemi drægi úr súrefni við sjávarbotn sem gæti haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir dýralíf. Þá var „ekki útilokað“ að eldislax slyppi úr kvíum. Allt að einu var starfsleyfi hafnað. Þeirri ákvörðun sneri Alþingi við með setningu laga nr. 108/2018 sem beinlínis voru afturvirk. Í þeim segir að hafi rekstrarleyfi verið fellt út gildi vegna annmarka á leyfisveitingu geti ráðherra samt „gefið út rekstrarleyfi til bráðabirgða“.
Ég held að flestum landsmönnum sé farið að verða ljóst hversu gríðarleg náttúruspjöll eru framin með sjókvíaeldi. Skemmst er að minnast þess að 3500 laxar sluppu úr einni sjókví í Patreksfirði í ágústmánuði síðastliðnum. Þá hafa náttúruverndarsamtök bent á að hvers kyns mengun streymi úr kvíunum, hvort sem um er að ræða skordýraeitur, leifar af fóðri, skítur úr fiskinum, lyf, örplast og þungmálmar af ásætuvörnum af netunum. Að ekki sé minnst á lúsugan eldisfiskinn sem leitar kynþroska í stórum stíl upp íslenskar laxveiðiár. Hér kann að vera í uppsiglingu mesta umhverfisslys Íslandssögunnar — sem að einhverju marki er afleiðing þess að Alþingi kaus að virða að vettugi úrskurði stjórnvalds; löggjafinn tók með öðrum orðum fram fyrir hendur framkvæmdarvaldshafa.
Í ársbyrjun 2011 úrskurðaði Hæstiréttur kosningar til svokallaðs stjórnlagaþings ógildar vegna annmarka á framkvæmd. Sumir þeir ágallar sem um ræddi voru álitnir verulegir eins og að kjörseðlar hefðu verið númeraðir í hlaupandi röð svo auðveldlega mátti rekja þá til einstakra kjósenda og kosningin því ekki leynileg. Þá hefðu pappírsskilrúm ekki uppfyllt ákvæði um lokaðan kjörklefa, engir hlutlausir eftirlits- og umboðsmenn frambjóðenda verið skipaðir og talning ekki farið fram fyrir opnum dyrum.
Meirihluti Alþingis hafði þennan úrskurð Hæstaréttar að engu með því að skipa þá hina sömu og kjörnir höfðu verið ólögmætri kosningu í svonefnt stjórnlagaráð, sbr. þingsályktun nr. 19/139. Með samningu frumvarps til stjórnskipunarlaga blasir við að stjórnlagaráð fór út fyrir umboð sitt eins og kveðið hafði verið á um það í þingsályktunartillögunni.
Afleiðing þessa er sú að stjórnarskrármálin eru enn, rúmum tólf árum síðar, í hörðum hnút og engin leið að ná nokkurri pólitískri samstöðu um breytingar á stjórnarskrá — hvað sem líður veikburða tilraunum forsætisráðherra og kaldhæðnislegt að þessi sami forsætisráðherra sat í ríkisstjórn þegar ákveðið var að skipa til starfa hina ólöglega kjörnu stjórnlagaþingmenn. Ráðherrann sýpur því enn seyðið af misráðnum ákvörðunum sem hann sjálfur átti þátt í að taka.
Dr. Haukur Arnþórsson stjórnmálafræðingur gerði bæði þessi mál, sjókvíaeldið og stjórnlagaráðið, að umtalsefni í rannsókn sinni á starfsháttum Alþingis, en niðurstöður hennar komu út á prenti 2019 og bera nafnið Um Alþingi. Hver kennir kennaranum? Hann sagði þar meðal annars að rökstyðja mætti að hvort tveggja væri
„ekki bara valdníðsla heldur sennilega stjórnarskrárbrot því að í báðum þessum málum er gengið fram hjá valdi annarra valdþátta til þess að taka endanlegar ákvarðanir í málum sem eru á þeirra forræði.“
Í umræddum málum hefði löggjafinn sett fram sértækar reglur sem miðað hafi að því að tiltekin mál fengju tiltekna meðferð — þvert á það sem annars vegar handhafi framkvæmdarvalds og hins vegar dómsvalds hefðu ákveðið.
Það er ekki einungis Alþingi sem tekur fram fyrir hendur annarra valdhafa. Á dögunum kynnti félags- og vinnumarkaðsráðherra breytingar á reglugerð nr. 520/2021 þar sem fjallað er um aðstoð til útlendinga sem synjað hefur verið um þjónustu á grundvelli útlendingalaga. Með umræddri reglugerðarbreytingu gengur ráðherrann gegn markmiðum nýsamþykktra laga nr. 14/2023 sem kveða á um að hafi mönnum verið synjað um hæli hér á landi eigi þeir ekki rétt á upphaldi, enda beri þeim að yfirgefa landið. Nýleg lagasetning Alþingis er þar með alltént að nokkru leyti orðin markleysa.
Dómsmálaráðherra sagði í viðtali við Morgunblaðið í vikunni sem leið að þarna væri annar ráðherra að búa „til úrræði fyrir fólk sem er að brjóta lög“ en fyrir lægi að þeir sem ynnu með stjórnvöldum fengju aðstoð.
Þegar ráðherra, í þessu tilfelli félags- og vinnumarkaðsráðherra, fer með breytingu á reglugerð gegn skýru markmiði nýsettra laga er ekki úr vegi að rifja upp b-lið 9. gr. laga um ráðherraábyrgð nr. 4/1963; en það varðar ráðherra ábyrgð eftir lögunum ef hann veldur því að brotið er gegn lögum með því að framkvæma eða valda því, að framkvæmt sé nokkuð það, sem fer í bága við fyrirmæli laga. Landsdómur dæmir um slík mál en öllum má ljóst vera að hann er óvirkt úrræði. Engri ábyrgð ráðherra verður því komið við annarri en pólitískri. Ráðherrann getur þannig með reglugerð farið á svig við markmið laga sem Alþingi hefur samþykkt.
Mörg önnur dæmi má tína til þessu lík sem sýna hversu brothætt stjórnskipanin er í reynd — hversu auðveldlega ráðamenn geta farið á svig við þrískiptingu ríkisvalds án þess að það hafi nokkrar afleiðingar en skýrt er kveðið á um þrískiptinguna í 2. gr. stjórnarskrár.
Eigi að takast að viðhalda réttarríki og lýðræðislegum, vönduðum stjórnarháttum þurfa handhafar ríkisvalds að halda sig innan sinnar kvíar í stað þess að taka fram fyrir hendur annarra valdhafa.
Við blasir að ráðast þarf í úrbætur á lögum og mögulega líka stjórnarskrá til að tryggja betur aðskilnað valdþátta, ef til vill með stofnun stjórnlagadómstóls. En umfram allt þurfa borgararnir að geta treyst því að alþingismenn, sem unnið hafa drengskaparheit að stjórnarskránni, taki reglur hennar alvarlega.