Flokksráðsfundur Sjálfstæðisflokksins hefur staðið yfir í Valhöll í dag og þar flutti Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, ræðu. Bjarni sagði að stjórnarsamstarfið við VG og Framsóknarflokk væri oft erfitt. RÚV greinir frá.
Bjarni sagði að þó að oft gæfi á bátinn þá myndi Sjálfstæðisflokkurinn ekki gefast upp. Samsteypustjórnir væru flóknar og krefjandi og málamiðlanir væru órjúfanlegur hluti af stjórnarsamstarfi nútímans.
„Við göngum ekki frá hálfkláruðu verki þótt á móti blási,“ sagði Bjarni.
Bjarni sagði að ríkisfjármálin væru að þróast með mun jákvæðari hætti en búist var við. Lág skuldastaða gerði það að verkum að hægt væri að bregðast við og standa með heimilum og fyrirtækjum á erfiðum tímum. Að mati Bjarna er þessi staða efnahagsmála mikilvæg undirstaða lífskjara. Íslenskt atvinnulíf hefur tekið við sér af krafti eftir kórónaveirufaraldurinn. Hann sagði að góður gangur væri á öllum sviðum atvinnulífsins.„Við lítum ekki á veski landsmanna sem opinn tékka líkt og hinir stjórnarflokkarnir,“ sagði Bjarni.
Bjarni ræddi útlendingamál og sagði að ef hælisleitendur fengju neitun við umsókn sinni um vernd þá bæri þeim að virða þá niðurstöðu.
Hann vek síðan að stjórnun höfuðborgarinnar og sagði fjárhag borgarinnar vera í rúst. Gagnrýndi hann jafnframt aðgerðaleysi borgarstjórnarmeirihlutans í skólamálum og samgöngumálum.
Þá lagði Bjarni áherslu á hófsemi í gerð næstu kjarasamninga og mikilvægt sé að launahækkanir verði ekki umfram framleiðnivöxt í landinu. Hið opinbera mætti ekki vera leiðandi í launaþróun í landinu og það væru sameiginlegir hagsmunir allra að friður ríkti á vinnumarkaði.
Bjarni sagði ennfremur að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði sér stóra hlut varðandi græna orku á kjörtímabilinu.