Míla hefur kynnt nýja byltingakennda þjónustu á ljósleiðaratengingum sem býður viðskiptavinum allt að 10x meiri hraða, eins og segir í fréttatilkynningu. Í samstarfi við Mílu mun Vodafone geta boðið viðskiptavinum sínum ljósleiðaratengingar með allt að 10 gígabita á sekúndu á völdum svæðum á höfuðborgarsvæðinu frá og með 1. október 2023 og þann 1. apríl 2024 eiga öll ljósleiðaratengd heimili á höfuðborgarsvæðinu að hafa aðgengi að 10 gígabæta tengingu.
Innleiðing á landsbyggðinni mun svo verða í framhaldinu. Innleiðingin á nýju tækninni krefst þess að skipta þarf um búnað á báðum endum ljósleiðarans og mun Vodafone leiðbeina viðskiptavinum sínum með hvaða búnaður hentar best. „Þetta eru spennandi fréttir fyrir okkar viðskiptavini þar sem notkun á nettengingu heimila er sífellt að aukast með aukinni heimavinnu, streymi á sjónvarpsþjónustum, leikjaspilun og ýmis konar flutningi gagna í rauntíma og fjölgun á tengdum tækjum. Nettenging með 10 gígabita á sekúndu í báðar áttir er tíföldun á þeim hraða sem að þekkist í dag og því spennandi lausn fyrir kröfuharða netnotendur. Vodafone hvetur viðskiptavini til að hafa samband í gegnum heimasíðu Vodafone ef þeir vilja kynna sér betur þessa nýju þjónustu og skoða hvort þeirra heimili geti fengið enn hraðari nettengingu en áður,“ segir Sesselía Birgisdóttir, framkvæmdastjóri Vodafone.