Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri Pfaff, segir Samkeppniseftirlitið hafa komið í veg fyrir það eftir hrun að hægt væri að ná samkomulagi meðal fyrirtækja í smásölu á Íslandi um að stytta opnunartíma til að draga úr kostnaði. Þetta kemur fram í viðtali við Margréti í hlaðvarpsþættinum Markaðinum á Eyjunni sem Ólafur Arnarson hefur umsjón með.
Margrét er mjög fylgjandi því að íslenskar verslanir minnki opnunartíma sinn. Hún segir kostnað vegna lengri opnunartíma leiða til hærra vöruverðs hér á landi en annars væri. Hún hefur ekki áhyggjur af því að styttri opnunartími þýði minni verslun og segir að ef samstaða næðist um skemmri opnunartíma hefði það þau áhrif að verslunin færðist á aðra tíma.
Margrét segist þó hafa skilning á því að opnunartími sé eitt af því sem fyrirtæki noti í samkeppni, rétt eins og verð, þjónusta og gæði.
„Verslunin sem atvinnugrein er í samkeppni um gott fólk og ef við erum að bjóða okkar fólki upp á að vinna miklu meira en allar aðrar atvinnugreinar þá verðum við bara undir í því að fá til okkar gott fólk,“ segir Margrét. „Ef við ætlum að vera með gott fólk verðum við að bjóða upp á fjölskylduvænan afgreiðslutíma.“