fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Eyjan

Ráðherrar og þingmenn moka inn vildarpunktum á kostnað ríkisins og þurfa ekki að gefa það upp sem hlunnindi

Eyjan
Miðvikudaginn 5. júlí 2023 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, lagði fram fyrirspurn á Alþingi um vildarpunkta ráðherra og þingmanna, en um er að ræða vildarpunkta sem hægt er að safna sér upp hjá Icelandair. Þegar flugmiði er pantaður er kaupanda boðið að skrá vildarpunktasöfnun vegna kaupanna á sig og má ætla að þegar þingmenn og ráðherrar geri slíkt þá geti þeir valið að fá vildarpunkta á sitt eigið nafn þó svo að fargjaldið greiðist sjálft úr ríkissjóð. Ljóst er að ferðalög eru sérstaklega tíð meðal ráðherra og gætu þeir því lúrt á veglegri summu af vildarpunktum sem jafnvel dugi til að standa straum af flestum þeirra persónulegu ferðalögum.

Björn Leví spurði hvort að vildarpunktar, sem þingmenn og ráðherrar geti skráð sig fyrir persónulega vegna flugferða sem greiddar eru af hinu opinbera, teljist sem hlunnindi og ef svo væri hvernig gera bæri grein fyrir þeim hlunnindum. Svarið var eftirfarandi:

„Í reglum um greiðslur ferðakostnaðar vegna ferðalaga á vegum ríkisins frá árinu 2020 kemur fram að fríðindi og hvers kyns vildarkjör sem aflað er við greiðslu á farmiða skulu eingöngu koma þeim ríkisaðila sem greiðir farmiðann til góða. Í reglunum er því ekki gert ráð fyrir að ferðalangur njóti hlunninda í tengslum við ferðalög á vegum hins opinbera.

Almennt gildir að hlunnindi í formi söfnunar á vildarpunktum eru ekki sérstaklega tilgreind í skattmati fyrir tekjuárið 2023. Punktasöfnun eða afslættir í gegnum svokölluð tryggðarkerfi, hvort sem er vegna flugferða eða annarra kaupa á vörum eða þjónustu, mynda ekki skattskyldu svo fremi að þeir séu ekki umfram það sem eðlilegt megi telja.“

Lögin skýr, en framkvæmdin ekki

Björn Leví segir tvennt áhugavert við þetta svar. Þar sé annars vegar tekið fram að ekki sé gert ráð fyrir að ferðalangur njóti hlunninda í tengslum við ferðalög á vegum hins opinbera. Annars vegar sé tekið fram að punktasöfnun eða afslættir á borð við vildapunktasöfnun myndi ekki skattskyldu svo lengi sem slíkt sé innan eðlilegra marka.

Lög séu skýr hvað þetta varði. Þar sé kveðið á um að þau gæði og hlunnindi, sem ekki eru í krónum talið, skuli meta til peningaverðs og telja þau til tekna á því verði. Skuli þau metin til tekna á gangverði eða markaðsverði á hverjum tíma nema þau heyri undir sérstakt tekjumat.  Séu hlunnindin látin af hendi gegn greiðslu sem er lægri en skattmatið eða gangverðið skuli telja mismuninn til tekna. Textinn sem Björn vísar til má finna í skattamati ríkisskattstjóra.

Sjálfur hefur Björn ekki talið vildarpunkta fram sem hlunnindi, enda er hann ekki viss um hvernig hann færi að því. En hann hafi þó forðast að nota þessa punkta.

„Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki talið fram þessa vildarpunkta. Ég er ekki alveg viss hvernig ég ætti að fara að því. En vegna þess hef ég líka forðast að nota þessa punkta til að byrja með þannig að allt kemur út á sléttu þegar allt kemur til alls. Ef ég hefði talið punktana fram sem tekjur og svo hefðu þeir úrelst án notkunar þá gæti ég líklega farið fram á leiðréttingu eða eitthvað slíkt? Ég satt best að segja veit það ekki og finn engar leiðbeiningar um hvernig maður á að snúa sér í þessu.
Allavega, ég er búinn að biðja um nánari útskýringar á þessu frá ríkisskattstjóra. Reglurnar virðast vera skýrar en það er óskýrt hvað „eðlilegt megi telja“. Ég finn enga slíka undanþágu í lögum.“

Reglur um vildarpunkta í Svíþjóð en ekki á Íslandi

Árið 2018 vakti það athygli þegar sænskur þingmaður var harðlega gagnrýndur fyrir að hafa notað vildarpunkta hjá flugfélaginu SAS til að greiða fyrir flug fjölskyldu sinnar til Flórída, en á þeim tíma höfðu sænskir fjölmiðlar mikið fjallað um hvernig þingmenn misfóru með almannafé með því að láta þingið greiða útgjöld sem þeir ættu með réttu sjálfir að greiða. Fréttaflutningurinn leiddi til þess að minnst tveir þingmenn hættu afskiptum af stjórnmálum. Sænska þingið var og er með skýrar reglur um notkun punktanna, en árið 2018 var gagnrýnt að ekkert eftirlit væri með því hvort reglunum væri fylgt.

Sjá einnig: Þingmaður braut reglur um notkun vildarpunkta hjá flugfélagi – Greiddi fyrir fjölskyldufrí

Samkvæmt gögnum frá skrifstofu Alþingis fljúga þingmenn Alþingis langmest með Icelandair, eða yfir 60 prósent allra ferða. Forstjóri Play, Birgir Jónsson, sagði í samtali við Vísi í mars að það væri hvati fyrir þingmenn að velja Icelandair fram yfir önnur félög, því þar fengju þeir fríðindi í formi vildarpunkta. Það sé stórmerkilegt að þetta hafi viðgengist hér á landi þetta lengi, og í rauninni grafalvarlegt. Eðlilegra væri að ríkisstofnun fengi sjálf punktanna, en þar með myndi slíkt leiða til sparnaðar í útgjöldum og fela í sér betri nýtingu á skattpeningum Íslendinga.

Samkeppniseftirlitið vakti athygli á stöðunni fyrir um sex árum síðan eftir að hafa borist fjölmargar ábendingar um að opinberir starfsmenn fljúgi helst með Icelandair og líklega séu það vildarpunktarnir sem skýri það.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Brynjar Níelsson: Sjálfstæðisflokkurinn hætti að tala við kjósendur sína sem misstu þolinmæðina gagnvart flokknum

Brynjar Níelsson: Sjálfstæðisflokkurinn hætti að tala við kjósendur sína sem misstu þolinmæðina gagnvart flokknum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þrír nýir stjórnendur hjá Lyfju

Þrír nýir stjórnendur hjá Lyfju
Eyjan
Fyrir 5 dögum

KAPP kaupir bandarískt fyrirtæki í Seattle

KAPP kaupir bandarískt fyrirtæki í Seattle
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ólafur Ágúst Hraundal skrifar: Er Vernd einkarekið fangelsi í dulargervi áfangaheimilis?

Ólafur Ágúst Hraundal skrifar: Er Vernd einkarekið fangelsi í dulargervi áfangaheimilis?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Valdalaus Bjarni Ben veitir leyfi til hvaladráps næstu fimm árin – Ný ríkisstjórn hlýtur að ógilda leyfið

Orðið á götunni: Valdalaus Bjarni Ben veitir leyfi til hvaladráps næstu fimm árin – Ný ríkisstjórn hlýtur að ógilda leyfið
Eyjan
Fyrir 1 viku

Skiptar skoðanir á hver fari í raun frjálslega með sannleikann – „Þetta er ekki boðlegur málflutningur hjá þér“

Skiptar skoðanir á hver fari í raun frjálslega með sannleikann – „Þetta er ekki boðlegur málflutningur hjá þér“