fbpx
Miðvikudagur 30.apríl 2025
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Meðvituð útvíkkun á koki

Eyjan
Laugardaginn 1. júlí 2023 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Enn einu sinni er almenningur á Íslandi minntur á þá sjálfsögðu spillingu sem viðgengst innan viðskiptalífsins. Hún má heita sjálfsögð vegna þess að spillingaröflin telja sér sjálf trú um að þau eigi þetta og megi. Og þar fer saman taumlaus græðgi og eirðarlaus óþreyja sem til samans gera það að verkum að það þarf alltaf stytta sér leið.

Og hún liggur fram hjá lögum og reglum.

Þetta er gömul saga og ný.

Og hrun breytir þar engu.

Prinsippleysið er nefnilega viðvarandi innan viðskiptalífsins á Íslandi. Það er geirneglt í geðslag þeirra sem þar höndla með hæstu upphæðirnar. Íslandsbankasalan er bara enn ein birtingarmynd þessa þar sem starfsmenn bankans selja sjálfum sér bestu bitana.

En það ber enginn ábyrgð á Íslandi þegar til kastanna kemur, nema ef vera kynni alþýða manna sem borgar allt á endanum. Líka umrætt bankarán.

Og einu gildir þótt það sé viðurkennt að stjórnendur og starfsmenn bankans hafi stundað vísvitandi blekkingar, lygar og ítrekuð lögbrot. Það skal samt senda sneiðina út fyrir bankann. Það skal samt draga úr ærlegri afsökun. Og einmitt á sama tíma og það liggur augljóslega fyrir að það var bankinn sem brást. Hann misfór með traustið. Og hann getur engum öðrum en sjálfum sér kennt um að hann stendur nakinn eftir, rúinn orðspori, þótt himinháar launagreiðslur og endalausar aukasporslur til æðstu ráðamanna hans séu einmitt réttlættar með því hvað þeir bera mikla ábyrgð.

En það ber enginn ábyrgð á Íslandi þegar til kastanna kemur, nema ef vera kynni alþýða manna sem borgar allt á endanum. Líka umrætt bankarán.

Og ábyrgðin er aldrei meiri en svo að æðstu stjórnendur hrökklast ekki fyrr frá völdum en nauðvörnin er orðin ámátlega pínleg. Frumkvæði að því að axla sín skinn er íslensku viðskiptalífi ekki í blóð borin – og pólitíkin hér á landi hefur jafnan verið sama marki brennd. Enda hafa tengslin þar á milli verið svo mikil oft og tíðum að ekki má á milli sjá hvor ræður hverju.

En kannski er líka grunnvandinn þessi. Og hann liggur eins og mara á þjóðinni. Henni hefur um margra áratuga skeið verið gert að gútera þá sérhagsmunaáráttu og sérgæsku sem einkennt hefur efsta lagið í valdaklíku samfélagsins. Meðvituð útvíkkun á koki um alla þessa hríð hefur gert það að verkum að stór hópur landsmanna – og kannski stærstur hluti hans – ypptir í besta falli bara öxlum þegar enn ein myndin birtist af sukki og siðleysi innan fjármálageirans þar sem lögin eru sett til þess eins að laga þau að eigin geðþótta. Heila klabbinu er auðveldlega kokgleypt af því að kverkin er orðin svo víð.

Og svo berja brotamennirnir sér á brjóst og segja með stolti að þetta sé íslenska leiðin.

Og hún lokast ekki. Það er af því að það alltaf fyrir hendi peningur til að ryðja burtu sköflum á heiðinni þeirri. Og sú vegagerð viðskiptalífsins var einkavædd fyrir löngu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Réttlæti miskunnsama samherjans

Svarthöfði skrifar: Réttlæti miskunnsama samherjans
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Thomas Möller skrifar: Lærum af Japönum

Thomas Möller skrifar: Lærum af Japönum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvar á Ísland heima í tollastyrjöld?

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvar á Ísland heima í tollastyrjöld?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

María Rut Kristinsdóttir: Er ekki góð stemning?

María Rut Kristinsdóttir: Er ekki góð stemning?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Megas áttræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Megas áttræður
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Svarthöfði skrifar: Flís og bjálki – þar er efinn

Svarthöfði skrifar: Flís og bjálki – þar er efinn
EyjanFastir pennar
30.03.2025

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið og „sósíalismi andskotans“

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið og „sósíalismi andskotans“
EyjanFastir pennar
27.03.2025

Þorsteinn Pálsson skrifar: Boðflennur, fullveldi og fjölþjóðasamvinna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Boðflennur, fullveldi og fjölþjóðasamvinna
EyjanFastir pennar
26.03.2025

Svarthöfði skrifar: Skilningslaus ríkisstjórn – hver á núna að halda uppi húsnæðisverði á Íslandi?

Svarthöfði skrifar: Skilningslaus ríkisstjórn – hver á núna að halda uppi húsnæðisverði á Íslandi?