Finnur Oddsson, forstjóri Haga, segir að dagvöruverslun allt síðasta rekstrarár hafi markast af veikingu gengis krónu og fordæmalausum verðhækkunum frá birgjum.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í ávarpi hans í kjölfar ársfjórðungsuppgjörs Haga sem kynnt var í morgun. Finnur segir að starfsemi Haga á síðasta fjórðungi rekstrarársins 2022/23 hafi gengið vel, sérstaklega þegar horft er til þess að rekstrarumhverfi í smásölu hefur sjaldan verið meira krefjandi.
„Fjórðungurinn, eins og reyndar árið í heild, einkenndist af miklum hækkunum á aðfanga- og vöruverði, sem aftur má rekja til óróa á heimsmarkaði með hrávöru og eldsneyti vegna stríðs í Úkraínu og eftirstöðva Covid faraldurs,“ segir Finnur.
Hann segir að framlegð hafi verið undir þrýstingi og þó hún aukist í krónum talið vegna hærri velti þá hafi framlegðarhlutfall farið lækkandi.
„Með öðrum orðum, þá hefur kostnaðarverðshækkunum ekki verið fleytt af fullum þunga út í vöruverð, sem telja má mikilvægt framlag verslana Haga í baráttu við verðbólgu.“
Finnur segir enn fremur að þegar horft er til þátta í starfsemi félagsins þá sé áfram töluverður vöxtur í sölu á dagvöru, ríflega 11% á fjórðungnum.
„Þessi tekjuaukning skýrist annars vegar af miklum verðhækkunum frá framleiðendum og heildsölum og hins vegar af aukningu í seldu magni og fleiri heimsóknum viðskiptavina, sérstaklega í Bónus,“ segir hann og bætir við að grunngildi Bónus sé að leitast við að bjóða upp á hagkvæmustu matvörukörfu landsins.
„Við það loforð hefur verið staðið í meira en 30 ár og á Bónus stóran þátt í að verðbólga í matvöru á Íslandi er ekki hærri en raun ber vitni, en hún var á síðasta fjórðungi ein sú lægsta í Evrópu og sú lægsta á Norðurlöndunum.“