fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Eyjan

Breiðhyltingar sárir og svekktir: „Stórhættuleg slysagildra“ verður ekki löguð

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 26. apríl 2023 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Breiðhyltingar segja farir sínar ekki sléttar eftir að tillögu Sjálfstæðismanna um úrbætur í Fálkabakka í Breiðholti var hafnað. Tillagan var lögð fram í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur þann 25. janúar síðastliðinn af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins.

Í tillögunni var bent á að bifreiðar og strætisvagnar hefðu ítrekað lent í vandræðum í brekkunni vegna mikillar hálku í vetur.

Þekkt og langvinnt vandamál

„Um er að ræða þekkt og langvinnt vandamál en við slæmar aðstæður getur alvarleg hætta skapast í hálli brekkunni. Lagt er til að málið verði skoðað í samráði við Strætó bs. og viðeigandi úrbætur gerðar. Í því skyni að auka umferðaröryggi verði skoðaður sá kostur að hita upp götuna þar sem brattinn er mestur. Einnig verði skoðað að hafa þá strætisvagna á nagladekkjum, sem aka Fálkabakka í vetrarfærð,“ sagði í tillögunni.

Tillagan var tekin til afgreiðslu á fundi ráðsins þann 19. apríl síðastliðinn eftir að hafa verið frestað síðan í janúar. Skemmst er frá því að segja að hún var felld með fjórum atkvæðum meirihlutans. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði með tillögunni en fulltrúi VG sátu hjá.

Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram bókun vegna málsins þar sem fram kom að fulltrúar flokksins hörmuðu að Samfylking, Framsóknarflokkur, Píratar og Viðreisn kjósi að fella tillögu sem miðar að því að auka umferðaröryggi.

„Um er að ræða þekkt vandamál sem oft hefur verið bent á af strætisvagnastjórum sem og Breiðhyltingum. Við slæmar aðstæður getur alvarleg hætta skapast í hálli brekkunni og gerðist slíkt oftar en einu sinni í janúar síðastliðnum.“

Ekki svo slæmar aðstæður

Í umsögn Guðbjargar Lilju Erlendsdóttur, samgöngustjóra borgarinnar, við tillöguna kom fram að þrátt fyrir að hálka geti myndast í Fálkabakka séu aðstæður þar ekki svo slæmar að leggja ætti sérstaka áherslu á þann stað umfram aðra staði.

„Lögð hefur verið áhersla á, bæði af Strætó og Reykjavíkurborg, að vetrarþjónusta á strætóleiðum sé í forgangi með það að leiðarljósi að Strætó nái að aka sínar leiðir greiðlega og örugglega,“ sagði enn fremur í umsögninni.

Slysagildra sem ekki á að hundsa

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gerði grein fyrir niðurstöðu meirihluta umhverfis- og skipulagsráðs í málinu í íbúahópi Breiðhyltinga á Facebook. Ef marka má athugasemdir þar eru íbúar sárir og svekktir.

„Löngu tímabært að laga þessa brekku. Stórhættuleg slysagildra að vetri til,“ sagði í einni athugasemd.

Í annarri sagði:

„Meirihlutinn í Reykjavík hefur síðustu ár þrengt að einkabílnum m.a. undir þeim formerkjum að auka umferðaröryggi. Hvernig stendur á því að þegar raunverulegur öryggisvandi sem fagmenn hafa bent á er til staðar, að þá ákveður meirihlutinn að skilja Breiðholt eftir?“

Enn annar sagði:

„Leitt að heyra en ekki nýtt að meirihlutinn felli tillögur minnihlutans, stundum á maður ekki orð eins og í þessu tilfelli! Þetta er slysagildra sem á ekki að hundsa, má ekki taka þetta mál upp aftur í haust?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast