„Með þögn og aðgerðaleysi svíkja alþingismenn aldraða um réttmæt lögfest kjör sín,“ segir Sigurður Tómas Garðarsson eftirlaunaþegi í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
Sigurður segir að fyrir skömmu höfum við orðið vitni að miklu sjónarspili á Alþingi og RÚV rofið hefðbundna dagskrá Rásar 2 til að útvarpa beint frá umræðum um vantrauststillögu á Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra.
„Mörgum þingmönnum var heitt í hamsi. Mér varð hugsað til þess daglega brauðs sem t.d. ellilífeyrisþegum er boðið upp á í skjóli laga og reglna, sem hvergi eru skrifuð og aðeins finnast í hugarheimi stjórnsýslunnar. Það væri huggun harmi gegn ef þessir þingmenn legðu sömu alúð í störf sín við geðþóttaskerðingar á útreikningum ellilífeyris hjá Tryggingastofnun og legðu fram vantrauststillögu á þá ráðherra sem ekki fara að lögum um almannatryggingar. Væntanlega myndi RÚV rjúfa hefðbundna dagskrá og útvarpa einnig beint frá þeim umræðum,“ segir hann í grein sinni.
Sigurður bendir á að frítekjumörk hjá ellilífeyrisþegum séu tvenns konar í lögunum.
„Annars vegar almennt frítekjumark, sem er 25 þúsund krónur á mánuði. Engin orðskýring er fyrir almennt frítekjumark í 2. gr. um orðskýringar, en líklega er átt við orðskýringu um fjármagnstekjur. Hins vegar er sérstakt frítekjumark atvinnutekna, sem í dag er 200 þúsund krónur á mánuði. Greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum falla skattalega undir sérstakt frítekjumark atvinnutekna í 9. tölulið orðskýringa um atvinnutekjur. Þær vísa í 1. tölulið A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt og þar með undir hugtakið atvinnutekjur. Hjá stjórnsýslunni (Tryggingastofnun) eru eftirlaun frá skyldubundnum lífeyrissjóðum ranglega látin fylgja almennu frítekjumarki þegar kemur að frítekjumarksheimildum laganna, væntanlega að undirlagi beggja, félags- og fjármálaráðherra. Öflun lífeyrisréttinda er beintengd atvinnu manna og almennt litið svo á að greiðslur vinnuveitanda í lífeyrissjóð launþega séu endurgjald fyrir vinnu, sbr. eftirlaun frá fyrirtækjum, atvinnuleysisbætur og fæðingarorlof, sem Tryggingastofnun reiknar til atvinnutekna.“
Sigurður segir að þótt lög um almannatryggingar skilgreini atvinnutekjur og lífeyrissjóðstekjur á mismunandi hátt í orðskýringum sé ekki þar með sagt að frítekjumark vegna atvinnutekna nái ekki til greiðslna úr skyldubundnum atvinnu atvinnutengdum lífeyrissjóðum.
„Hið sérstaka frítekjumark vegna atvinnutekna er ívilnandi regla borgurunum til hagsbóta. Lífeyrisgreiðslur njóta verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar. Ef þær eru grundvöllur reiknireglu sem leiðir til skerðingar annarra tekna lífeyrisþega þá er eignarréttur lífeyrisþegans skertur. Til þess þarf skýra lagaheimild. Leiki vafi á um hvort tiltekið tilvik rúmist innan reglunnar ætti að leyfa borgurunum að njóta vafans og skýra regluna rúmt. Ef aðeins er horft til skilgreiningar laganna á atvinnutekjum ætti ekki að skerða ellilífeyri vegna greiðslna úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum fyrr en þær, ásamt öðrum atvinnutekjum ellilífeyrisþega, fara yfir 2.400.000 kr. á ári.“
Sigurður segir að það sé ekki að ástæðulausu sem ellilífeyrisþegar treysta ekki alþingismönnum.
„Með þögn og aðgerðaleysi svíkja alþingismenn aldraða um réttmæt lögfest kjör sín. Í dag er varla til sá lífeyrisþegi sem fær greiðslu frá lífeyrissjóði undir 25.000 kr. á mánuði. Í raun sér Tryggingastofnun til þess að enginn ellilífeyrisþegi njóti frítekjumarks fjármagnstekna sinna með því að reikna lífeyrissjóðslaun ellilífeyrisþega sem fjármagnstekjur í stað atvinnutekna, sem er hin lögfesta staða teknanna. Borin von er að Tryggingastofnun, eða stjórnsýslan yfirhöfuð, hafi frumkvæði í að leiðrétta þessa lögleysu. Þar til Alþingi finnur stjórnsýsluna í fjöru bölva ellilífeyrisþegar í hljóði og treysta alþingismönnum illa til góðra verka.“