Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skaut föstum skotum á forsvarsmenn nokkurra verkalýðsfélaga í Facebook-færslu í morgun sem kom illa við kauninn á Vilhjálmi Birgissyni, formanni Starfsgreinasambandsins.
Í færslunni fjallaði Sólveig Anna með kaldhæðnum hætti um forystuhæfileika Vilhjálms og félaga í tilefni af frétt Morgunblaðsins þar sem haft var eftir honum og öðrum að verkfall og verkbann væri einn og sami hluturinn og því gerðu reglugerðir ráð fyrir að vinnudeilusjóðir taki hvort tveggja til þessara atriða.
Áður hafði Sólveig Anna lýst því yfir að Efling ætlaði ekki að greiða starfsfólki úr verkfallssjóði sínum ef því væri gert að sæta launalausu verkbanni af hálfu Samtaka atvinnulífsins.
Sólveig Anna deildi frétt Morgunblaðsins og hæddist greinilega að viðmælendum blaðsins. Sagði hún að „stóru stjórar Starfsgreinasambandsins“ láti nú eins og verkfall og verkbann séu sami hlutinn og bætti ennfremur við:
„Og að af því leiði að auðvitað sé það verkefni Samtaka atvinnulífsins að ráðstafa fjármunum vinnudeilusjóða verkalýðsfélaga landsins eins og þeim lysti. Og að ekkert eigi að standa í vegi fyrir því að Samtök atvinnulífsins rústi möguleikum verkalýðsfélaga til að geta staðið undir verkföllum með því að tæma vinnudeilusjóði vinnuaflsins. Allra síst forysta sjálfra félaganna,“ sagði Sólveig Anna og skaut svo á Vilhjálm og félaga með kaldhæðnum hætti.
„Mikið er verkafólk heppið með þetta einvalalið framsýnna formanna sem skilja hvaða skilaboð er mikilvægt að senda í gegnum Morgunblaðið þegar harðar vinnudeilur standa yfir.“
Vilhjálmur tók skotunum vægast sagt óstinnt upp og svaraði Sólveigu Önnu fullum hálsi.
„Segðu mér Sólveig, hvað gengur þér til með þessum rógburði,“ spurði Vilhjálmur og sagðist aðeins hafa verið að svara spurningum um hvaða rétt félagsmenn hans eiga ef til verkbanns kæmi að hálfu atvinnurekenda.
„Ég svara fjölmiðlum eins og reglugerð vinnudeilusjóðs kveður á um og hefur verið samþykkt á aðalfundi félagsins sem er æðsta vald félagsins,“ segir Vilhjálmur sem vitnar í reglugerð Vinnudeilusjóðs Verkalýðsfélags Akraness þar sem hann er formaður.
Í þeirri reglugerð kemur fram að tilgangur sjóðsins sé að styrkja fullgilda félagsmenn sem standa í verkfalli eða verkbönnum af atvinnurekendum á félagssvæðinu og hljóta af því launatap.
„Ertu virkilega að ætlast til þess að ef ég er spurður um réttindi félagsmanna VLFA ef til verkbanns kæmi á meðal minna félagsmanna að ég segi bara ósatt og það í andstöðu við samþykktir æðsta valds félagsins? Hvað gengur þér eiginlega til? Er ekki nóg að þið hafið reynt að eyðileggja kjarasamningsviðræður sem þið áttuð ekki aðild að með því að leka trúnaðarupplýsingum sem ég trúði ykkur fyrir á lokametrum kjarasamningsviðræðna SGS við SA. Allt til þess að reyna að senda rangar og villandi upplýsingar um innihald þess samnings sem við vorum að gera,“ skrifar Vilhjálmur og áréttar að hann muni ekki svara „virkum í athugasemdum“ í þræðinum.
Vilhjálmi er talsvert niðri fyrir og spyr hvort það hafi ekki líka verið nóg að stjórn Eflingar hafi reynt að hafa neikvæð áhrif á kosningu og kjarasamning Starfsgreinasambandsins með því að senda ályktun, nánast á sömu mínútu og kosning um kjarasamning hófst, og reyna þannig að fá samninginn felldan.
„Þessar stanslausu árásir undir þinni forystu mistókust enda var samningurinn samþykktur með upp undir 90% þeirra sem kusu. Er ekki líka nóg að þið hafið ráðist á SGS með auglýsingaherferð sem hefur kostað milljónir ef ekki tugi milljóna.“
Vilhjálmur segir það hafa verið ákvörðun Eflingar að vilja semja ein og sér og vera ekki í samfloti með öðrum stéttarfélögum. Efling hafi ætlað að semja á eigin forsendum.
„Ég sagði við þig á sínum tíma að ég virði þá niðurstöðu að þið vilduð semja algerlega ein og sér enda liggur frjáls samningsréttur hvers félags hvellskýr fyrir. Sú ákvörðun var og er á ykkar ábyrgð en ég ítreka að 18 aðildarfélög SGS eru búin að semja og leggja þá niðurstöðu í dóm okkar félagsmanna og niðurstaðan var skýr eins og áður hefur komið fram.
Þessar árásir þínar sem byggjast á að ata mig og 18 aðildarfélög SGS auri eru þér til ævarandi skammar,“ segir Vilhjálmur sem biðlar til Sólveigar Önnu að láta aðildarfélög Starfsgreinasambandsins í friði og einblína á að tryggja kjarasamning handa sínum félagsmönnum.