fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Eyjan

Vil­hjálmur fokvondur við Sól­veigu Önnu: „Þér til ævarandi skammar“

Eyjan
Miðvikudaginn 22. febrúar 2023 15:18

Sólveig Anna Jónsdóttir og Vilhjálmur Birgisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skaut föstum skotum á forsvarsmenn nokkurra verkalýðsfélaga í Facebook-færslu í morgun sem kom illa við kauninn á Vilhjálmi Birgissyni, formanni Starfsgreinasambandsins.

Í færslunni fjallaði Sólveig Anna með kaldhæðnum hætti um forystuhæfileika Vilhjálms og félaga í tilefni af frétt Morgunblaðsins þar sem haft var eftir honum og öðrum að verkfall og verkbann væri einn og sami hluturinn og því gerðu reglugerðir ráð fyrir að vinnudeilusjóðir taki hvort tveggja til þessara atriða.

Hæðist að „stóru stjórum Starfs­greina­sam­bandsins“

Áður hafði Sólveig Anna lýst því yfir að Efling ætlaði ekki að greiða starfsfólki úr verkfallssjóði sínum ef því væri gert að sæta launalausu verkbanni af hálfu Samtaka atvinnulífsins.

Sólveig Anna deildi frétt Morgunblaðsins og hæddist greinilega að viðmælendum blaðsins. Sagði hún að „stóru stjórar Starfs­greina­sam­bandsins“ láti nú eins og verk­fall og verk­bann séu sami hlutinn og bætti ennfremur við:

„Og að af því leiði að auð­vitað sé það verk­efni Sam­taka at­vinnu­lífsins að ráð­stafa fjár­munum vinnu­deilu­sjóða verka­lýðs­fé­laga landsins eins og þeim lysti. Og að ekkert eigi að standa í vegi fyrir því að Sam­tök at­vinnu­lífsins rústi mögu­leikum verka­lýðs­fé­laga til að geta staðið undir verk­föllum með því að tæma vinnu­deilu­sjóði vinnu­aflsins. Allra síst for­ysta sjálfra fé­laganna,“ sagði Sól­veig Anna og skaut svo á Vilhjálm og félaga með kaldhæðnum hætti.

„Mikið er verka­fólk heppið með þetta ein­vala­lið fram­sýnna formanna sem skilja hvaða skila­boð er mikil­vægt að senda í gegnum Morgun­blaðið þegar harðar vinnu­deilur standa yfir.“

Fauk í Vilhjálm

Vilhjálmur tók skotunum vægast sagt óstinnt upp og svaraði Sólveigu Önnu fullum hálsi.

„Segðu mér Sól­veig, hvað gengur þér til með þessum róg­burði,“ spurði Vilhjálmur og sagðist aðeins hafa verið að svara spurningum um hvaða rétt félagsmenn hans eiga ef til verkbanns kæmi að hálfu atvinnurekenda.

„Ég svara fjöl­miðlum eins og reglu­gerð vinnu­deilu­sjóðs kveður á um og hefur verið sam­þykkt á aðal­fundi fé­lagsins sem er æðsta vald fé­lagsins,“ segir Vil­hjálmur sem vitnar í reglu­gerð Vinnu­deilu­sjóðs Verka­lýðs­fé­lags Akra­ness þar sem hann er for­maður.

Ólögmæt verkfallsboðun

Í þeirri reglu­gerð kemur fram að til­gangur sjóðsins sé að styrkja full­gilda fé­lags­menn sem standa í verk­falli eða verk­bönnum af at­vinnu­rek­endum á fé­lags­svæðinu og hljóta af því launa­tap.

„Ertu virki­lega að ætlast til þess að ef ég er spurður um réttindi fé­lags­manna VLFA ef til verk­banns kæmi á meðal minna fé­lags­manna að ég segi bara ó­satt og það í and­stöðu við sam­þykktir æðsta valds fé­lagsins? Hvað gengur þér eigin­lega til? Er ekki nóg að þið hafið reynt að eyði­leggja kjara­samnings­við­ræður sem þið áttuð ekki aðild að með því að leka trúnaðar­upp­lýsingum sem ég trúði ykkur fyrir á loka­metrum kjara­samnings­við­ræðna SGS við SA. Allt til þess að reyna að senda rangar og villandi upp­lýsingar um inni­hald þess samnings sem við vorum að gera,“ skrifar Vilhjálmur og áréttar að hann muni ekki svara „virkum í at­huga­semdum“ í þræðinum.

Stanslausar árásir sem kostað hafa milljónir

Vil­hjálmi er talsvert niðri fyrir og spyr hvort það hafi ekki líka verið nóg að stjórn Eflingar hafi reynt að hafa nei­kvæð á­hrif á kosningu og kjara­samning Starfs­greina­sam­bandsins með því að senda á­lyktun, nánast á sömu mínútu og kosning um kjara­samning hófst, og reyna þannig að fá samninginn felldan.

„Þessar stans­lausu á­rásir undir þinni for­ystu mis­tókust enda var samningurinn sam­þykktur með upp undir 90% þeirra sem kusu. Er ekki líka nóg að þið hafið ráðist á SGS með aug­lýsinga­her­ferð sem hefur kostað milljónir ef ekki tugi milljóna.“

Vil­hjálmur segir það hafa verið á­kvörðun Eflingar að vilja semja ein og sér og vera ekki í sam­floti með öðrum stéttar­fé­lögum. Efling hafi ætlað að semja á eigin for­sendum.

„Ég sagði við þig á sínum tíma að ég virði þá niður­stöðu að þið vilduð semja al­ger­lega ein og sér enda liggur frjáls samnings­réttur hvers fé­lags hvellskýr fyrir. Sú á­kvörðun var og er á ykkar á­byrgð en ég í­treka að 18 aðildar­fé­lög SGS eru búin að semja og leggja þá niður­stöðu í dóm okkar fé­lags­manna og niður­staðan var skýr eins og áður hefur komið fram.

Þessar á­rásir þínar sem byggjast á að ata mig og 18 aðildar­fé­lög SGS auri eru þér til ævarandi skammar,“ segir Vil­hjálmur sem biðlar til Sól­veigar Önnu að láta aðildar­fé­lög Starfs­greina­sam­bandsins í friði og ein­blína á að tryggja kjara­samning handa sínum fé­lags­mönnum.

Færsla Sólveigar Önnu

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast