Ríkisendurskoðun hefur birt yfirlit úr ársreikningum kirkjugarða fyrir árið 2021 en þar má finna harða gagnrýni í garð kirkjugarða landsins.
Í skýrslunni segir:
„Skil ársreikninga kirkjugarða hafa farið stigversnandi síðastliðin ár og eru að mati Ríkisendurskoðunar óviðunandi. Skilin voru um 76% vegna rekstrarársins 2020 og um 82% vegna rekstrarársins 2019.“
Í skýrslunni kemur fram að í lok desember á síðast ári hafi Ríkisendurskoðun borist ársreikningar frá 128 kirkjugörðum af 237, vegna ársins 2021 og þar með hafi 54 prósent ársreikninga borist rúmum sex mánuðum eftir eindaga skila.
„Þá bendir Ríkisendurskoðun á að kirkjugarðsgjöld vegna þeirra kirkjugarða sem skiluðu ársreikningi vegna rekstrarársins 2020 námu 998.586.351 kr. en eru í innkomnum ársreikningum fyrir rekstrarárið 2021 samtals 394.932.534 kr. Skýringuna má rekja til þess að lang stærsti kirkjugarður landsins, Kirkjugarðar Reykjavíkur, sem voru með um 60% af kirkjugarðsgjöldum vegna rekstrarársins 2020 hafa ekki skilað ársreikningi fyrir 2021.“
Kirkjugarðsstjórnun er skylt að senda ársreikninga kirkjugarða næstliðins árs til Ríkisendurskoðunar fyrir 1. júní ár hvert.