Stefán Ólafsson, sérfræðingur hjá Eflingu-stéttarfélagi, furðar sig á því að jafnaðarfólk, femínistar og konur landsins standi ekki með Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar. Hann vekur athygli á þessu í pistli sem birtist hjá Vísi í morgun þar sem hann rekur þá meðferð sem Sólveig Anna hefur mátt þola.
Stefán segir að þrátt fyrir marga kosti Sólveigar Önnu þá finni margir að því hvernig hún tali – en hún sé beinskeytt sem sé ekki óheyrt meðal verkalýðsleiðtoga en mögulega sé því tekið með öðrum hætti en áður þar sem Sólveig Anna er kona.
„Margir finna hins vegar að því að Sólveig Anna sé ófáguð í talsmáta og óvenju beinskeytt og stundum hvöss. Í karlaheimi fortíðar hefði sjálfsagt verið sagt um þá sem þannig tjáðu sig að þeir töluðu sjómannamál eða eins og Guðmundur Jaki – og naut það gjarnan virðingar. En beinskeyttur og gagnrýninn talsmáti Sólveigar Önnu er stundum notaður sem átylla til að telja hana ekki húsum hæfa. Þetta er notað gegn henni og sennilega meira en ef um karl væri að ræða.“
Sjálfur hefur Stefán unnið með Sólveigu Önnu og þekki hennar kosti, en hann hafi ítrekað orðið vitni að því að hún njóti ekki sannmælis, þá einkum beinskeytt og hrjúft orðalag notað gegn henni.
Stefán bendir á að Sólveig Anna sé að berjast fyrir mikilvægum réttindum í þjóðfélaginu – kjörum láglaunafólks og þeirra sem standa verst í samfélaginu, einkum láglaunakonum. Því væri það eðlilegt að ætla að jafnaðarfólk og femínistar myndu fagna Sólveigu Önnu, sem og aðrir verkalýðsleiðtogar. Sú sé þó ekki raunin.
„En uppá þetta hefur nokkuð vantað. Verkalýðsleiðtogar sem voru fyrir á fleti hafa oft mætti Sólveigu Önnu með fyrirvara og afbrýði þeirra sem hugsa öðru fremur um að verja sín hreiður og landamerki og hafa engan hug á að hleypa nýliðum sem vilja breyta starfsháttum of langt. Þannig hefur Sólveig Anna stundum rekist á veggi innan hreyfingarinnar. Ekki hefur alltaf þótt sjálfsagt að leita samráðs við hana þó hún fari fyrir næststærsta félaginu innan ASÍ – og langstærsta félagi verkafólks á landinu. Og nú þykir mörgum forystumönnum innan hreyfingarinnar sjálfsagt að hún og umbjóðendur hennar í Eflingu sporðrenni óbreyttum kjarasamningi sem aðrir hafa gert – rétt eins og hún og hennar fólk séu réttlausir óvitar sem ekki sé treystandi fyrir eigin samningsrétti.“
Stefán segir að meðferðin sem Sólveig Anna hafi mátt þola sé í sérflokki. Hún hafi ekki notið sömu virðingar og aðrir forystumenn samningsaðila atvinnurekenda í verkalýðshreyfingunni og því sé eðlilegt að velta því fyrir sér hvort það sé sökum þess að Sólveig Anna er kona.
„Hvernig Halldór Benjamín, framkvæmdastjóri samtaka atvinnurekenda (SA), leyfir sér að tala um hana sem óalandi og óferjandi er einstakt og raunar kennslubókardæmi um lítilsvirðingu – ef ekki beinlínis kvenfyrirlitningu“
Samtök atvinnulífsins hafi ýtt undir ófrægingarherferð og haldi mögulega að þannig nái þeir bestum árangri við samningaborðið.
„Kannski er markmiðið að niðurlægja hana og þar með slökkva þann kyndil innan verkalýðshreyfingarinnar sem er líklegastur til að koma óþægilega verið fyrirtækjaeigendur.“
Nú hafi ríkissáttasemjari slegist í hóp með fulltrúum atvinnurekenda með miðlunartillögu sinni. Sögulega eigi miðlunartillögur að vera millivegur milli aðila við samningaborðið en í tilviki Eflingar og Sólveigar Önnu hafi sáttasemjari farið þá leið að leggja fram samning sem Samtök atvinnulífsins hafi lagt fram, án nokkurs tillits til Eflingar.
Stefán segir að þeir sem skilji erindi og aðferðir Sólveigar Önnu viti að hún sé góður fulltrúi sinna félagsmanna og tali þeirra máli af krafti.
„Fagurfræði málfarsins ætti að vera aukaatriði en ekki aðalatriði. Má hún ekki bara tala eins og sjómaður og taka svolítið hressilega á forréttindastéttunum, þeim sem tregast við að skapa aðstæður i þessu ríka landi okkar sem gera verst stadda verkafólkinu kleift að ná endum saman?“
Skorar Stefán á alla „vel meinandi jafnaðarmenn og konur í landinu“ að ljá baráttunni um betri kjör lið sitt.