„Það er mjög svo óeðlileg krafa, hvað þá niðurstaða, að fólk geti ferðast hingað og fengið húsnæði, framfærslu og önnur félagsleg réttindi til langs tíma eftir að hafa verið synjað um alþjóðlega vernd á tveimur stjórnsýslustigum,“ segir Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í aðsendri grein í Fréttablaðinu.
Núna liggur fyrir Alþingi frumvarp til breytinga á útlendingalögum en núgildandi lög eru frá árinu 2017. Meðal annars er gert ráð fyrir skertri þjónustu til hælisleitenda eftir að umsókn um vernd hefur verið synjað. Diljá segir að slíkar breytingar færi okkur nær löggjöf hinna Norðurlandanna enda hafi ráðgjafar frá þeim verið til aðstoðar við smíði frumvarpsins. Diljá segir:
„Það er jafnvel svo að fólk getur tafið eigin brottvísun þegar ákvörðun um hana liggur fyrir, mánuðum og jafnvel árum saman án þess að það hafi nokkur áhrif á rétt viðkomandi til húsnæðis eða framfærslu frá íslenska ríkinu. Getur verið að einhverjum finnist það eðlilegt? Ég tel að fólk almennt telji svo ekki vera. Að réttara sé að verja fjármunum ríkisins til annarra sem þeirra þurfa.“
Diljá segir þessa framkvæmd ólíka því sem tíðkist í nágrannalöndum okkar þar sem almenna reglan sé sú að þjónustustig minnki og hverfi þegar einstaklingur fær synjun á umsókn um alþjóðelga vernd. „Þá skiptir það sömuleiðis máli í flestum ríkjum hversu samvinnufúsir einstaklingar eru við framkvæmd ákvörðunar um synjun og brottvísun frá landinu. Framangreint á við um Svíþjóð, Noreg, Danmörku og þetta á við um um Finnland. Af hverju ekki hér?“ segir hún ennfremur.
Diljá segir að umræddar breytingar muni færa útlendingalöggjöf okkar nær því sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum:
„Að mínu mati hafa þeir andstæðingar frumvarpsins sem fjallað hafa málefnalega um það, alls ekki fært sannfærandi rök fyrir því að Ísland skuli, ein þjóða, skera sig úr hinni norrænu fjölskyldu í þessum málum.“