Efling hafnar lögmæti miðlunartillögu sem ríkissáttasemjari hefur ákveðið að leggja í dóm félagsmanna Eflingar og Samtaka atvinnulífsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.
Efling fordæmir jafnframt vinnubrögð ríkissáttasemjara.
„Efling – stéttarfélag hafnar lögmæti miðlunartillögu sem ríkissáttasemjari lagði fram í morgun. Tillagan var lögð fram með óeðlilegum flýti og án samráðs við Eflingu. Ríkissáttasemjari hefur að mati Eflingar brotið ákvæði laga um stéttarfélög og vinnudeilur um samráð við deiluaðila, sem ber að viðhafa áður en miðlunartillaga er lögð fram.“
Efling telur þar að auki að miðlunartillagan gangi gegn öllum venjum í samskiptum aðila vinnumarkaðs, en hefðin sé sú að miðlunartillögur taki mið af kröfum beggja. Miðlunartillaga í þessu máli feli í sér að „afstöðu annars aðilans er þröngvað upp á hinn“
Ekkert tillit hafi verið tekið til sjónarmiða Eflingar í tillögunni og fordæmir Efling þau vinnubrögð.
„Á blaðamannafundi í dag lét ríkissáttasemjari þess ógetið að til að miðlunartillögu sé hafnað skv. lögum um stéttarfélög og vinnudeilur nægir ekki að henni sé hafnað af meirihluta greiddra atkvæða. Mótatkvæði þurfa auk þess að vera fjórðungur af öllum á kjörskrá. Þetta fyrirkomulag atkvæðagreiðslu er ólýðræðisleg og íþyngjandi, sem setur enn frekari spurningarmerki við það samráðsleysi sem embætti ríkissáttasemjara sýnir gagnvart Eflingu.“
Umrædd miðlunartillaga felur í sér tillögu að sambærilegum kjarasamningi og Starfsgreinasambandið hefur samið um, þar með talið afturvirkar launahækkanir frá 1. nóvember 2022. Stendur til að kosið verði um tillöguna eftir helgi og verður niðurstaðan bindandi fyrir bæði Samtök atvinnulífsins og Eflingu, verði tillagan samþykkt af félagsmönnum.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir í samtali við mbl.is að ljóst sé að ríkissáttasemjari hafi brotið lög. Sjálf hafi hún frétt af miðlunartillögunni í gegnum þriðja aðila og hafi ríkissáttasemjari hótað henni aðgerðum ef hún mætti ekki til fundar.
„Atburðarrásin er með svo miklum ólíkindum að það er erfitt fyrir mig á þessum tímapunkti að ná utan um það sem gerst hefur. Í okkar huga er ljóst að ríkissáttasemjari hefur brotið ákvæði laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Brotið er fólgið í því að ekkert samráð var haft við Eflingu en í lögunum þá ber að viðhafa samráð við deiluaðila í aðdraganda þess að ríkissáttasemjari leggur fram miðlunartillögu.“