Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir að viðbrögð kennara í glærumálinu svokallaða valdi honum meiri áhyggjum en glærurnar sjálfar sem hann vonaði að heyrðu til undantekninga. Þetta kemur fram í færslu Sigmundar Davíðs á Facebook-síðu sinni þar sem hann fer yfir málið.
„Þegar ég gagnrýndi að kennari við Verslunarskólann hefði sýnt einstaklega ógeðfelda glæru í kennslustund lét ég fylgja sögunni að starf kennara væri eitt hið mikilvægasta og göfugasta í hverju samfélagi. Ég hafði þó áhyggjur af þróuninni.
Nokkrir hafa bent á hversu takmörkuð viðbrögðin við þessu atviki hafa verið, auk glæru sem bjó til samhengi milli Sjálfstæðisflokksins og þriðja ríkisins þar með talið dauðasveita Gestapo og SS. Ef þetta hefði verið árás á vinstrið og formanni Vinstri grænna verið líkt við hinna morðóðu Stalín og Pol Pot hefði væntanlega allt farið á hliðina í opinberri umræðu. Þá mætir stjórnandi kennaranáms við Háskóla Íslands í viðtal í Ríkisútvarpinu (hvar annars staðar) og staðfestir ekki aðeins áhyggjurnar heldur ýtir verulega undir þær,“ skrifar Sigmundur Davíð.
Vísar hann þar í viðbrögð Guðrúnar Ingu Sívertsen, skólastjóra Verzlunarskólans, sem sagði umrædda glæru vera tekna úr samhengi en játaði að hún væri klaufaleg.
„Yfir-kennarakennarinn hafði fyrst og fremst áhyggjur af því að stjórnmálamenn skyldu leyfa sér að gera athugasemdir við ógeðfelldan áróður gegn þeim. Kennarar ættu að vera frjálsir að því að nýta stöðu sína að vild. Því var svo bætt við, eins og eftir handriti Orwells, að þetta væri sérstaklega mikilvægt til að efla gagnrýna hugsun og takast á við falsfréttir. Kennarinn sem sýndi glæruna í Verslunarskólanum hafði engan áhuga á gagnrýni í kennslustundinni, þvert á móti. Og er það ekki falsfrétt (falskennsla) að búa til beint samhengi milli Sjálfstæðisflokksins og einhverra alræmdustu morðsveita sögunnar? Þetta er ekki gæfulegt. Skattgreiðendur borga fyrir menntun ungu kynslóðarinnar og foreldrar verða að geta treyst því að í skólum barnanna stundi kennarar ekki óhugnanleg afbökun til að sverta pólitíska andstæðinga. Viðbrögð kennarans sem stjórnar kennslu kennara valda mér meiri áhyggjum en glærurnar sem ég vonaði að væru undantekningar,“ skrifar Sigmundur Davíð.