Dótturfyrirtæki Orkuveitur Reykjavíkur, Ljósleiðarinn ehf, hefur fest kaup á stofnkerfi Sýnar og gert tíu ára þjónustusamning við fyrirtækið. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, vekur athygli á því í grein í Morgunblaðinu í dag, að bannað sé að ræða þetta mál í borgarstjórn.
„Samningurinn felur í sér nokkurra milljarða króna viðbótarskuldsetningu Ljósleiðarans og þar með OR-samstæðunnar og Reykjavíkurborgar,“ segir Kjartan í grein sinni.
Hann segir viðskiptasamninginn vera óvenjulegan og fela í sér áhættufjárfestingu fyrir OR:
„Ljóst er að umræddur viðskiptasamningur er mikils háttar og um margt óvenjulegur. Um er að ræða margra milljarða króna áhættufjárfestingu utan skilgreinds starfssvæðis Orkuveitunnar. Eðlilegt hefði verið að fram færi umræða á vettvangi borgarstjórnar um slíkan viðskiptasamning og þá stefnubreytingu sem hann hefur í för með sér fyrir OR og Reykjavíkurborg.“
Kjartan greinir frá því að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi farið fram á umræðu um málið í borgarstjórn þann 20. desember síðastliðinn. Fulltrúar meirihlutans hafi hins vegar bannað að málið yrði sett á dagskrá. Hið sama hafi gerst þegar reynt var að taka málið til umræðu þann 3. janúar. Kjartan ritar:
„Með slíku umræðubanni hafa orðið ákveðin tímamót í borgarstjórn Reykjavíkur. Aldrei áður hefur verið brotið gegn þeim rétti borgarfulltrúa að setja löglega fram borið mál á dagskrá borgarstjórnarfundar. Með slíku banni gerist meirihlutinn sekur um valdníðslu og einokunartilburði.
Slíkt bann er gróft brot á ákvæðum 27. greinar sveitarstjórnarlaga og 34. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. En þar er skýrt kveðið á um að borgarfulltrúi eigi rétt á að tekið verði á dagskrá borgarstjórnarfundar hvert það málefni, sem varðar hagsmuni sveitarfélagsins eða verkefni þess.“
Ástæða umræðubannsins er að sögn meirihlutans sú að málefni Ljósleiðarans ehf séu mjög viðkvæm og bundin trúnaði. Kjartan bendir hins vegar á að samkvæmt sveitarstjórnarlögum megi ræða trúnaðarmál fyrir luktum dyrum í borgarstjórn. Hann segir ennfremur:
„Með slíku umræðubanni hafa orðið ákveðin tímamót í borgarstjórn Reykjavíkur. Aldrei áður hefur verið brotið gegn þeim rétti borgarfulltrúa að setja löglega fram borið mál á dagskrá borgarstjórnarfundar. Með slíku banni gerist meirihlutinn sekur um valdníðslu og einokunartilburði.
Slíkt bann er gróft brot á ákvæðum 27. greinar sveitarstjórnarlaga og 34. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. En þar er skýrt kveðið á um að borgarfulltrúi eigi rétt á að tekið verði á dagskrá borgarstjórnarfundar hvert það málefni, sem varðar hagsmuni sveitarfélagsins eða verkefni þess.“
Kjartan sakar meirihlutann um laumuspil og leyndarhyggju og segir lög brotin með umræðubanninu:
„Tilgangurinn er sá að koma í veg fyrir óþægilega umræðu um stórfellda lántöku Ljósleiðarans og áhrif hennar á fjárhagsáætlanir OR og Reykjavíkurborgar. Þá er ljóst að borgarstjóri og aðrir borgarfulltrúar meirihlutans vilja firra sig ábyrgð á málinu en varpa henni þess í stað á stjórn OR eftir því sem kostur er.“