Svona hefst pistill sem organistinn Örn Falkner skrifar en pistillinn var birtur í Morgunblaðinu sem kom út í dag. Haustið 2020 var Árbæjarlón tæmt að frumkvæði Orkuveitu Reykjavíkur en framkvæmdin hefur verið gríðarlega umdeild. Björn Gíslason, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði til að mynda í október síðastliðnum í samtali við Vísi að lónið hafi verið tæmt í skjóli nætur og að ekki hafi verið gert í samráði við einn né neinn.
Örn kallar þetta „einræðislega aðgerð forstjóra OR“ og lýsir svo afleiðingunum. „Botninn og drullan standa víða upp úr. Minjar til 100 ára sem heita áttu friðaðar að engu gerðar í ósátt við lög og tilskilin leyfi,“ segir hann.
„Árbæjarvirkjunin var byggð vegna lónsins og má ætla að lítið lón hafi einnig verið þar fyrir í Árbæjarkvíslinni. Ótrúlegt er að borgarstjórinn DBE þóttist ekkert vita af þessum gjörningi þó að borgin eigi rúm 93% í OR. Það var dapurlegt að fylgjast með eftirleiknum, vinnuflokkar slógu gróður úr hólminum til að setja hann niður í drulluna sem eftir stóð og varúðarskiltin mörg vegna þess að drullan var hættulegri börnum í mínum huga en lónið í 100 ár.“
Erni hefur finnst sorglegt að fylgjast með því hvernig fuglalífið er búið að breytast eftir að lónið var tæmt. „Ég kom tvívegis að dauðum gæsum, sá líka máva á flugi með andarunga í kjaftinum og álftarunga sem týndu lífinu,“ segir hann.
„Fylgdist með þegar fleiri tegundir komu á sinn gamla stað en fóru jafnan aftur. Hef ekki orðið var við endurnýjun á vaðfuglum þarna nálægt. Í syðri ánni við stífluna sem var alltaf full af laxi hefur maður varla séð fisk á annað ár þótt það komi auðvitað fyrir. Aftur á móti sést lax í Árbæjarkvíslinni en það er svo sem ekkert nýtt þótt þeir geti nú rafvætt seiði og fylgst betur með þar.“
Örn segist hafa talað við nágranna sína og að þeir séu allir á móti þessu. „Maður gengur ekki lengur glaður til vinnu eftir svona náttúruspjöll,“ segir hann svo.
„Ég vil vekja athygli á að áin getur varla talist upprunaleg nú eins og þeir vilja vera láta. Elliðavatn er uppistöðulón, stífluvegg við barm vatnsins (þar sem hægt er að stjórna flæði til árinnar) þyrfti að taka og þá myndi hálft Elliðavatn hverfa við sjálfsagt litla hrifningu nærstaddra.“
Að lokum bendir Örn á að framkvæmdin var kærð til nefndar umhverfis- og auðlindamála. „Gjörningurinn var ólögmætur,“ fullyrðir hann.
„Samkvæmt niðurstöðu ber OR að skila lóninu í upphaflegu ástandi en meirihlutinn ásamt borgarstjóra þráast við og vísaði tillögu sjálfstæðismanna um að fylla lónið á ný frá. Þeir gerast því lögbrjótar og var málflutningur þeirra sannleikanum til skammar. Við smáborgararnir kæmumst aldrei upp með að brjóta lögin á þennan hátt. En málið fer væntanlega lengra og við sjáum hvort einræðið eða lýðræðið sigrar að lokum.“