Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag og segir að óþolinmæði sé farið að gæta og beðið sé eftir að Framsóknarflokkurinn taki frumkvæði en hann var ótvíræður sigurvegari kosninganna.
Blaðið segir að bæði Dagur og Hildur hafi rætt töluvert við Einar Þorsteinsson, oddvita Framsóknarflokksins, en hann hafi ekki látið neitt uppi um hvort hann vilji horfa til hægri eða vinstri. Hefur blaðið eftir einum viðmælanda að sýnt hafi verið á mörg spil í vangaveltum um nýja borgarstjórn en síðan segi enginn neitt.
Blaðið segir að Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn bíði eftir að Framsóknarflokkurinn geri upp hug sinn en úr þeim herbúðum berist að Einari liggi ekkert á. Ekki eru allir sammála því og telja að hann geti ekki beðið mikið lengur, nú þurfi að fara að reyna að mynda meirihluta af alvöru.