Hagsmunasamtök heimilanna skora á stjórnvöld að hugsa til heimila landsins nú þegar bregðast eigi við kólnandi hagkerfi og Covid-19 veirunni. Varað er við því að endurtaka mistökin frá fjármálakreppunni 2008.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum:
„Hagsmunasamtök heimilanna vilja því beina því til ríkisstjórnar Íslands að endurtaka ekki mistök fyrri ríkisstjórna og muna að aðgerðir hennar eigi fyrst og fremst að snúast um að verja heimilin í landinu. Þá er vert að minna á að Stjórnarskráin er samin fyrir einstaklinga og heimili þeirra en ekki til að verja stjórnkerfið eða fjármálafyrirtækin.“
Samtökin segja undarlegt að stjórnvöld hafi ekki minnst á heimili landsins á blaðamannafundinum í gær þegar tillögur um viðspyrnu vegna efnahagslægðar og Covid-19 veirunnar voru kynntar:
„Það skýtur því óneitanlega skökku við að í viðspyrnu ríkisstjórnarinnar er ekki minnst einu orði á heimilin, frekar en þau væru ekki til. Þetta er því miður sama hugarfarið og einkenndi aðgerðir stjórnvalda í kjölfar hrunsins, þar sem ekkert var gefið eftir gagnvart heimilunum sem voru látin taka á sig höggið af fullum þunga og með skelfilegum afleiðingum. Það má alls ekki endurtaka sig. Þá, eins og nú, hafði Ríkisstjórn Íslands samráð við Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) um “lausnir” og nú eins og þá, hunsar hún algjörlega fulltrúa heimilanna. Hagsmunasamtök heimilanna þurfa ekki síður að koma að borðinu en SFF og jafnvel enn frekar.“
Hagsmunasamtök heimilanna fara fram á að strax verði sett þak á verðtryggingu lána heimilanna að hámarki 3,5%:
„Hefði það verið gert í kjölfar bankahrunsins 2008 hefði margt farið á annan veg og þúsundir fjölskyldna ekki misst heimili sín. Hagsmunasamtök heimilanna benda á að það sem veldur heimilunum meiri skaða en nokkuð annað er hækkun verðbólgu vegna þess sér-íslenska og stórhættulega fyrirkomulags sem heitir verðtrygging á lánum heimilanna,“
segir í tilkynningunni.
Þar er nefnt að fari verðbólgan „af stað“ hafi engin stjórn á því sem gerist nema gripið sé í taumana strax með fyrirbyggjandi aðgerðum:
„Aðstæður eins og þær sem núna hafa skapast staðfesta það sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa krafist frá seinasta hruni að afnema beri með öllu verðtryggingu lána heimilanna án tafar, því hún veldur bæði þeim og hagkerfinu öllu stórfelldum skaða. Vonandi kemur ekki til þess, en fari allt á versta veg þá verður Ríkisstjórn Íslands einnig að grípa til “frestheimilda” á greiðslum húsnæðislána á sama eða svipaðan hátt og ríkisstjórn Ítalíu er að gera. Hagsmunasamtök heimilanna bjóða Ríkisstjórn Íslands aðstoð sína og óska hér með formlega eftir aðkomu að þeim leiðum og lausnum fyrir heimilin í landinu sem sannarlega þarf að fara í á þessum sérstöku tímum sem nú ganga yfir, því sameinuð getur íslensk þjóð sigrast á öllum vanda.“