fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Tap menningarlegs fullveldis – stefnir í algjör yfirráð bandarískra stórfyrirtækja

Egill Helgason
Fimmtudaginn 26. september 2019 12:01

Eftir 25 ár er Netflix hætt þessu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hér á Íslandi er mikið rætt um fullveldi. En staðreyndin er sú að umræðan sýnst að mestu leyti um peninga og veraldleg gæði, en ekki um menntir eða menningu. Þetta er býsna ólíkt því sem var á tíma sjálfstæðisbaráttunnar og framan af lýðveldistímanum þegar hvað mest var deilt um hersetuna.

Þá var áherslan mikið á menningu og sjálfsmynd þjóðarinnar – máski var stundum gengið of langt – en þetta kristallaðist í baráttunni gegn Kanasjónvarpinu.

Mark Thompson er fyrrverandi forstjóri BBC en er nú framkvæmdastjóri hjá stórblaðinu New York Times. Thompson hélt fyrirlestur í London í vikunni þar sem hann varaði við að Bretland gæti misst „menningarlegt fullveldi“ sitt vegna hins mikla vaxtar bandarískra efnisveita eins og Netflix og Amazon Prime. Nú eru HBO og Disney líka að setja á laggirnar stórar efnisveitur.

Thompson segir að á tíma þegar dagblöð og sjónvarpsstöðvar berjast í bökkum sé mikil hætta á að efni sem endurspeglar sameiginlega reynslu áhorfenda víki og glatist loks. Þetta eru meðal annars fréttir, leikið efni, heimildaþættir – efni sem er ætlað til heimanotkunar í nærsamfélaginu. Við þurfum nefnilega líka að tala við okkur sjálf og læra að skilja okkur sjálf og fólkið sem deilir með okkur samfélaginu.

Efnisveiturnar framleiði vissulega mikið af góðu efni, en þetta geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir samfélagsgerðina:

„Samfélagi, sem getur ekki fært mismunandi hópum innan þess leið til að hlusta á og skilja fortíðina og nútíðin, ætti ekki að koma á óvart þótt gagnkvæmt skilningsleysi og sundurlyndi sé afleiðingin. Ef þið efist um að þetta tengist stjórnmálum nútímans og velferð þegnanna, þá þurfið þið að taka betur eftir.“

Sagði Thompson. Tap hins menningarlega fullveldis mun semsagt leiða til aukinnar úlfúðar. Hann hvetur til þess að ríkið styðji fjölmiðla heima fyrir til að sporna gegn algjörum yfirráðum bandarískra stórfyrirtækja.

Ásgrímur Sverrisson kvikmyndagerðarmaður veltir vöngum yfir ræðu Thomsons á Facebook og ræðir um möguleika stóru efnisveitanna til að ná yfirburðum á kostnað staðbundinnar menningar – menningarlegs sjálfstæðis – og hvernig við Íslendingar getum brugðist við:

„Grínaktugt er hjalið um RÚV sem „fílinn í herberginu“ og nauðsyn þess að minnka umsvif stofnunarinnar. Á meðan er þetta að gerast, sem fyrrum útvarpsstjóri BBC bendir á. Risastærð bandarískra efnisveita á borð við Netflix og Amazon Prime og möguleikar þeirra til að ná gífurlegum yfirburðum verða á kostnað staðbundinnar menningar (menningarlegs sjálfstæðis), nema stjórnvöld grípi til ráðstafana og verji meira fé í BBC og annað sem styður staðbundna menningu, það sem býr til samfélög og gefur þeim sjálfsmynd. Bretar eru 60 milljónir plús og þar hefur þessi umræða verið áberandi undanfarin misseri. Hafi þau áhyggjur ættum við að hafa þær enn frekar, því þetta mun hafa enn meiri áhrif á litla Íslandi. Það er gott og blessað að fá aðgang að erlendu úrvalsefni (og drasli  ). En þessvegna er enn mikilvægara að bjóða upp aðra valkosti hér, það er innlent efni. Það er samfélagslegt verkefni og því eðlilegt að gera það gegnum RÚV meðal annars. Því á að auka umsvif RÚV á komandi árum með markvissum hætti. Áherslan verði algerlega á innlenda dagskrá (ég hef beint á þetta ítrekað síðan amk 1995). Að sjálfsögðu þarf einnig að finna leiðir til að gera einkaaðilum betur kleift að sinna íslensku efni. Módelið sem byggir á því að innlendir aðilar séu að dreifa hér vinsælu erlendu dagskrárefni er að renna sitt skeið á enda. Mörg risafyrirtæki eru að koma fram með alþjóðlegar efnisveitur; Apple, Disney, NBCUniversal, AT&T gegnum HBO Warner og fleiri. Þessir aðilar munu líklega að einhverju leyti taka að sér að fjármagna lókal efni hér og hvar og sjálfsagt er ekki langt að bíða þess að einhver þessara efnisveita fjármagni alfarið íslensk verk. En það verður afar selektívt. Við, sem og flestar aðrar þjóðir, þurfum einnig að hafa sterkan vettvang fyrir efni sem á í beinni samræðu við samfélag sitt með margvíslegum hætti. Þetta þarf að sjálfsögðu að gerast samfara áframhaldandi sterkri alþjóðlegri sókn íslenskrar menningar. Já, við eigum mikið og brýnt erindi við umheiminn en ekki síður við okkur sjálf.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt