fbpx
Miðvikudagur 23.september 2020
Eyjan

Dagur íslenskrar tungu – og hið léttvæga framlag mitt

Egill Helgason
Laugardaginn 16. nóvember 2019 14:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er dagur íslenskrar tungu. Hjá okkur sem vinnum í fjölmiðlum eru reyndar flestir dagar dagar íslenskrar tungu. Liggur við að maður sé feginn þegar ekki er dagur íslenskrar tungu – þá er maður í fríi. Það er heldur ekki alltaf jafn mikils metið að starfa á akri tungunnar, blaðamenn eru í verkfallsbaráttu, mér sýnast þeir hvorki fá mikinn stuðning né undirtektir, en það eru engar ýkjur að þeir eru á sultarlaunum upp til hópa.

Líklega hefur aldrei verið skrifuð meiri íslenska en nú. Allir sem vettlingi geta valdið rita eitthvað á samfélagsmiðla. Vissulega eru það stuttir textar yfirleitt, en íslenska er það samt og þarna fer fram talsverð nýsköpun. Kannast lesendur til dæmis við skammstöfunina mafs?

Þetta er stytting á „menn að fá sér“ – þá væntanlega áfengi eða jafnvel fíkniefni.

Stundum hugsar maður reyndar að það hefði verið gaman að geta tjáð sig almennilega á stærra tungumáli en þessu forna útkjálkamáli sem varðveittist í sinni mynd vegna þess hvað Ísland var afskekkt. Þá hefði maður kannski getað starfað á „stærri markaði“. En það þýðir ekki að sýta það – glíman við íslenskuna hefur að mestu leyti verið mjög ánægjuleg.

Ég hef alltaf jafn gaman af því að vitna í kvæðið sem vinur minn Atli Magnússon blaðamaður fór stundum með fyrir mig – og þá vantaði ekkert upp á tilþrifin eða framsögnina. Þetta er eftir Guðmund Friðjónsson, skáld og bónda á Sandi í Þingeyjarsýslu (við fjöllum brátt um hann í Kiljunni), kvæðið heitir Niðurstaða:

Fór ég í heiði, fékk ég eina tínu.
Fór ég á engi, sló ég miðlungsbrýnu.
Út reri ég – og einn ég fékk í hlut.
Upp dreg ég bát í naust með léttan skut.
Stilltu þig, son minn. Stillið grátinn, dætur,
strengharpa mín þó laskist. Góðar nætur!
Norræna lifir, einn þó undan beri
útskagamann sem langan barning reri.
Öldurnar vaka, yrkja ljóð á skeri.

Ég er svosem ekki viss með mitt framlag til íslenskrar tungu. Mikið af því hefur verið á internetinu og verður sjálfsagt týnt og tröllum gefið fyrr en varir. Í byrjun næsta árs verða liðin tuttugu ár síðan ég hóf að skrifa pistla á netið. Þeir birtust fyrst á vef sem hét Strikið, svo um tíma á Vísi, en hér á Eyjunni hef ég verið síðan 2007, að mér telst til. Þetta er mikið magn af texta, margt af því er væntanlega gjörsamlega úrelt, en á vissan hátt er þetta líkt og dagbók – ég ætti kannski að gera meira til að taka þetta saman og varðveita. En ég hef nóg annað að sýsla.

Ég dáist að mönnum sem geta sett saman snjöll nýyrði. Það fer ekki miklum sögum af nýyrðasmíð minni. Einhvern tíma var mér sagt að það hefði líklega verið ég sem kom orðinu ömurð í nokkuð almenna notkun – en ég er ekki viss um það. Ég heyri það stundum notað. Önnur nýyrði úr minni smiðju hafa ekki náð útbreiðslu, nema mjög takmarkaðri. Hér á heimilinu er aldrei talað um fjarstýringu, við notum orðið fjarmi – „hefurðu séð fjarmann?“

Við Egill Ólafsson (sem er með málhögustu mönnum) vorum að gantast yfir kaffibolla um daginn og bjuggum til orðið rafskotta eða einfaldlega skotta. Þetta er betra og þjálla orð en „rafhlaupahjól“ – af því leiðir meira að segja sögnin „að skotta“ eða „að skottast“. „Skottastu út í búð fyrir mig.“

Það sem á ensku kallast „road rage“ er vaxandi vandamál eftir því sem umferðarhnútarnir verða stærri. Bílstjórar geta orðið æfir af reiði í umferðinni þegar þeir komast hvorki lönd né strönd. Ég velti fyrir mér hvort þetta megi kalla ökufár.

Jónas Hallgrímsson var einn helsti nýyrðasmiður íslenskunnar. Hann var uppi á tíma þegar Íslendingar fóru aðeins að komast í tæri við nútímann, umheiminn, vísindin – sem „efla alla dáð“ eins og Jónas orti. Hann samdi til dæmis orðin páfagaukur og mörgæs. Hann bjó reyndar líka til orðið framsókn sem síðar varð nafnið á stjórnmálaflokki.

Og svo eru orð eins og almyrkvi, dýrafræði, efnafræði, einstaklingar, fábrotinn, geislabaugur, haförn, himingeimur, knattborð, líffæri, lífvörður, ljóshraði og ljósvaki, mun aðarleysingi, sjónauki, skjaldbaka, sólmyrkvi, sólmiðja, spendýr, stjörnuþoka, svarthol, undirgöng, þjóðkjörinn, þjóðareign, æðakerfi.

Allt hljómar svo fallega – þetta eru svo fín íslensk orð og einhvern finnur maður fyrir töfrasnertingu Jónasar. Til hamingju með daginn og afmælið hans.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Tommi opnar sig um framboðið – „Ég skal viðurkenna að ég hef enga reynslu“

Tommi opnar sig um framboðið – „Ég skal viðurkenna að ég hef enga reynslu“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Sigurður segir óveðursskýin vofa yfir þjóðinni

Sigurður segir óveðursskýin vofa yfir þjóðinni
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segir ásakanir Dóru á sandi reistar – Píratar samþykktu sjálfir skipulagið

Segir ásakanir Dóru á sandi reistar – Píratar samþykktu sjálfir skipulagið
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Hörður kallar Sólveigu „skaðvald“ – „Frekleg og ítrekuð afskipti“

Hörður kallar Sólveigu „skaðvald“ – „Frekleg og ítrekuð afskipti“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Útilokar ekki að kæra Dóru – „Ég er algjörlega saklaus“

Útilokar ekki að kæra Dóru – „Ég er algjörlega saklaus“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Bolli Kristins í 17 tæklar Dag B. í heilsíðu auglýsingu – „Borgarstjórann burt“

Bolli Kristins í 17 tæklar Dag B. í heilsíðu auglýsingu – „Borgarstjórann burt“